Við sama borð 25. ágúst 2005 00:01 Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 tóku Bandaríkin forustu fyrir hinum frjálsa heimi. Þessari sjálfsögðu hlutverkaskipan olli einkum tvennt: annars vegar lykilhlutverk Bandaríkjanna í sigri bandamanna á þýzkum nasistum og ítölskum og japönskum meðreiðarmönnum þeirra og hins vegar efnahagsyfirburðir Bandaríkjanna umfram önnur iðnríki eftir stríð. Evrópa var í sárum. Árin eftir stríð nam landsframleiðsla Bandaríkjanna nærri helmingi heimsframleiðslunnar. Bandaríkin voru þannig séð hálfur heimurinn. Bandaríkin nutu virðingar víða um heim og vöktu aðdáun, en aðdáunin var þó ekki óskipt. Það stafaði meðal annars af því, að Bandaríkin höfðu forustu um andstöðuna gegn ógnarstjórn Stalíns í Sovétríkjunum og gegn öðrum einræðisstjórnum kommúnista og studdu ýmsar aðrar gerræðisstjórnir, sem höfðu sumar það eitt sér til málsbóta, að þær voru andsnúnar kommúnistum. Innflytjendur héldu áfram að flykkjast til Bandaríkjanna alls staðar að úr heiminum, og Bandaríkjamenn tóku þeim opnum örmum. Bandaríkin voru bræðslupottur, þar sem fólk af ýmsu þjóðerni bjó saman í bróðerni. Bandaríkin voru land tækifæranna, eins og landsfeðurnir höfðu lagt upp með 1776: landið, þar sem til að mynda utanríkisráðherrann talaði ensku með þykkum erlendum hreim. Bandarískir háskólar löðuðu til sín kennara og nemendur víðs vegar að. Bandarísk menning blómstraði: þetta var þjóðin, sem hafði gefið heiminum djassinn auk allra bíómyndanna, myndlistar, skáldskapar, tónlistar, vísinda og fræða í fremstu röð. Evrópuríkin stóðu í skugga Bandaríkjanna þessi ár, enda var hvert og eitt þeirra smávaxið miðað við risaveldið vestan hafs. Evrópa var öðrum þræði innhverf og lokuð. Bandaríkin voru úthverf og opin upp á gátt. Þessi heimsmynd eftirstríðsáranna hefur breytzt. Það stafar öðrum þræði af því, að Evrópulöndin hafa tekið höndum saman á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) og tekið Bandaríkin að sumu leyti sér til fyrirmyndar. Evrópa á okkar dögum er bræðslupottur líkt og Bandaríkin. Evrópa er á fleygiferð í ýmsar áttir: lífskjörin þar hafa batnað til muna, evrópsk fyrirtæki af öllu tagi breiða úr sér, borgir álfunnar blómstra sem aldrei fyrr og einnig sveitirnar og menningin með. Þýzka bílafyrirtækið Daimler-Benz keypti Chrysler fyrir nokkrum árum, og evrópska flugvélaverksmiðjan Airbus selur flugfélögum heimsins fleiri þotur en Boeing, og þannig mætti lengi telja. Þetta er samt ekki höfuðmarkmið ESB, öðru nær, því að Evrópusambandið er í fyrsta lagi friðarsamband. Æ nánari samvinna Evrópuþjóðanna að efnahagsmálum og öðrum sameiginlegum málum stefnir í fyrsta lagi að því að tryggja frið í álfunni til frambúðar. Það virðist til þessa hafa tekizt svo vel, að fæstum þykir ástæða til að efast eða óttast um framhaldið. Við þetta hefur Evrópa eflzt svo og dafnað, að ESB er nú orðið fjölmennara og fjársterkara en Bandaríkin. Skoðum tölurnar. Mannfjöldi ESB-ríkjanna 25 er nú rösklega 450 milljónir á móti tæplega 300 milljónum í Bandaríkjunum. Landsframleiðsla á hefðbundinn mælikvarða er nú meiri í ESB-ríkjunum í heild en í Bandaríkjunum. Munurinn er meiri í reynd en opinberar tölur vitna um, af því að ýmisleg sóun (t.d. olíubrennsla og ýmis vafasöm útgjöld til varnarmála), sem hífir upp landsframleiðsluna og ætti þó að réttu lagi ekki að gera það, er meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Nokkur ESB-lönd skila meiri framleiðslu á hverja vinnustund en Bandaríkin og búa við betri lífskjör á þann kvarða, eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Ýmislegt annað bendir í sömu átt. Meðalunglingur í ESB situr ári lengur á skólabekk en jafnaldrar hans í Bandaríkjunum. ESB-löndin hafa á að skipa um 320 læknum á hverja 100.000 íbúa á móti 280 læknum í Bandaríkjunum. Íbúar ESB-ríkjanna lifa að jafnaði fimmtán mánuðum lengur en Bandaríkjamenn. Fimmta hvert barn í Bandaríkjunum býr við fátækt skv. skilgreiningu ESB; Mexíkó er eina landið innan OECD, þar sem hlutfallslega fleiri börn líða skort. Tvær milljónir Bandaríkjamanna sitja í fangelsi, og það er átta sinnum hærra hlutfall mannfjöldans en í ESB. Yfirburðir Bandaríkjanna eru liðin tíð. Sameinuð Evrópa er jafnoki Bandaríkjanna, þegar á allt er litið, og þarf að deila forustunni fyrir hinum frjálsa heimi með Bandaríkjunum og búa sig undir að bjóða Indlandi og Kína til sætis við sama borð. Til þess þarf lýðræði í Kína. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun
Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari 1945 tóku Bandaríkin forustu fyrir hinum frjálsa heimi. Þessari sjálfsögðu hlutverkaskipan olli einkum tvennt: annars vegar lykilhlutverk Bandaríkjanna í sigri bandamanna á þýzkum nasistum og ítölskum og japönskum meðreiðarmönnum þeirra og hins vegar efnahagsyfirburðir Bandaríkjanna umfram önnur iðnríki eftir stríð. Evrópa var í sárum. Árin eftir stríð nam landsframleiðsla Bandaríkjanna nærri helmingi heimsframleiðslunnar. Bandaríkin voru þannig séð hálfur heimurinn. Bandaríkin nutu virðingar víða um heim og vöktu aðdáun, en aðdáunin var þó ekki óskipt. Það stafaði meðal annars af því, að Bandaríkin höfðu forustu um andstöðuna gegn ógnarstjórn Stalíns í Sovétríkjunum og gegn öðrum einræðisstjórnum kommúnista og studdu ýmsar aðrar gerræðisstjórnir, sem höfðu sumar það eitt sér til málsbóta, að þær voru andsnúnar kommúnistum. Innflytjendur héldu áfram að flykkjast til Bandaríkjanna alls staðar að úr heiminum, og Bandaríkjamenn tóku þeim opnum örmum. Bandaríkin voru bræðslupottur, þar sem fólk af ýmsu þjóðerni bjó saman í bróðerni. Bandaríkin voru land tækifæranna, eins og landsfeðurnir höfðu lagt upp með 1776: landið, þar sem til að mynda utanríkisráðherrann talaði ensku með þykkum erlendum hreim. Bandarískir háskólar löðuðu til sín kennara og nemendur víðs vegar að. Bandarísk menning blómstraði: þetta var þjóðin, sem hafði gefið heiminum djassinn auk allra bíómyndanna, myndlistar, skáldskapar, tónlistar, vísinda og fræða í fremstu röð. Evrópuríkin stóðu í skugga Bandaríkjanna þessi ár, enda var hvert og eitt þeirra smávaxið miðað við risaveldið vestan hafs. Evrópa var öðrum þræði innhverf og lokuð. Bandaríkin voru úthverf og opin upp á gátt. Þessi heimsmynd eftirstríðsáranna hefur breytzt. Það stafar öðrum þræði af því, að Evrópulöndin hafa tekið höndum saman á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) og tekið Bandaríkin að sumu leyti sér til fyrirmyndar. Evrópa á okkar dögum er bræðslupottur líkt og Bandaríkin. Evrópa er á fleygiferð í ýmsar áttir: lífskjörin þar hafa batnað til muna, evrópsk fyrirtæki af öllu tagi breiða úr sér, borgir álfunnar blómstra sem aldrei fyrr og einnig sveitirnar og menningin með. Þýzka bílafyrirtækið Daimler-Benz keypti Chrysler fyrir nokkrum árum, og evrópska flugvélaverksmiðjan Airbus selur flugfélögum heimsins fleiri þotur en Boeing, og þannig mætti lengi telja. Þetta er samt ekki höfuðmarkmið ESB, öðru nær, því að Evrópusambandið er í fyrsta lagi friðarsamband. Æ nánari samvinna Evrópuþjóðanna að efnahagsmálum og öðrum sameiginlegum málum stefnir í fyrsta lagi að því að tryggja frið í álfunni til frambúðar. Það virðist til þessa hafa tekizt svo vel, að fæstum þykir ástæða til að efast eða óttast um framhaldið. Við þetta hefur Evrópa eflzt svo og dafnað, að ESB er nú orðið fjölmennara og fjársterkara en Bandaríkin. Skoðum tölurnar. Mannfjöldi ESB-ríkjanna 25 er nú rösklega 450 milljónir á móti tæplega 300 milljónum í Bandaríkjunum. Landsframleiðsla á hefðbundinn mælikvarða er nú meiri í ESB-ríkjunum í heild en í Bandaríkjunum. Munurinn er meiri í reynd en opinberar tölur vitna um, af því að ýmisleg sóun (t.d. olíubrennsla og ýmis vafasöm útgjöld til varnarmála), sem hífir upp landsframleiðsluna og ætti þó að réttu lagi ekki að gera það, er meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Nokkur ESB-lönd skila meiri framleiðslu á hverja vinnustund en Bandaríkin og búa við betri lífskjör á þann kvarða, eins og ég lýsti á þessum stað fyrir viku. Ýmislegt annað bendir í sömu átt. Meðalunglingur í ESB situr ári lengur á skólabekk en jafnaldrar hans í Bandaríkjunum. ESB-löndin hafa á að skipa um 320 læknum á hverja 100.000 íbúa á móti 280 læknum í Bandaríkjunum. Íbúar ESB-ríkjanna lifa að jafnaði fimmtán mánuðum lengur en Bandaríkjamenn. Fimmta hvert barn í Bandaríkjunum býr við fátækt skv. skilgreiningu ESB; Mexíkó er eina landið innan OECD, þar sem hlutfallslega fleiri börn líða skort. Tvær milljónir Bandaríkjamanna sitja í fangelsi, og það er átta sinnum hærra hlutfall mannfjöldans en í ESB. Yfirburðir Bandaríkjanna eru liðin tíð. Sameinuð Evrópa er jafnoki Bandaríkjanna, þegar á allt er litið, og þarf að deila forustunni fyrir hinum frjálsa heimi með Bandaríkjunum og búa sig undir að bjóða Indlandi og Kína til sætis við sama borð. Til þess þarf lýðræði í Kína.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun