Viðskipti innlent

Borgin selur hlut í Vélamiðstöð

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að ganga til viðræðna við Íslenska gámafélagið um kaup á hluta Reykjavíkurborgar í Vélamiðstöðinni ehf. Fundað verður næstu daga og takist samningar er stefnt er að því að ljúka viðræðum um mánaðarmótin. Vélamiðstöðin var gerð að einkahlutafélagi í eigu borgarsjóðs og Orkuveitunnar fyrir þremur árum. Hún hefur yfir að ráða meginþorra allra bíla sem Orkuveitan og borgarstofnanir nota og má þar nefna körfu-, sorp- og vinnuflokksbíla. Miðstöðin leigir meðal annars út alla sorphirðubíla í Reykjavík sem og bíla til Orkuveitu Reykjavíkur og er nokkurs konar bílaleiga fyrir borgina. Þá er mokstur og hálkuvarnir meðal annars í hennar höndum. Hersir Oddsson, framkvæmdastjóri Vélamiðstöðvarinnar, segist halda að best sé fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess að vera áfram í þeim traustu höndum sem það er í í dag en þó megi sjá þessar samningaviðræður sem spennandi tækifæri. Íslenska gámafélagið bauð 735 miljónir króna í hlut borgarinnar í Vélamiðstöðinni en gámafélagið tengist Njarðtaki ehf. í Reykjanesbæ, og er stærsti einstaki hluthafi Íslenska gámafélagsins Ólafur Thordersen er framkvæmdastjóri Njarðtaks og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Jón Þ.Frantzson, framkvæmdastjóri Íslenska gámafélagsins, segir að ef kaupin ganga upp muni þau líklega ekki hafa áhrif á þá 40 starfsmenn sem vinna hjá Vélamiðstöðinni í dag. Hann segist sjá fram á gífurleg samlegðaráhrif með kaupunum, meðal annars varðandi bílarekstur og viðhald véla og bíla. Hann segir þó of snemmt að segja til um breytingar á rekstri miðstöðvarinnar en hann býst þó ekki við neinum breytingum þar sem samningaviðræður eru enn á byrjunarstigi. Aðspurður um samkeppnina sem eftir er segir hann hana næga og nefnir máli sínu til stuðnings Gámaþjónustuna og ýmis önnur verktakafyrirtæki.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×