Lífið

Stólar og sófar með kögri

"Ég á voða fínan grænan stól sem ég sá fyrir mér að væri góður til að sitja í og spila tölvuleiki, en ég færði hann til og nú stendur hann við hornglugga þar sem sólin skín á hann," segir Unnur María Bergsveinsdóttir bassaleikari Brúðarbandsins. "Það er svo gott að sitja í honum og lesa eða vera í tölvunni, við sólarljósið og með blómin allt í kring," segir Unnur María, sem getur reyndar lítið setið í honum þessa dagana þar sem hún datt í Esjunni nýverið og fótbraut sig illa, en er á batavegi. "Ég keypti þennan stól í Góða hirðinum á sínum tíma en ég fer oft þangað og finn skemmtilega hluti. Keypti einmitt sófa þar fyrir skömmu og svo fer ég þangað til að kaupa plötur," segir Unnur María. Stólinn segir hún vera með kögri að neðan sem henni finnist sérstaklega flott. "Mér finnst æðislegt að hann sé með kögri, en ég er mjög hrifin af stólum og sófum með kögri. Amma var með sófasett með kögri og mér fannst það svo flott þegar ég var fimm ára gömul," segir Unnur María. Reyndar segir hún að oft standi hörð barátta um stólinn góða því þetta sé eftirlætisstóll kattanna hennar tveggja, sem liggja þar og sóla sig allan daginn. "Þeir liggja þarna og flatmaga þegar ég kem heim á daginn og þarf oft mikið til að koma þeim í burtu," segir Unnur María.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×