Lífið

Allt er hægt að flísaleggja

"Það er allt hægt. Maður þarf bara að nota réttu efnin sem loða við yfirborðið á því sem maður er að flísaleggja. Það fer allt eftir hvernig ísskápurinn er, hvort að brúnirnar séu rúnaðar eða oddhvassar og annað í þeim dúr," segir Trausti Eysteinsson sem rekur flísalagningarþjónustuna flisalagnir.is. "Það er til lím fyrir alla skapaða hluti þannig að auðvitað er hægt að líma ýmislegt á ísskáp. Ef að ég væri beðinn um að flísaleggja ísskáp þá myndi ég náttúrulega kynna mér ísskápinn sem um ræðir og hvernig aðferð væri best að nota. Það er ekkert ómögulegt í þessum efnum," segir Trausti sem hefur aldrei lent í því að flísaleggja ísskáp. "Ég hef verið í þessum bransa í þrettán ár og það má eiginlega að segja að ég hafi fæðst með múrskeið í rassinum -- ekki silfurskeið eins og sumir. Ég hef verið beðinn um að flísaleggja loft, sillur og fleira en aldrei ísskáp. Það er kannski eitthvað sem á eftir að komast í tísku." En hvað er í tísku þessa dagana í flísum. "Það er margt í gangi en helstu litirnir eru kremað og ljós gráir tónar. Fólk notar flísarnar mjög mikið, til dæmis til að ramma inn lagnir og ég hef verið mikið í því að undanförnu að flísaleggja arna alveg upp í loft. Svo hef ég líka séð heilu húsinu þar sem flísar eru notaðar í bókstaflega allt," segir Trausti. En það er sem sagt greinilegt að það er allt hægt að flísaleggja. Það er engin ástæða að nema staðar við ísskápinn. Af hverju ekki að hafa heilt eldhús í stíl við til dæmis flísalagt gólfið? Brauðristin, kaffivélin, ofninn og hnífapörin gætu verið í stíl. Það kallar maður sko að flísaleggja heimilið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×