Matur

Kirsuberjatómatar eru ber: Kirsuberjatómatasalat með balsamediki

Kirsuberjatómatar eru sætir og ljúffengir og henta bæði í salöt og matreiðslu.

Kirsuberjatómatar eru smávaxnir tómatar, sérlega sætir og bragðgóðir og minna ef til vill fremur á ber en grænmeti. Það er ekkert skrítið þegar haft er í huga að tómatar eru í raun ber. Kirsuberjatómatar henta vel í salöt en ekki síður í ýmiss konar rétti. Yfirleitt er þó best að elda þá ekki of lengi, eða ekki lengur en svo að þeir haldi lögun. Heitur kirsuberjatómatur, til dæmis kryddaður með ferskum kryddjurtum, pipar og salti, getur verið eins og bragðsprengja og er frábært meðlæti með margs konar mat. En svo er líka gott að tína þá bara beint upp í sig, rétt eins og hver önnur ber. F16280405 kirsuber

Kirsuberjatómatasalat með balsamediki

400 g kirsuberjatómatar 

3 msk. ólífuolía

1 msk. balsamedik

1 tsk. sykur eða hunang

1 hvítlauksgeiri, pressaður

nýmalaður pipar salt

hnefafylli af salatblöðum

8-10 grænar ólífur, steinlausar

75 g fetaostur

Hver tómatur um sig er skorinn í tvennt. Olía, edik, sykur, hvítlaukur, pipar og salt sett í skál og hrært vel saman. Tómatarnir settir út í og blandað vel. Látið standa í hálftíma og hrært öðru hverju. Salatblöðin rifin eða söxuð gróft og ólífurnar skornar í sneiðar. Öllu blandað saman í skál og borið fram.

Kirsuberjatómatar með hvítlauk

250 g kirsuberjatómatar

2-3 hvítlauksgeirar

3 msk. ólífuolía

nýmalaður pipar

salt

8-12 basilíkublöð

Ofninn hitaður í 200°C. Djúp rauf skorin í hliðina á hverjum tómat, næstum inn að miðju. Hvítlauksgeirarnir skornir í þunnar sneiðar og einni sneið stungið inn í hvern tómat (best er að þrýsta ögn á þá svo að raufin opnist). Þeir eru svo settir í eldfast mót, hæfilega stórt til að rúma þá í einföldu lagi, ólífuolíu ýrt yfir og kryddað með pipar og salti. Bakað í um 15 mínútur, eða þar til tómatarnir eru vel mjúkir en halda enn lögun. Basilíkan söxuð og stráð yfir tómatana um leið og þeir eru teknir úr ofninum. Borið fram t.d. sem meðlæti með mat eða sem sósa út á pasta.

Kirsuberjatómatabrauð

300 ml vatn, ylvolgt

1 msk. þurrger

1 tsk. hunang eða sykur

450 g hveiti, eða eftir þörfum

1 tsk. salt

3 msk. ólífuolía

500 g kirsuberjatómatar

svolítið gróft salt (má sleppa)

Vatn, ger og hunang eða sykur sett í skál og látið standa í nokkrar mínútur. Þá er hveiti, salti og 2 msk. af olíu bætt út í og hrært vel. Deigið á að vera fremur þykkt en þó ekki svo að hægt sé að hnoða það með höndunum. Látið lyfta sér við stofuhita í um 2 klst. Þá er því hvolft úr skálinni á pappírsklædda bökunarplötu og það mótað með hveitistráðum höndum í fremur þunnt brauð, ferhyrnt eða kringlótt. Tómötunum þrýst vel ofan í brauðið og það síðan látið lyfta sér aftur í um 25 mínútur. Á meðan er ofninn hitaður í 220°C. Tómötunum þrýst aftur ofan í brauðið, það penslað með 1 msk af ólífuolíu, dálitlu grófu salti e.t.v. stráð yfir, og það síðan bakað í 18-20 mínútur, eða þar til það hefur lyft sér vel og er fallega gullinbrúnt.

Kirsuberjatómatar með hvítlauk
Kirsuberjatómatabrauð







×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.