Sport

Frjálsíþróttahöllin á eftir áætlun

Nýja frjálsíþróttahöllin í Laugardal, sem einnig er ráðstefnu- og sýningarhöll, verður ekki tilbúin fyrir vígslumót 15. október eins og stefnt var að. Til stóð að halda stórt og mikið frjálsíþróttamót fyrir alla aldursflokka í tengslum við Móta- og aukaþing Evrópska frjálsíþróttasambandsins sem fram fer á Hótel Nordica 14. og 15. okt. nk. og vígja frjálsíþróttaaðstöðuna að viðstöddum helstu forystumönnum frjálsíþróttamála í Evrópu.  "Því er ekki að neita að þetta eru okkur mikil vonbrigði. Okkur langaði að sýna öllum helstu forystumönnum frjálsra íþrótta í Evrópu þetta glæsilega hús í notkun sem væntanlegan vettvang fyrir alþjóðleg mót í framtíðinni. Hingað buðum við öllum þeim sem skipta máli í frjálsíþróttaheiminum eins og formönnum og framkvæmdastjórum frjálsíþróttasambanda, framkvæmdastjórum gullmótanna, umboðsmönnum og fleiri. Húsið er að mér skilst tveimur til þremur vikum á eftir áætlun. Það verður bara að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti," sagði Jónas Egilsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands í samtali við Fréttablaðið. Að sögn Jónasar Kristinssonar, framkvæmdastjóra Laugardalshallar, þykir honum miður að frjálsíþróttahöllin verði ekki tilbúin til þess að halda umrætt vígslumót en við því sé ekkert að gera. Framkvæmdir eru lítillega á eftir áætlun. "Það er alla vega hægt að sýna húsið þótt það verði ekki tilbúið til notkunar."Ekki er komin formleg dagsetning á vígslu frjálsíþróttahallarinnar en vígslumótið verður haldið strax fyrstu helgina eftir að vígslan fer fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×