Sport

Collina dæmir áfram

Pierluigi Collina, besti dómari heims, fær að sinna starfi sínu í eitt tímabil til viðbótar vegna nýrra reglna sem ítalska knattspyrnusambandið samþykkti í gær. Collina er orðinn 45 ára og átti að vera hættur þar sem hann hafði náð hámarksaldri dómara. Nú hefur þessi hámarksaldur hins vegar verið hækkaður um eitt ár og með breytingunum mega alþjóðlegir dómarar á Ítalíu vera 46 ára.Þetta sýnir glöggt hve mikils metinn Collina er. Hann hefur verið besti dómari heims um margra ára skeið og er einnig sá langþekktasti í þessari starfstétt. Margir gleðjast yfir því að hann megi halda áfram með flautuna þar til í júní á næsta ári og haldi áfram að dæma í efstu deildum Ítalíu og einnig í Evrópukeppninni. Ljóst er að hann fær ekki að dæma í Heimsmeistarakeppninni sem verður í Þýskalandi á næsta ári.Collina er menntaður fjármálaráðgjafi en hefur dæmt leiki frá 1977. Hann dæmdi sinn fyrsta leik í Seria A árið 1991 og meðal stórra leikja sem hann hefur dæmt er úrslitaleikur Meistaradeildarinnar árið 1999 þegar Manchester United náði á ótrúlegan hátt að sigra Bayern Munchen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×