Hjáróma raddir 15. apríl 2005 00:01 Þær raddir heyrast öðru hvoru að óþolandi ástand sé að skapast í háskólum landsins. Háskólakennarar, skreyttir virðulegum og framandlegum titlum, prófessorar, lektorar, aðjúnktar og guð má vita hvað, séu farnir að tjá sig um hvaðeina sem efst er á baugi í samfélaginu sem sérfróðir og sérhæfðir álitsgjafar, og oft um efni sem sé víðsfjarri þeim þröngu sérgreinum, sem þeir kunna að hafa tileinkað sér á langri skólagöngu, oft við virðulegar erlendar stofnanir. Oftar en ekki sé þetta lið haldið meinlegri "vinstrislagsíðu", skoðanir þess séu úr takti við "meginstrauma þjóðfélagsins", þess æðsta yndi sé að "vera á móti", móti ákvörðunum löglega kjörinna stjórnvalda, sem séu í fullum rétti til að beita valdi sínu svo sem þeim sýnist, þar til þau þurfi að standa þjóðinni reikningsskil í næstu kosningum. Valdhafar allra landa leggja að sjálfsögðu mikið upp úr því að menn séu einhuga. Flokkar skulu vera einhuga, ef á að taka mark á þeim. Einhuga lið á að fylkja sér að baki stjórnvöldum og samþykkja hvaðeina sem frá þeim kemur, vegna þess að við "erum í liði". Liðræðið er æðsta takmarkið. Þeir sem hugsa upphátt öðruvísi hugsanir en valdhöfunum eru þóknanlegar eru "hjáróma raddir" og það er lofsvert að "þagga niður" í slíkum röddum, "kenna þeim lexíu", láta þá vita að þeir eiga framgang í starfi, betri launa- og starfskjör og velgengni yfirleitt í lífinu undir þeim sem þeir eru að vinna gegn með mótmælum sínum eða viðrun á "annarlegum" skoðunum og sjónarmiðum. Hingað til hafa spjótin einkum beinst gegn þeim deildum háskólanna sem fást við hugvísindi og félagsvísindi, enda oft hægt að skoða viðfangsefni þeirra greina frá mismunandi sjónarhólum og komast að mismunandi niðurstöðum út frá ólíkum forsendum. Það sem þá skiptir máli er hversu traust röksemdafærsla viðkomandi fræðimanns er fyrir því áliti sem hann gefur. Staða hans gefur honum út af fyrir sig engu meiri þungavikt en hverjum öðrum, það eru aðeins forsendur og rök sem gilda. Það sem háskólamaðurinn á að öðru jöfnu að hafa fram yfir meðaljóninn er að nálgast viðfangsefni sitt með vísindalegri aðferð, þar sem lífsviðhorf hans eiga ekki að hafa teljandi áhrif á niðurstöður. Raunvísindin hafa verið minna umdeild. En með þróun umhverfisvísindanna á síðustu áratugum hafa raunvísindamenn æ oftar lent í brennidepli hatramra pólitískra deilna. Stjórnmálamenn krefjast þess að fá frá þeim röksemdafærslur sem falli að fyrir fram gefnum niðurstöðum um stórframkvæmdir. Þeir vilja því að framkvæmdamenn fái að ritstýra álitsgerðum þeirra, fella niður óþægilegar staðreyndir og sveigja aðrar að hugnanlegri lausnum. Sitji vísindamennirnir fast við sinn keip eru þeir kostir fyrir hendi að lýsa vísindi þeirra ónákvæm, eða þá sjálfa ómarktæka sökum pólitískra viðhorfa sinna. Hingað til hafa árásir pólitíkusa á akademískt frelsi hér á landi verið fremur máttlausar. Í Bandaríkjunum gegnir öðru máli. Heittrúaðir repúblikanar róa nú að því öllum árum að snúa klukkunni til baka um áratugi ef ekki aldir. Þeim er sérlega uppsigað við þróunarkenninguna. Flest okkar telja að síðan Darwin setti fram kenningu sína hafi sannanirnar fyrir henni hrannast svo upp að henni verði ekki mælt í mót. Þingmaður repúblikana í Flórída er á öðru máli. Hann hefur lagt fram tillögu á ríkisþinginu um "akademískt frelsi", nefnilega að íhaldssamir stúdentar geti farið í mál við prófessora sína, telji þeir að prófessorarnir hafi ekki sýnt skoðunum þeirra nægilega virðingu. Þingmaðurinn kveðst beina spjótum sínum að "vinstrimönnum" sem gangi gegn "ríkjandi skoðunum" og prófessorum sem hagi sér eins og "einræðisherrar" og umturni kennslustofum í "einræðishreiður". Helsta dæmi hans um akademískt einræði? Þegar prófessorar tala um þróun sem staðreynd og vísa á bug þeirri staðhæfingu heilagrar Ritningar að jörðin sé 6.000 ára gömul! Glórulaus öfgamaður, segir kannski einhver. En sams konar tillögur hafa nú verið bornar fram í 12 ríkjum, segir hagfræðingurinn víðkunni Paul Krugman í grein í New York Times þann 5. apríl. Og hvað segir Bush forseti um sönnunargildi þróunarkenningarinnar: "Kviðdómurinn hefur enn ekki kveðið upp úrskurð sinn"! Og nýlega lýsti repúblikani í hinni virðulegu Öldungadeild þingsins því yfir að allir þeir fjallháu hlaðar af rannsóknargögnum sem styðja almennt álit vísindamanna um loftslagsbreytingar væru "risavaxið gabb"! Eins og áður sagði hafa tilraunir íslenskra afturhaldsseggja til að stimpla íslenska háskólamenn sem pólitíska ómerkinga og skóla þeirra eða einstaka deildir sem "hreiður" stjórnarandstæðinga verið fremur máttlausar. En við höfum þó nýleg og öllum kunn dæmi um að valdhafar kjósa að líta framhjá og beinlínis hunsa álitsgerðir og alvarlegar aðvaranir íslenskra vísindamanna. Það ætti að hringja viðvörunarbjöllum jafnt hjá vísindamönnum sem öllum almenningi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Þær raddir heyrast öðru hvoru að óþolandi ástand sé að skapast í háskólum landsins. Háskólakennarar, skreyttir virðulegum og framandlegum titlum, prófessorar, lektorar, aðjúnktar og guð má vita hvað, séu farnir að tjá sig um hvaðeina sem efst er á baugi í samfélaginu sem sérfróðir og sérhæfðir álitsgjafar, og oft um efni sem sé víðsfjarri þeim þröngu sérgreinum, sem þeir kunna að hafa tileinkað sér á langri skólagöngu, oft við virðulegar erlendar stofnanir. Oftar en ekki sé þetta lið haldið meinlegri "vinstrislagsíðu", skoðanir þess séu úr takti við "meginstrauma þjóðfélagsins", þess æðsta yndi sé að "vera á móti", móti ákvörðunum löglega kjörinna stjórnvalda, sem séu í fullum rétti til að beita valdi sínu svo sem þeim sýnist, þar til þau þurfi að standa þjóðinni reikningsskil í næstu kosningum. Valdhafar allra landa leggja að sjálfsögðu mikið upp úr því að menn séu einhuga. Flokkar skulu vera einhuga, ef á að taka mark á þeim. Einhuga lið á að fylkja sér að baki stjórnvöldum og samþykkja hvaðeina sem frá þeim kemur, vegna þess að við "erum í liði". Liðræðið er æðsta takmarkið. Þeir sem hugsa upphátt öðruvísi hugsanir en valdhöfunum eru þóknanlegar eru "hjáróma raddir" og það er lofsvert að "þagga niður" í slíkum röddum, "kenna þeim lexíu", láta þá vita að þeir eiga framgang í starfi, betri launa- og starfskjör og velgengni yfirleitt í lífinu undir þeim sem þeir eru að vinna gegn með mótmælum sínum eða viðrun á "annarlegum" skoðunum og sjónarmiðum. Hingað til hafa spjótin einkum beinst gegn þeim deildum háskólanna sem fást við hugvísindi og félagsvísindi, enda oft hægt að skoða viðfangsefni þeirra greina frá mismunandi sjónarhólum og komast að mismunandi niðurstöðum út frá ólíkum forsendum. Það sem þá skiptir máli er hversu traust röksemdafærsla viðkomandi fræðimanns er fyrir því áliti sem hann gefur. Staða hans gefur honum út af fyrir sig engu meiri þungavikt en hverjum öðrum, það eru aðeins forsendur og rök sem gilda. Það sem háskólamaðurinn á að öðru jöfnu að hafa fram yfir meðaljóninn er að nálgast viðfangsefni sitt með vísindalegri aðferð, þar sem lífsviðhorf hans eiga ekki að hafa teljandi áhrif á niðurstöður. Raunvísindin hafa verið minna umdeild. En með þróun umhverfisvísindanna á síðustu áratugum hafa raunvísindamenn æ oftar lent í brennidepli hatramra pólitískra deilna. Stjórnmálamenn krefjast þess að fá frá þeim röksemdafærslur sem falli að fyrir fram gefnum niðurstöðum um stórframkvæmdir. Þeir vilja því að framkvæmdamenn fái að ritstýra álitsgerðum þeirra, fella niður óþægilegar staðreyndir og sveigja aðrar að hugnanlegri lausnum. Sitji vísindamennirnir fast við sinn keip eru þeir kostir fyrir hendi að lýsa vísindi þeirra ónákvæm, eða þá sjálfa ómarktæka sökum pólitískra viðhorfa sinna. Hingað til hafa árásir pólitíkusa á akademískt frelsi hér á landi verið fremur máttlausar. Í Bandaríkjunum gegnir öðru máli. Heittrúaðir repúblikanar róa nú að því öllum árum að snúa klukkunni til baka um áratugi ef ekki aldir. Þeim er sérlega uppsigað við þróunarkenninguna. Flest okkar telja að síðan Darwin setti fram kenningu sína hafi sannanirnar fyrir henni hrannast svo upp að henni verði ekki mælt í mót. Þingmaður repúblikana í Flórída er á öðru máli. Hann hefur lagt fram tillögu á ríkisþinginu um "akademískt frelsi", nefnilega að íhaldssamir stúdentar geti farið í mál við prófessora sína, telji þeir að prófessorarnir hafi ekki sýnt skoðunum þeirra nægilega virðingu. Þingmaðurinn kveðst beina spjótum sínum að "vinstrimönnum" sem gangi gegn "ríkjandi skoðunum" og prófessorum sem hagi sér eins og "einræðisherrar" og umturni kennslustofum í "einræðishreiður". Helsta dæmi hans um akademískt einræði? Þegar prófessorar tala um þróun sem staðreynd og vísa á bug þeirri staðhæfingu heilagrar Ritningar að jörðin sé 6.000 ára gömul! Glórulaus öfgamaður, segir kannski einhver. En sams konar tillögur hafa nú verið bornar fram í 12 ríkjum, segir hagfræðingurinn víðkunni Paul Krugman í grein í New York Times þann 5. apríl. Og hvað segir Bush forseti um sönnunargildi þróunarkenningarinnar: "Kviðdómurinn hefur enn ekki kveðið upp úrskurð sinn"! Og nýlega lýsti repúblikani í hinni virðulegu Öldungadeild þingsins því yfir að allir þeir fjallháu hlaðar af rannsóknargögnum sem styðja almennt álit vísindamanna um loftslagsbreytingar væru "risavaxið gabb"! Eins og áður sagði hafa tilraunir íslenskra afturhaldsseggja til að stimpla íslenska háskólamenn sem pólitíska ómerkinga og skóla þeirra eða einstaka deildir sem "hreiður" stjórnarandstæðinga verið fremur máttlausar. En við höfum þó nýleg og öllum kunn dæmi um að valdhafar kjósa að líta framhjá og beinlínis hunsa álitsgerðir og alvarlegar aðvaranir íslenskra vísindamanna. Það ætti að hringja viðvörunarbjöllum jafnt hjá vísindamönnum sem öllum almenningi.