Viðskipti innlent

Nýtt Samkeppniseftirlit

Eitt brýnasta verkefni samkeppniseftirlitsins verður að auka gagnsæi í stjórnum og eignatengslum fyrirtækja að mati Páls Gunnars Pálssonar forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Það mun í auknum mæli stuðla að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir samkeppnisbrot. Sjötíu mál eru nú til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum.  Nýtt Samkeppniseftirlit tekur til starfa þann 1. júlí og tekur það við verkefnum sem nú eru unnin á samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar, en sú stofnun og samkeppnisráð verða lögð niður þegar samkeppniseftirlitið tekur til starfa. Samkeppniseftirlitið hefur fengið vilyrði fyrir því hjá stjórnvöldum að auknar fjárveitingar fáist til að fjölga starfsmönnum í framtíðinni. Tólf sérfræðingar voru starfandi hjá samkeppnisstofnun - Tíu þeirra flytjast áfram til samkeppniseftirlitsins, en vonir standa til að þeir geti orðið allt að sautján á næstu tveimur árum. Páll Gunnar Pálsson segist líta svo á að einfaldari stjórnsýlsa sé líka til þess fallin að styrkja samkeppniseftirlit með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum. Einnig segir hann að heimildir til að skipta sér af skipulagi fyrirtækja séu atriði sem líkleg eru til að styrkja samkeppniseftirlit til framtíðar. Hann segir einnig að það verði kannski ekki stórfelldar breytingar akkúrat núna á þessum tímamótum því það mun taka einhvern tíma að móta þetta þannig að þetta verði til styrkingar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×