Hlúum að móðurmálinu 7. mars 2006 00:01 Eitt það fyrsta sem ég segi nemendum mínum á hverju hausti er að ég ætlist til þess að hver og einn geri sitt besta. Þeir eiga að leggja sig fram, stefna að framförum og gera eins vel og þeir geta, hver og einn á hverjum tíma. Almennt finnst mér þetta eiga að vera sú grundvallarkrafa sem við gerum til okkar sjálfra og til hvers annars. Mikið vildi ég að fjölmiðlar hefðu þetta að leiðarljósi almennt þegar þeir nota ástkæra, ylhýra móðurmálið. Ég nota reyndar fjölmiðla ekki svo reglulega að ég geti tiltekið hér sérstök dæmi og nefnt einn fjölmiðil öðrum fremur. En eftir stendur sú staðreynd að við okkur blasa stafsetningarvillur, almennar ásláttarvillur og málvillur, hvort sem við lesum eða hlustum. Sú spurning vaknar reyndar hvort fólk sé almennt farið að treysta svo á leiðréttingarforrit í tölvum að það láti texta frá sér fara án frekari yfirlestrar en þess sem leiðréttingarforritið sér um. En, svo góðra gjalda verð sem slík forrit eru, duga þau þó hvergi nærri því þau hafa t.d. enga málvitund og enga hugmynd um hvenær er rétt að skrifa himinn og hvenær himin, svo dæmi sé tekið. Né heldur gera þau greinarmun á sögnunum að tína og týna, sem hafa þó mikinn merkingarmun eins og flestir vita. En fréttamönnum blaða og ljósvakamiðla verður aftur og aftur "fótaskortur á tungunni". Það er lágmarkskrafa að menn sem hafa atvinnu af skrifum beri skynbragð á atvinnutækið sitt, þ.e. tungumálið og bregði t.d. ekki fyrir sig máltækjum og orðtökum án þess að vita nokkurn veginn hvað þau merkja. Þá er betra að láta þau liggja ónotuð. Og víða vantar greinilega prófarkalesara. Alvarlegustu og meinlegustu villurnar eru þó í barnaefni ýmiskonar. Þar má nefna barnabókmenntir og þó enn frekar talsetningu barnaefnis fyrir sjónvarp og geisladiska sem gefnir eru út fyrir börn. Þar vaða ítrekað uppi málvillur og rangfærslur og auðvitað læra börnin það sem fyrir þeim er haft. Þetta metnaðarleysi einkennir ekki bara ljósvakamiðla, dagblöð og tímarit. Skáldsögur og ævisögur eftir viðurkennda höfunda frá þekktum útgáfufyrirtækjum sleppa ekki óskaddaðar til lesandans. Þýðingarvillur eru á stundum svo meinlegar að þær gera þá kröfu til lesandans að hann hafi í huga og skilji upprunalegt mál bókarinnar svo hann skilji merkingu textans. Minnisstætt dæmi er úr annars ágætri skáldsögu, þýddri úr sænsku, þar sem söguhetja stakk upp á því við félaga sinn að þau tækju tröppuna. Ég verð að viðurkenna að þar missti ég þráð sögunnar og varð að rifja upp mína litlu þekkingu á sænsku til að ná samhenginu. Við nánari athugun var vildi söguhetjan fara stigann í stað þess að nota lyftuna. Við mikinn og oft mjög ánægjulegan lestur bókmennta af ýmsum toga í vetur hef ég reyndar ekki bara hnotið um meinlegar villur ýmiskonar heldur hefur mér þótt nokkuð skorta á ritstjórn. Prófarkalestri hefur verið ábótavant og endurtekningar eða langlokur áberandi. Sú spurning vaknar á stundum hvort rithöfundar fái greitt fyrir hvert orð eða hverja blaðsíðu, þannig að lengri bækur gefi meira af sér en stuttar. Það hlýtur að teljast til einhvers konar ritstjórnar að benda höfundum á slíka ágalla og gefa þeim góð ráð. Þegar langlokur bætast við villur eru sögurnar farnar að gjalda metnaðarleysis, hvort sem við höfunda, útgefendur eða jafnvel prófarkalesara er að sakast. Mikið hefur verið rætt um metnað í bókaútgáfu en magn er ekki alltaf ígildi gæða. Margar góðar bækur komu út í vetur en í mörgum tilfellum hefði þó mátt gera enn betur með vandaðri yfirlestri og gagnrýni fyrir útgáfu, að ekki sé talað um góðan prófarkalestur. Það er góð og gild regla að lesa vel yfir það sem maður lætur frá sér fara. Enn betri regla er sú að fá annan til að lesa yfir fyrir sig því betur sjá augu en auga. Góðir og gegnir stjórnendur ýmissa fyrirtækja þurfa t.d. ítrekað að senda frá sér texta af ýmsu tagi og ættu að setja sér þá sjálfsögðu vinnureglu að leita til góðs íslenskumanns um yfirlestur. Slíkir finnast í hverju fyrirtæki. Það er lágmarkskrafa að gera sitt besta hverju sinni, hvort sem verið er að skrifa stutta frétt eða pistil í dagblað, ræða við hlustendur og viðmælendur í útvarpi eða sjónvarpi, skrifa bók eða bréf í nafni stofnunar eða fyrirtækis. Okkur má ekki vera sama um meðferð móðurmálsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Inga Rósa Þórðardóttir Skoðanir Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun
Eitt það fyrsta sem ég segi nemendum mínum á hverju hausti er að ég ætlist til þess að hver og einn geri sitt besta. Þeir eiga að leggja sig fram, stefna að framförum og gera eins vel og þeir geta, hver og einn á hverjum tíma. Almennt finnst mér þetta eiga að vera sú grundvallarkrafa sem við gerum til okkar sjálfra og til hvers annars. Mikið vildi ég að fjölmiðlar hefðu þetta að leiðarljósi almennt þegar þeir nota ástkæra, ylhýra móðurmálið. Ég nota reyndar fjölmiðla ekki svo reglulega að ég geti tiltekið hér sérstök dæmi og nefnt einn fjölmiðil öðrum fremur. En eftir stendur sú staðreynd að við okkur blasa stafsetningarvillur, almennar ásláttarvillur og málvillur, hvort sem við lesum eða hlustum. Sú spurning vaknar reyndar hvort fólk sé almennt farið að treysta svo á leiðréttingarforrit í tölvum að það láti texta frá sér fara án frekari yfirlestrar en þess sem leiðréttingarforritið sér um. En, svo góðra gjalda verð sem slík forrit eru, duga þau þó hvergi nærri því þau hafa t.d. enga málvitund og enga hugmynd um hvenær er rétt að skrifa himinn og hvenær himin, svo dæmi sé tekið. Né heldur gera þau greinarmun á sögnunum að tína og týna, sem hafa þó mikinn merkingarmun eins og flestir vita. En fréttamönnum blaða og ljósvakamiðla verður aftur og aftur "fótaskortur á tungunni". Það er lágmarkskrafa að menn sem hafa atvinnu af skrifum beri skynbragð á atvinnutækið sitt, þ.e. tungumálið og bregði t.d. ekki fyrir sig máltækjum og orðtökum án þess að vita nokkurn veginn hvað þau merkja. Þá er betra að láta þau liggja ónotuð. Og víða vantar greinilega prófarkalesara. Alvarlegustu og meinlegustu villurnar eru þó í barnaefni ýmiskonar. Þar má nefna barnabókmenntir og þó enn frekar talsetningu barnaefnis fyrir sjónvarp og geisladiska sem gefnir eru út fyrir börn. Þar vaða ítrekað uppi málvillur og rangfærslur og auðvitað læra börnin það sem fyrir þeim er haft. Þetta metnaðarleysi einkennir ekki bara ljósvakamiðla, dagblöð og tímarit. Skáldsögur og ævisögur eftir viðurkennda höfunda frá þekktum útgáfufyrirtækjum sleppa ekki óskaddaðar til lesandans. Þýðingarvillur eru á stundum svo meinlegar að þær gera þá kröfu til lesandans að hann hafi í huga og skilji upprunalegt mál bókarinnar svo hann skilji merkingu textans. Minnisstætt dæmi er úr annars ágætri skáldsögu, þýddri úr sænsku, þar sem söguhetja stakk upp á því við félaga sinn að þau tækju tröppuna. Ég verð að viðurkenna að þar missti ég þráð sögunnar og varð að rifja upp mína litlu þekkingu á sænsku til að ná samhenginu. Við nánari athugun var vildi söguhetjan fara stigann í stað þess að nota lyftuna. Við mikinn og oft mjög ánægjulegan lestur bókmennta af ýmsum toga í vetur hef ég reyndar ekki bara hnotið um meinlegar villur ýmiskonar heldur hefur mér þótt nokkuð skorta á ritstjórn. Prófarkalestri hefur verið ábótavant og endurtekningar eða langlokur áberandi. Sú spurning vaknar á stundum hvort rithöfundar fái greitt fyrir hvert orð eða hverja blaðsíðu, þannig að lengri bækur gefi meira af sér en stuttar. Það hlýtur að teljast til einhvers konar ritstjórnar að benda höfundum á slíka ágalla og gefa þeim góð ráð. Þegar langlokur bætast við villur eru sögurnar farnar að gjalda metnaðarleysis, hvort sem við höfunda, útgefendur eða jafnvel prófarkalesara er að sakast. Mikið hefur verið rætt um metnað í bókaútgáfu en magn er ekki alltaf ígildi gæða. Margar góðar bækur komu út í vetur en í mörgum tilfellum hefði þó mátt gera enn betur með vandaðri yfirlestri og gagnrýni fyrir útgáfu, að ekki sé talað um góðan prófarkalestur. Það er góð og gild regla að lesa vel yfir það sem maður lætur frá sér fara. Enn betri regla er sú að fá annan til að lesa yfir fyrir sig því betur sjá augu en auga. Góðir og gegnir stjórnendur ýmissa fyrirtækja þurfa t.d. ítrekað að senda frá sér texta af ýmsu tagi og ættu að setja sér þá sjálfsögðu vinnureglu að leita til góðs íslenskumanns um yfirlestur. Slíkir finnast í hverju fyrirtæki. Það er lágmarkskrafa að gera sitt besta hverju sinni, hvort sem verið er að skrifa stutta frétt eða pistil í dagblað, ræða við hlustendur og viðmælendur í útvarpi eða sjónvarpi, skrifa bók eða bréf í nafni stofnunar eða fyrirtækis. Okkur má ekki vera sama um meðferð móðurmálsins.