Fastir pennar

Vinir Berlusconis

Ítalir sem borðuðu á Andarunganum um daginn ætluðu að æla þegar ég sagði þeim að forsætisráðherra þjóðarinnar (sem hann er víst ekki lengur) væri vinur Silvios Berlusconi. Sögðu að það væri svo sannarlega ekki meðmæli með manninum. Það verður þó að taka fram að Ítalir skiptast í tvö horn í áliti sínu á Berlusconi. Fyrir tveimur árum var ég á lúxushóteli í Grikklandi og kynntist ítölskum lýtalækni sem þarna dvaldi ásamt konu sinni, minniháttar greifynju. Hann var stórhrifinn af Berlusconi, taldi hann stórkostlegan afburðamann sem myndi láta kommúnista finna til tevatnsins. Davíð Oddsson mun hafa notið gistivináttu Berlusconis á búi hans á Sardiníu. Mér skilst að þá hafi verið tveir forsætisráðherrar verið í heimsókn þarna, Davíð var villu uppi á landi en fyrir utan lónaði forsætisráðherra Rúmeníu á snekkju. Svona hefur Berlusconi safnað þjóðarleiðtogum, stórum jafnt og smáum. Pútín hefur verið þarna gestur og Tony Blair líka – var það ekki einmitt þá sem hann stórslasaði Berlusconi í fótbolta? --- --- --- Í fyrra fór ég til Sardiníu. Við vorum í bænum Alghero – sem er svona heldur í daufara lagi – leigðum bíl og ætluðum að fara á ströndina. Keyrðum og keyrðum en fundum hvergi stæði – á allri norðurströnd eyjarinnar var hvergi bílastæði að hafa! Ég var feginn þegar ég komst frá Sardiníu. Þar er ekki margs að sakna. --- --- --- Polly Toynbee skrifar um verkfallið hjá Gate Gourmet í The Guardian. Um þetta fjallaði ég í dálki hér um daginn. British Airways er í vandræðum vegna þess að flugfélagið gerði samning um veitingar við gráðuga bandaríska kapítalista sem vildu reka starfsfólk frá Indlandi og Pakistan, aðallega miðaldra konur, og ráða ennþá ódýrara vinnuafl frá Afríku og Austur-Evrópu í gegnum starfsmannaleigur. Það getur hlakkað í manni vegna þess að Gate Gourmet komst ekki alveg upp með þessi áform. Gott á þá, hugsar maður. Verkfallskonurnar á Heathrow höfðu sín áhrif. --- --- --- En þetta er kannski ekki svona einfalt. Polly Toynbee leggur út af vaxandi ójöfnuði í heiminum í grein sinni. British Airways ætlar að borga Gate Gourmet 10 milljónir punda til að auðvelda lausn deilunnar, enda hefur hún skaðað ímynd flugfélagsins mjög. Eru þetta miklir peningar? Ekki fyrir alla. Helsti eigandi Gate er bandaríski auðmaðurinn David Bonderman. Toynbee greinir frá því að á dögunum hafi hann eytt nákvæmlega þessari upphæð, 10 milljónum punda, í afmælið sitt. Hann tók á leigu stærsta spilavíti í Los Angeles og bauð gestum sínum upp á Rolling Stones og Robbie Williams. --- --- --- Borgarfulltrúar ryðjast hver um annan þveran með frábærar hugmyndir um hvernig megi bæta borgina. Dagur Eggertsson vill fá líf Hljómskálagarðinn, Guðlaugur Þór er með ferskar hugmyndir um Miklatún. Nú er bara spurningin: hver býður best? Það gæti jafnvel orðið gaman í kosningunum á næsta ári. Hins vegar mætti líka fara að að leiðrétta mistök og koma í veg fyrir að önnur verði framin. Það er sennilega of seint að rífa upp nýju Hringbrautina, þetta sérkennilega misheppnaða mannvirki. En blokkarbyggðina á Valssvæðinu má hæglega stöðva (það kannast heldur enginn við að vilja hana) og líka má hætta við þær afkáralegu hugmyndir að setja niður duftkirkjugarð á fínu byggingarlandi í norðanverðri Öskjuhlíð. Duftkirkjugarðurinn getur alveg eins verið uppi á Kjalarnesi – nema menn séu hræddir um að hinum látnu þyki það ekki boðlegt. En ekki hafa þeir slíkar áhyggjur af þeim sem lifa.





×