Viðskipti innlent

Hagræðingin að engu orðin

Hagræðingin sem heimilin í landinu náðu fram með uppgreiðslu yfirdráttarlána vegna endurfjármögnunar fasteignalána virðist að engu orðin. Skuldir vegna yfirdráttarlána eru nú jafnmiklar og fyrir skipulagsbreytinguna á íbúðalánamarkaðnum. Merki um mikla neyslu, segir forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans.  Í Vegvísi greiningardeildarinnar kemur fram að yfirdráttarlán heimilanna hafi náð fyrri hæðum. Frá því í lok febrúar hafa þau aukist um 2,2 milljarða króna en í lok apríl skulduðu heimilin ríflega 60 milljarða í yfirdráttalán. Eru þau þar með orðin jafnhá og þau voru fyrir skipulagsbreytinguna á íbúðalánamarkaði. Í lok apríl í fyrra námu lánin rúmlega 55 milljörðum króna og er því ljóst að sú hagræðing sem heimilin náðu fram með uppgreiðslu yfirdráttalána vegna endurfjármögnunar fasteignalána virðist að engu orðin. Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir þetta merki um að það sé mikil neysla í gangi. Þó sé ekki óhugsandi að þetta tengist að einhverju leyti fasteignamarkaðnum, þ.e. að fólk sé að tímabundið að brúa bil með yfirdráttarlánum. „Þetta bendir svolítið til þess að menn séu að falla í sama farið og gíra sig upp með skammtímalánum,“ segir Edda Rós  Skuldir heimilanna hjá innlánsstofnunum námu alls tæplega 400 milljörðum í lok apríl og jukust um 20 milljarða á milli mánaða. Aukningin er að mestu rakin til íbúðalána landsmanna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×