Viðskipti innlent

Óljóst hverjir seldu hlut sinn

Enn er óljóst hverjir seldu hluti í Íslandsbanka í gær og hvort viðskiptin breyta valdahlutföllum í stjórn bankans. Eins og við greindum frá í gær skiptu bréf upp á níu og hálfan milljarð um hendur í gær, sem jafngildir 5,3 prósentum af heildarhlutafé bankans. Morgunblaðið telur sig hafa heimildir fyrir því að Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi og Hannes Smárason stjórnarformaður FL Group, eða Flugleiða, hafi keypt bréfin. Skarphéðin Berg Steinarsson sem fer fyrir fjárfestingum Buugs á Íslandi vildi þó hvorki staðfesta né vísa þeirri fullyrðingu á bug. Karl Wernersson sem á rösklega 12 prósent í bankanum sagðist í morgoun ekki hafa selt neitt í gær. Spurður um hugsanlegt eignarhaldsfélag með Jóni Ásgeiri og Hannesi, til að mynda kjölfestufjárfesti í Íslandsbanka, sagði hann að það væri ekki á döfinni þessa stundina. Viðskiptin voru með þeim hætti að ekki þurfti að tilkynna þau í Kauphöllinni en veruleg viðskipti geta átt sér stað án þess að það þurfi, því mörkin eru fimm milljarðar, ef viðkomandi er ekki í stjórn bankans og hefur ekki átt umtalsverðan hlut í honum fyrir. Talsmaður Íslandsbanka segir bankann sjálfan hafa selt hluta eigin bréfa í gær, en að öðru leyti einungis miðlað bréfum fyrir þriðja aðila.  Hörð og allt að því blóðug barátta hefur staðið yfir um völdin í Íslandsbanka en ekki er vitað hvort þessi viðskipti í gær breyti nokkru þar um.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×