Sport

Heiðar ætlar að standa sig

"Mér líst mjög vel á að fara aftur í úrvalsdeildina. Fulham er gott félag sem hefur metnað til þess að vera ofarlega í deildinni. Ég ætla að sýna og sanna að ég get staðið mig í úrvalsdeildinni," sagði Heiðar Helguson, sem er einn af þremur íslenskum leikmönnum í ensku úrvalsdeilinni, en fyrir eru Eiður Smári Guðjohnsen hjá Chelsea og Hermann Hreiðarsson hjá Charlton. Heiðar lék með liði Watford í rúm fimm ár, en hann gekk til liðs við félagið frá Lilleström í Noregi fyrir eina og hálfa milljón punda. Heiðar var í miklum metum hjá stuðningsmönnum Watford, en miklar umræður fara þar fram um hversu frábærlega Heiðar reyndist félaginu á ferli sínum hjá því. "Tíminn hjá Watford var virkilega ánægjulegur. Ég kom til þeirra eftir að hafa spilað í Noregi, og hoppaði beint inn í leik á heimavelli á móti Liverpool og náði að skora." Heiðar átti gott tímabil á síðustu leiktíð þó félaginu hafi ekki gengið nægilega vel í deildinni. Hann náði að skora tuttugu mörk í deildinni og var án efa besti leikmaður liðsins. Heiðar telur að hann geti bætt sig með því að leika í ensku úrvalsdeildinni. "Ég get bætt mig sem knattspyrnumaður og er viss um að gera það hjá Fulham, ef ég verð að spila þar í byrjunarliði eins og ég ætla mér að gera. Það verður gaman að glíma við alla þá frábæru varnarmenn sem eru í úrvalsdeildinni." Fulham þurfti að greiða rúmlega eina milljón punda fyrir Heiðar, en nokkur úrvalsdeildarfélög föluðust eftir að fá hann til sín. "Ray Lewington, sem var þjálfari hjá Watford, er kominn til starfa hjá Fulham og það var óneitanlega kostur að vera með mann þar sem maður þekkir af góðu einu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×