Sport

Erlendur hættur með Stjörnuna

Stjórn handknattleiksdeildar Stjörnar gaf fyrir stundu frá sér fréttatilkynningu þar sem tilkynnt er að stjórnin og Erlendur Ísfeld, þjálfari kvennaliðs Stjörnunar, hafi komist að niðurstöðu um að Erlendur láti af störfum þann 30. apríl næstkomandi. Erlendur náði fínum árangri með liðið á þeim tveimur árum og gerði liðið meðal annars að bikarmeisturum í vetur. Erlendur sagði í samtali við Vísi að algjör sátt hefði ríkt milli hans og stjórnarinnar um að hann hætti störfum hjá félaginu. "Þeir tjáðu mér að þeir væru að skoða ýmsa möguleika varðandi framtíðina og ég var að sumu leiti búinn að fá nóg í bili eftir langan og strangan vetur, svo að þessi niðurstaða er báðum til góða. Ég held að hver sá sem tekur við liðinu á eftir mér taki við frábæru liði og góðum grunni til að byggja á. Það sem er næst á dagskrá fyrir mig er að pústa aðeins og taka mér smá tíma til að íhuga framtíðina. Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir frá liðum og ég mun melta þessa hluti í rólegheitunum," sagði Erlendur, sem útilokar ekki að halda áfram að þjálfa á næsta ári ef eitthvað bitastætt kæmi upp á borðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×