Lífið

Fólk úði ekki garða af gömlum vana

Starfsmaður hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar varar fólk við að úða garða sína af gömlum vana. Þeir eigi heldur að athuga hvort og hvaða plöntur þurfi þess við. Hætt er við að eitrið sem notað er til garðaúðunar drepi allar náttúrlegar varnir plöntunnar sem úðað er á. Því segir Þórólfur Jónsson, deildarstjóri hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar, vert að hafa í huga að skoða plönturnar vel og að eitra ekki meira en þörf er á. Borgaryfirvöld hafi minnkað úðun mikið síðustu ár og nú sé úðað mjög lítið. Hins vegar sé ástæða fyrir fólk að fylgjast með skrautrunnum og -trjám og úða þá á einstök tré og runna ef þess sé þörf. Hann telji sjálfur að það sé ekki gott að sprauta bara venjunnar vegna. Mörgum er illa við að sjá skordýr á laufblöðum trjánna sem næst eru sólpallinum, en er ekki eðlilegt að pöddur fylgi gróðri? Þórólfur segir að sér finnist það og fólk eigi ekki að hafa það viðhorf að náttúran sé ógeðsleg. Hann telji fremur að eitrið sem menn noti í umhverfinu varasamt og ef menn geti minnkað það sé það til bóta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×