Fastir pennar

Númer tvö verður númer eitt

Geir Haarde sagði í viðtali við mig fyrir hálfum áratug að sumum væri kannski áskapað að vera númer tvö. Þeim liði ágætlega þannig. Þetta var í hápunkti veldistíðar Davíðs Oddssonar, það var góðæri, Sjálfstæðisflokkurinn var nýbúinn að vinna enn einn kosningasigurinn undir hans stjórn. Geir virtist ekki sérlega trúaður á að hann yrði nokkurn tíma formaður Sjálfstæðisflokksins, vildi heldur ekki viðurkenna að hann fóstraði með sér drauma þar um. Geir hefur mátt vera lengi í óvissu. Innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum sagði mér fyrir nokkrum vikum að Geir vissi ekki meira um framtíðina en aðrir flokksmenn - einnig hann, varaformaðurinn, þyrfti að vera med stöðugar ágiskanir um fyrirætlanir Davíðs. Það hefur verið skrítið ástand í Sjálfstæðisflokknum. Í meira en ár, eða allt síðan hann veiktist í fyrrasumar, hefur Davíð verið nánast óvirkur sem formaður. --- --- --- Geir er ekki hrífandi maður, að minnsta kosti ekki í samanburði við sjarmatröll eins og Davíð. Flestir leiðtogar Sjálfstæðisflokksins hafa verið litríkir menn, en Geir virðist svo hófstilltur að það er varla hægt að hugsa sér spaugstofuútgáfu af honum. Hann virkar stundum þurr á manninn - jafnvel fúllyndur. Hins vegar er hann almennt í góðu áliti. Það er sjaldgæft að heyra fólk tala illa um Geir. Hann þykir sanngjarn og öfgalaus. Flestir andstæðingar hans bera honum vel söguna, enda hefur hann ekki stundað að gera lítið úr þeim eins og Davíð hætti oft til. Geir er heldur ekki maður stórra orða eða glannalegra staðhæfinga. Hann hefur til dæmis aldrei haft uppi stórar yfirlýsingar um Baug eða ESB, þau tvö fyrirbæri sem Davíð er mest í nöp við. Hann hefur gætt þess að halda vissri fjarlægð frá Davíð, kasta sér ekki endilega út í slaginn með formanninum þegar hann verður hvað blóðugastur. Þeir munu heldur ekki vera neinir sérstakir trúnaðarvinir formaðurinn fráfarandi og varaformaðurinn. Að því leyti hefur Geir nokkuð frjálsar hendur til að taka nýjan kúrs fyrir Sjálfstæðisflokkinn. --- --- --- Það er svosem ekki mikið um Davíð að segja þegar hann hættir - ekki akkúrat núna. Um engan stjórnmálamann hefur verið meira rætt og ritað á Íslandi. Stundum hefur virst eins og íslenskt stjórnmálalíf sé með Davíð á heilanum, að allt snúist um að vera með eða á móti honum.Hann hefur haft einstakt lag á að pólarísera umræðuna. Svo mjög að hérumbil má segja að málefnaleg umræða hafi verið ómöguleg síðustu árin. Nú hættir Davíð í skugganum af Baugsmálunum og ásakana um að hann hafi efnt til pólitískra ofsókna gegn andstæðingum sínum. Einn stuðningsmaður Baugs sendi mér svohljóðandi skilaboð í dag, nokkuð glaðhlakkalegur: "Davíð hverfur úr pólitík, Baugur úr héraðsdómi!" Davíð á ekki gott með að tjá sig um þessar ásakanir, hann er ráðherra, verður svo embættismaður - verður helst að þegja meðan málið er fyrir dómi. Að því leyti hafa Baugsmenn frítt spil. Hins vegar er þetta mál sem þyrfti að útkljá. Sé eitthvað hæft í þessu er Davíð vissulega ómerkilegri stjórnmálamaður en maður hélt - þá hefur hann spillt mjög fyrir arfleifð sinni - en ef þetta er hins vegar fleipur sem er notað í áróðursskyni er ekki hægt að segja annað en að Baugsmenn séu siðblindir. --- --- --- Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að rétta úr kútnum í skoðanakönnunum, en bara rétt svo. Margir flokksmenn hafa verið að komast á þá skoðun að Davíð sé svo umdeildur að hann sé dragbítur á flokkinn. Í síðustu kosningum var hann fremur veikleiki en styrkur fyrir flokkinn. Hann náði ekki einu sinni fyrsta sæti í kjördæmi sínu í Reykjavík. Margt bendir til þess að flokkurinn gæti aukið fylgi sitt undir stjórn Geirs - að minnsta kosti fyrst um sinn. Mogginn er sífellt að auglýsa eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn höfði inn á miðjuna - Geir með sitt hæglætislega fas virðist tilvalinn í það. --- --- --- Geir hefur verið talinn í hófsamari armi flokksins meðan mestu hægri mennirnir hafa hallað sér meira að Davíð. Sumir hafa komið sér upp þeim vana að lesa vefritið Deigluna til að vita hvað Geirsarmurinn er að hugsa. Ritstjóri þar er Borgar Þór Einarsson, fóstursonur Geirs. Deiglan er ekki hrifin af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og vinum hans. Hún virðist heldur ekki sérlega spennt fyrir Gísla Marteini Baldurssyni. Það er ekki ósennilegt að nýir menn komist til áhrifa út um allt í Sjálfstæðisflokknum þegar Geir tekur við - svona líkt og þegar skipt var út í Heimdalli i fyrra. Kannski er tíma Hannesar í hlýjunni af valdinu lokið. Það er líka spurning um áhrifin á prófkjörið - sem fram fer stuttu eftir landsfund þar sem Geir verður væntanlega kosinn með standandi lófataki. --- --- --- Davíð sest í Seðlabankann. Það kemur nokkuð á óvart. Hann hefur ekki alltaf vandað þeirri stofnun kveðjurnar. Steingrímur Hermannsson sagðist aldrei hafa haft það náðugra en þegar hann var í Seðlabankanum. Eins og oftsinnis hefur verið bent á er það kómískt að í þessu litla landi sé talin þörf á þremur seðlabankastjórum. Kannski mun Davíð hafa tíma til að skrifa endurminningar sínar. Það gæti orðið stórfróðleg bók, instant klassiker ef hann myndi beita öllum hæfileikum sínum og skopskyni við skriftirnar. Þessi merkilegi maður skuldar okkur eiginlega þessa bók, því hvað sem við segjum um Davíð hafa síðustu áratugir í pólitíkinni verið hans. Að því leyti hefst nýtt tímabil þegar hann hættir.





×