Sport

Ekki áfram hjá Val

Akureyringurinn Heimir Örn Árnason er eftirsóttur með eindæmum þessa dagana enda með lausan samning við Val og óhætt að segja að fáir leikmenn, ef einhverjir, í hans gæðaflokki séu á lausu hér á landi. Heimir sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hann væri ekki búinn að gera upp hug sinn um það með hvaða félagi hann hygðist leika á næstu leiktíð. "Það eru mjög margir möguleikar í stöðunni fyrir mig enda hafa ófá félög haft samband á síðustu dögum. Ég veit ekki enn hvað ég ætla að gera en það er þó ljóst að ég mun ekki fara til KA enda er ég enn í námi hér í Reykjavík sem ég hyggst klára," sagði Heimir Örn við Fréttablaðið í gær en hann segist ekki vera mjög spenntur fyrir því að leika áfram með Val. "Mér finnst óspennandi dæmi að leika heimaleikina næsta vetur í Laugardalshöll. Það koma ekkert fleiri áhorfendur næsta vetur og þeir sem mæta munu týnast í Höllinni. Ég býst ekki við að vera áfram hjá Val en það er samt búið að vera mjög fínt hjá félaginu" sagði Heimir Örn sem býst við að ganga frá sínum málum í vikunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×