Viðskipti erlent

Viðskiptastríð í uppsiglingu?

Líkur á mesta viðskiptastríði sögunnar jukust í dag þegar upplýst var að Airbus-verksmiðjurnar hefðu beðið Evrópusambandið um lán til þess að hanna nýja farþegaþotu. Bandaríkjamenn eru æfir. Airbus-verksmiðjurnar vilja aðstoð Evrópusambandsins við að hanna tveggja hreyfla langdræga þotu, A-350, sem á að keppa við Boeing 787 Dreamliner, sem kemur á markaðinn árið 2008. Evrópusambandið hefur lengi stundað niðurgreiðslur, þar á meðal til Airbus-verksmiðjanna, sem hafa hannað allar sínar vélar með slíkri aðstoð. Bandaríkjamenn segja að lán Evrópusambandsins til Airbus séu í raun óréttlátar niðurgreiðslur og hafa lagt fram kvörtun hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Airbus fékk meðal annars milljarðaaðstoð við að hanna A-380, stærstu farþegaþotu heims sem fór í sitt fyrsta tilraunaflug í síðasta mánuði. Ef Evrópusambandið fellst á að aðstoða Airbus við hönnun á A-350 má fastlega gera ráð fyrir að Bandaríkjamenn fari í hart. Þarna er um svo háar upphæðir að tefla að það gæti orðið mesta viðskiptastríð sögunnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×