Ónefndur maður og hirðmenn hans 26. september 2005 00:01 Það vakti nokkra athygli þegar Davíð Oddsson sagði á fundi hjá sagnfræðingum um upplýsingaskyldu stjórnvalda að hann notaði ekki tölvupóst. Nú skiljum við hvers vegna. Hann virðist líka hafa bannað erindrekum sínum að nefna sig á nafn í tölvupóstsamskiptum sínum öðruvísi en sem "ónefndan mann". Orð Styrmis Gunnarssonar í bréfi til Jónínu Benediktsdóttur um "innmúraða" og "ófrávíkjanlega" tryggð Jóns Steinars við "ónefndan mann" segja meira en mörg orð um það andrúmsloft sem fylgdi stjórnarháttum Davíðs Oddssonar – undirlægjuháttinn og þrælsóttann sem lýsir sér í því að nefna "HANN" ekki á nafn, leynimakkið og samsærishugsunarháttinn sem allt þetta óhugnanlega múratal sýnir. En það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Og Vodafone, sem hýst hefur tölvupóst Jónínu Benediktsdóttur, að hann skuli koma fyrir almenningssjónir með þessum hætti – þetta eru augljós trúnaðargögn og þjófnaður á þeim er langt handan alls þess sem siðlegt getur talist. Maður hálf veigrar sér við því að leggja út af upplýsingum sem komnar eru fram af því að gramsað hefur verið í einkahirslum borgaranna, og þannig verið gróflega brotið á þeim. Agndofa fylgist maður með þessum feiknum öllum þar sem fólk skirrist ekki við að grípa til ótrúlegra meðala; enn sem fyrr er megineinkenni þessa máls einhver botnlaus gagnkvæm heift sem satt að segja er erfitt fyrir okkur hin að lifa okkur algjörlega inn í, nema sem áhorfendur að sápuóperu. Hins vegar getur maður ekki látið eins og ekkert sé. Það er ekki rétt sem hirðmenn "ónefnds manns" halda fram, að þessar upplýsingar breyti engu um kjarna Baugsmálsins. Við höfum nú miklu betri hugmynd um tildrög þess og upphaf – tvær manneskjur í hefndarhug gagnvart Baugsfeðgum snúa sér með klögumál sín til ýmissa valdamikilla aðilja í þjóðfélaginu, sem flestir sýna samúð og skilning, nema Styrmir: hann stekkur á þetta. Og setur málið í gang: Styrmir verður einn helsti gerandinn í málinu. Starfsvið: eitt af því sem vekur athygli manns við að lesa greinargerð Styrmis Gunnarssonar í Mogganum í gær varðar einmitt hugmyndir ritstjórans um starfsvið sitt. Hann virðist telja það eðlilegan hluta af starfi sínu að stússa fram og til baka í málarekstri fyrir Jónínu Benediktsdóttur og sækja leynifundi með helstu trúnaðarmönnum "ónefnds manns" í í þeim erindrekstri en hins vegar telur hann blaðið ekki eðlilegan vettvang fyrir þessar upplýsingar. Með öðrum orðum, ritstjóri Morgunblaðsins fær upplýsingar í hendur og notar þær upplýsingar – en ekki í þágu lesenda blaðsins eða blaðsins sjálfs, heldur í þágu þeirra valdamanna sem þá þegar áttu í útistöðum við það fyrirtæki sem upplýsingarnar vörðuðu. Morgunblaðið er mikið öndvegisblað á köflum – en hér virðist manni sjást óvenju skýrt hvernig það er nánast í gíslingu stjórnmálaafla sem standa þróun þess fyrir þrifum. Hallgrímur Geirsson, formaður stjórnar Árvakurs, talaði í hádegisfréttum Talstöðvarinnar í gær á þann veg að fyrirgreiðsla Styrmis við Jón Gerald og Jónínu snerist eiginlega um hálfgerða félagsmálaþjónustu sem skilja mátti að blaðið starfrækti alla daga: þetta hafi verið fátækt og þurfandi fólk og nánast allir þeir sem erfiði og þunga séu hlaðnir geti komið til Morgunblaðsins og fengið aðstoð blaðsins – á kostnað blaðsins – og Styrmir sé þarna nokkurs konar yfirfélagsráðgjafi. Fleira í þessu máli er ámóta fjarstæðukenndur örvæntingarspuni: Þeir Styrmir Gunnarsson og Kjartan Gunnarsson hafa reynt að telja okkur trú um að þeir hafi átt fund með Jóni Steinari Gunnlaugssyni um mánaðamótin júní/júlí til að fjalla um "hæfi" og "hæfni" Jóns Steinars til að reka erindi Jóns Geralds Sullenberger, þrátt fyrir að Jón Steinar hafi talað við Jón Gerald í maí. Það er hálf undarlegt að setja sér slíkan fund fyrir sjónir: Styrmir: Kjartan, mig langar að vita hvort þér finnist Jón Steinar ekki vera afar hæfur lögfræðingur. Kjartan: Að minni hyggju ert þú Jón Steinar afburða lögfræðingur. Styrmir: Ég tek undir þetta, Kjartan, ég tel að reynsla mín og Morgunblaðsins bendi til að þú Jón Steinar sért framúrskarandi lögfræðingur. Jón Steinar: Já, ég tel að ég sé mjög hæfur lögfræðingur, tryggð mín er ófrjávíkjanleg og innmúruð…. Og svo framvegis: af hverju var Jón Steinar í starfsviðtali hjá þeim Styrmi og Kjartani í máli sem hann var þegar byrjaður að vinna að? Það er fyrir neðan virðingu þessara manna að bjóða okkur upp á slíka vitleysu. Og nóg komið af slíku fjarstæðutali sem hefur tíðkast í málinu allar götur frá því að Davíð Oddsson kastaði Stóru Bollunni með hinni fráleitu mútuásökun sinni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Kennarar: hvernig höldum við þeim við efnið? Davíð Már Sigurðsson Skoðun Af hverju er ekki búið að tryggja raforkuöryggi almennings? Hjálmar Helgi Rögnvaldsson Skoðun Hvað er friður? Skoðun Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Hvað með allt þetta frí? Davíð Már Sigurðsson Skoðun Sérréttindablinda BHM og BSRB Björn Brynjúlfur Björnsson Skoðun Gæti Ísland skráð sig í sögubækurnar? Stella Samúelsdóttir Skoðun Þorpið Alina Vilhjálmsdóttir Skoðun Landsvirkjun vill meiri orku (en ekki samt í orkuskipti) Snæbjörn Guðmundsson Skoðun Hugvekja í raforkuskorti Þrándur Sigurjón Ólafsson Skoðun
Það vakti nokkra athygli þegar Davíð Oddsson sagði á fundi hjá sagnfræðingum um upplýsingaskyldu stjórnvalda að hann notaði ekki tölvupóst. Nú skiljum við hvers vegna. Hann virðist líka hafa bannað erindrekum sínum að nefna sig á nafn í tölvupóstsamskiptum sínum öðruvísi en sem "ónefndan mann". Orð Styrmis Gunnarssonar í bréfi til Jónínu Benediktsdóttur um "innmúraða" og "ófrávíkjanlega" tryggð Jóns Steinars við "ónefndan mann" segja meira en mörg orð um það andrúmsloft sem fylgdi stjórnarháttum Davíðs Oddssonar – undirlægjuháttinn og þrælsóttann sem lýsir sér í því að nefna "HANN" ekki á nafn, leynimakkið og samsærishugsunarháttinn sem allt þetta óhugnanlega múratal sýnir. En það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Og Vodafone, sem hýst hefur tölvupóst Jónínu Benediktsdóttur, að hann skuli koma fyrir almenningssjónir með þessum hætti – þetta eru augljós trúnaðargögn og þjófnaður á þeim er langt handan alls þess sem siðlegt getur talist. Maður hálf veigrar sér við því að leggja út af upplýsingum sem komnar eru fram af því að gramsað hefur verið í einkahirslum borgaranna, og þannig verið gróflega brotið á þeim. Agndofa fylgist maður með þessum feiknum öllum þar sem fólk skirrist ekki við að grípa til ótrúlegra meðala; enn sem fyrr er megineinkenni þessa máls einhver botnlaus gagnkvæm heift sem satt að segja er erfitt fyrir okkur hin að lifa okkur algjörlega inn í, nema sem áhorfendur að sápuóperu. Hins vegar getur maður ekki látið eins og ekkert sé. Það er ekki rétt sem hirðmenn "ónefnds manns" halda fram, að þessar upplýsingar breyti engu um kjarna Baugsmálsins. Við höfum nú miklu betri hugmynd um tildrög þess og upphaf – tvær manneskjur í hefndarhug gagnvart Baugsfeðgum snúa sér með klögumál sín til ýmissa valdamikilla aðilja í þjóðfélaginu, sem flestir sýna samúð og skilning, nema Styrmir: hann stekkur á þetta. Og setur málið í gang: Styrmir verður einn helsti gerandinn í málinu. Starfsvið: eitt af því sem vekur athygli manns við að lesa greinargerð Styrmis Gunnarssonar í Mogganum í gær varðar einmitt hugmyndir ritstjórans um starfsvið sitt. Hann virðist telja það eðlilegan hluta af starfi sínu að stússa fram og til baka í málarekstri fyrir Jónínu Benediktsdóttur og sækja leynifundi með helstu trúnaðarmönnum "ónefnds manns" í í þeim erindrekstri en hins vegar telur hann blaðið ekki eðlilegan vettvang fyrir þessar upplýsingar. Með öðrum orðum, ritstjóri Morgunblaðsins fær upplýsingar í hendur og notar þær upplýsingar – en ekki í þágu lesenda blaðsins eða blaðsins sjálfs, heldur í þágu þeirra valdamanna sem þá þegar áttu í útistöðum við það fyrirtæki sem upplýsingarnar vörðuðu. Morgunblaðið er mikið öndvegisblað á köflum – en hér virðist manni sjást óvenju skýrt hvernig það er nánast í gíslingu stjórnmálaafla sem standa þróun þess fyrir þrifum. Hallgrímur Geirsson, formaður stjórnar Árvakurs, talaði í hádegisfréttum Talstöðvarinnar í gær á þann veg að fyrirgreiðsla Styrmis við Jón Gerald og Jónínu snerist eiginlega um hálfgerða félagsmálaþjónustu sem skilja mátti að blaðið starfrækti alla daga: þetta hafi verið fátækt og þurfandi fólk og nánast allir þeir sem erfiði og þunga séu hlaðnir geti komið til Morgunblaðsins og fengið aðstoð blaðsins – á kostnað blaðsins – og Styrmir sé þarna nokkurs konar yfirfélagsráðgjafi. Fleira í þessu máli er ámóta fjarstæðukenndur örvæntingarspuni: Þeir Styrmir Gunnarsson og Kjartan Gunnarsson hafa reynt að telja okkur trú um að þeir hafi átt fund með Jóni Steinari Gunnlaugssyni um mánaðamótin júní/júlí til að fjalla um "hæfi" og "hæfni" Jóns Steinars til að reka erindi Jóns Geralds Sullenberger, þrátt fyrir að Jón Steinar hafi talað við Jón Gerald í maí. Það er hálf undarlegt að setja sér slíkan fund fyrir sjónir: Styrmir: Kjartan, mig langar að vita hvort þér finnist Jón Steinar ekki vera afar hæfur lögfræðingur. Kjartan: Að minni hyggju ert þú Jón Steinar afburða lögfræðingur. Styrmir: Ég tek undir þetta, Kjartan, ég tel að reynsla mín og Morgunblaðsins bendi til að þú Jón Steinar sért framúrskarandi lögfræðingur. Jón Steinar: Já, ég tel að ég sé mjög hæfur lögfræðingur, tryggð mín er ófrjávíkjanleg og innmúruð…. Og svo framvegis: af hverju var Jón Steinar í starfsviðtali hjá þeim Styrmi og Kjartani í máli sem hann var þegar byrjaður að vinna að? Það er fyrir neðan virðingu þessara manna að bjóða okkur upp á slíka vitleysu. Og nóg komið af slíku fjarstæðutali sem hefur tíðkast í málinu allar götur frá því að Davíð Oddsson kastaði Stóru Bollunni með hinni fráleitu mútuásökun sinni.
Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Evrópa án utanríkisstefnu í aukahlutverki á ófriðartímum á eigin grund? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun