Sport

Hlaupum ekki frá þessu verkefni

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu Finnbogi Sigurðsson og Júlíus Jónasson eiga hlutverkaskipti hjá ÍR fyrir næsta tímabil DHL-deildarinnar í handknattleik. Júlíus hefur gegnt starfi þjálfara síðustu misseri en Finnbogi verið aðstoðarþjálfari. Í samtali við Fréttablaðið gat Júlíus ekki staðfest að þessi stöðuskipti myndu eiga sér stað. "Það er í rauninni ekki búið að ganga frá einu né neinu," sagði Júlíus en bætti því þó við að það væri líklegra en hitt að hann yrði áfram hjá ÍR. "En það er áríðandi að það komi fram að hvorki ég né Finnbogi ætlum að hlaupa frá þessu verkefni þó svo að breytingar verði á leikmannamálum." Júlíus sagðist koma ágætlega undan vetri og að menn væru hæstánægðir að hafa nælt í titil, en ÍR-ingar urðu bikarmeistarar í vetur. "Í þessi fjögur ár sem ég hef þjálfað höfum við farið þrisvar í undanúrslit og einu sinni í úrslitaleik. Við höfum því alltaf verið að berjast á toppnum. Við náðum þarna að fara skrefinu lengra og taka titil og ég tel að það hafi verið gríðarlega mikilvægt fyrir leikmenn og félagið. Á þessum tímapunkti situr þó í manni að við hefðum viljað enda mótið betur." Búast má við að þjálfaramál ÍR skýrist á næstunni og sagði Júlíus að of snemmt væri að fullyrða um þau mál. "Maður getur aldrei verið pottþéttur fyrr en búið er að ganga frá öllum endum," sagði Júlíus Jónasson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×