Viðskipti innlent

Keahótel reka Hótel Borg

Keahótel og Hótel Borg undirrituðu í gær samning um að fyrrnefnda félagið taki við rekstri Hótel Borgar við Austurvöll. Ekki er um kaup á hótelinu að ræða heldur var gerður leigusamningur til næstu 15 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keahótelum. Um síðustu áramót urðu miklar breytingar á eignarhaldi á Hótel Borg. Hótelið hefur undanfarin ár verið í eigu margra aðila en er nú í meirihlutaeign Aðalsteins Karlssonar, Guðmundar Birgissonar, og Lárusar Blöndal. Keahótel ehf. hafa gengið til samstarfs við eigendur veitingastaðarins Einar Ben í Reykjavík sem mun sjá um veitingaþátt hótelsins. Nýráðinn hótelstjóri er Ólafur Þorgeirsson. Þá stendur til að að breyta efstu hæð Hótels Borgar og hefjast framkvæmdir í haust. Við það fjölgar svítum hótelsins um fimm, sú stærsta verður allt að 150 fermetrar með setustofu í turni hótelsins. Áætlað er að framkvæmdunum ljúki í mars 2006 og að þær muni kosta um 300 milljónir króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×