Viðskipti innlent

Fékk ekki að kveðja starfsfólk

Nýrri stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar lá svo á að reka sparisjóðsstjórann í gær að hann fékk ekki að kveðja starfsfólkið á starfsmannafundi eins og til stóð. Stjórnin, sem komst til valda í síðustu viku með aðeins eins atkvæðis meirihluta, ákvað í gær að skipta um sparisjóðsstjóra. Björn Ingi Sveinsson, fyrrverandi borgarverkfræðingur sem ráðinn var sparisjóðsstjóri bankans síðastliðið haust og tók við starfinu 3. janúar í ár, var látinn víkja fyrir Magnúsi Ægi Magnússyni sem starfað hefur hjá Sparisjóðnum í sjö ár. Björn staðfesti við fréttastofu Bylgjunnar að bæði Páll Pálsson, nýr stjórnarformaður sparisjóðsins, og Magnús Ægir, nýi sparisjóðsstjórinn, hefðu komið í veg fyrir að hann kveddi starfsfólkið á fundi svo hann sendi því tövlupóst. Þá voru bæði Jóhann Halldórsson, innri endurskoðandi sparisjóðsins, og Ingimar Haraldsson aðstoðarsparisjóðsstjóri sendir í þriggja vikna leyfi með þeim orðum að hlutirnir yrðu metnir að fríinu loknu en samkvæmt öruggum heimildum fréttastofunnar líta þeir báðir svo á að vart sé hægt að líta á þetta öðruvísi en svo að það sé verið að víkja þeim úr starfi. Talsmenn nýja meirihlutans sögðu eftir aðalfundinn í síðustu viku að meirihlutinn hefði verið óánægður með afkomu sparisjóðsins undanfarin ár en á það er að líta að Björn Ingi, sem rekinn var í gær, hóf ekki störf fyrr en á þessu ári en Magnús Ægir, sem ráðinn var í hans stað, hefur hins vegar um nokkurt skeið verið yfirmaður bankaþjónustu sparisjóðsins og ber þannig að hluta ábyrgð á afkomunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×