Skuldasöfnun í samhengi 16. mars 2006 00:01 Margar skuldugustu þjóðir heims búa í Afríku og Suður-Ameríku. Erlendar skuldir Afríkulandanna nema nú um 70% af samanlagðri landsframleiðslu álfunnar og hafa haldizt stöðugar undir því marki síðan 1990. Suður-Ameríka er ekki eins skuldug. Þar nema erlendar skuldir nálægt 40% af landsframleiðslu á heildina litið og hafa haldizt stöðugar við það mark síðan 1990. Asíulöndin skulda minnst. Þar hefur skuldahlutfallið þokazt niður á við: það var um 30% af landsframleiðslu 1991-2000 og er nú komið niður undir fjórðung. Erlendar skuldir Afríkulandanna eru að mestu leyti ríkisskuldir (80%), en skuldir Suður-Ameríku eru mestmegnis einkaskuldir (75%); Asía liggur miðsvæðis. Hvað um Ísland? Erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust úr 56% af landsframleiðslu í árslok 1990 upp í 100% í árslok 2000, 200% í árslok 2004 og 300% í árslok 2005. Skuldirnar stefna enn hærra, því að hallinn á viðskiptum við útlönd er enn mikill og verður mikill áfram enn um sinn samkvæmt spám fjármálaráðuneytisins svo sem jafnan fyrr. Skuldirnar skiptast þannig, að hið opinbera hefur stofnað til 6% af skuldunum, bankarnir 83% og aðrir 11%. Bankarnir njóta í reynd ríkistryggingar í þeim skilningi, að allir virðast gera ráð fyrir því, að ríkið kæmi þeim til bjargar, ef á skyldi reyna. Bankarnir hafa notið góðra lánskjara í útlöndum eftir einkavæðingu bæði fyrir eigið ágæti og vegna þessarar óbeinu, undirskildu ríkisábyrgðar. Reynslan sýnir, að ríkið hleypur iðulega undir bagga með einkabönkum, ef þeir komast í kröggur, því að ella yrðu of margir saklausir vegfarendur fyrir of miklum og óverðskulduðum skakkaföllum. Ríkisvaldið kýs því að skakka leikinn, ef svo ber við, og dreifa skaðanum á skattgreiðendur. Þetta gerðist til dæmis í Bandaríkjunum 1986-89 og á Norðurlöndum nokkru síðar. Erlendir lánardrottnar íslenzkra banka hljóta að reikna með því, að ríkisstjórnin hér heima hefði sama háttinn á, ef í harðbakka slægi, þótt landslög kveði ekki lengur á um ríkisábyrgð eins og þau gerðu á fyrri tíð, þegar bankarnir voru ríkisbankar. Bankarnir eru því á bankamannamáli stundum kallaðir kerfisbankar til aðgreiningar frá ósviknum einkabönkum. Skuldabyrði þjóðarinnar hefur þyngzt til muna. Vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum námu fimmtungi af útflutningstekjum 1997, nærri helmingi 2002 og rösklega 70% 2005 (þetta er ekki prentvilla). Nú er því ekki hægt að nota nema tæpan þriðjung af útflutningstekjunum til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu; afganginn þarf að taka að láni til að halda leiknum áfram. Vaxtagjöldin hækkuðu um helming í fyrra, úr 8% af útflutningstekjum 2004 í 12% 2005. Byrðin á eftir að þyngjast, ef vaxtakjör bankanna versna á heimsmarkaði. Það á eftir að koma í ljós, hvort öllu lánsfénu hefur verið varið svo vel, að skuldunautarnir geti borið svo þungt hlass til lengdar. Margir lántakendur virðast undarlega hirðulausir um hag sinn. Útistandandi yfirdráttarskuldir fyrirtækja og heimila í lok janúar 2006 námu 184 milljörðum króna. Þessi yfirdráttarlán bera 15% til 21% ársvexti. Það er ekki ónýtt fyrir bankana að eiga slíka viðskiptavini. Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 hefur að miklu leyti verið knúin áfram með erlendu lánsfé, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið 1994 ruddi braut inn í landið og lántakendur eiga eftir að standa skil á. Innflutningur erlends vinnuafls í krafti sama samnings öðrum þræði kom í veg fyrir, að lánsfjárinnstreymið leiddi til mikillar verðbólgu eins og áður, en verðbólgan hefur samt langtímum saman verið yfir settu marki Seðlabankans. Langvinn uppsveifla án verðbólgu er nýjung í íslenzku efnahagslífi og virðist hafa slævt áhuga stjórnvalda á frekari umbótum í efnahagsmálum. Enn býst ríkið til að ráðast í risaframkvæmdir fyrir erlent lánsfé til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn, þótt áhöld séu um arðsemi framkvæmdanna. Munstrið er kunnuglegt frá fyrri tíð (og öðrum heimsálfum): innstreymi lánsfjár er ætlað að örva atvinnulífið um stundarsakir, en minna er hirt um það, hvort framkvæmdirnar séu líklegar til að skila viðunandi arði og hvort skuldabyrðin verður þolanleg til langs tíma litið. Vaxtagjöld þjóðarinnar umfram vaxtatekjur námu 4% af landsframleiðslu í fyrra (2005). Þessi hluti viðskiptahallans er viðvarandi. Slagsíðan mun aukast á næstu árum, ef vextir hækka úti í heimi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Margar skuldugustu þjóðir heims búa í Afríku og Suður-Ameríku. Erlendar skuldir Afríkulandanna nema nú um 70% af samanlagðri landsframleiðslu álfunnar og hafa haldizt stöðugar undir því marki síðan 1990. Suður-Ameríka er ekki eins skuldug. Þar nema erlendar skuldir nálægt 40% af landsframleiðslu á heildina litið og hafa haldizt stöðugar við það mark síðan 1990. Asíulöndin skulda minnst. Þar hefur skuldahlutfallið þokazt niður á við: það var um 30% af landsframleiðslu 1991-2000 og er nú komið niður undir fjórðung. Erlendar skuldir Afríkulandanna eru að mestu leyti ríkisskuldir (80%), en skuldir Suður-Ameríku eru mestmegnis einkaskuldir (75%); Asía liggur miðsvæðis. Hvað um Ísland? Erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust úr 56% af landsframleiðslu í árslok 1990 upp í 100% í árslok 2000, 200% í árslok 2004 og 300% í árslok 2005. Skuldirnar stefna enn hærra, því að hallinn á viðskiptum við útlönd er enn mikill og verður mikill áfram enn um sinn samkvæmt spám fjármálaráðuneytisins svo sem jafnan fyrr. Skuldirnar skiptast þannig, að hið opinbera hefur stofnað til 6% af skuldunum, bankarnir 83% og aðrir 11%. Bankarnir njóta í reynd ríkistryggingar í þeim skilningi, að allir virðast gera ráð fyrir því, að ríkið kæmi þeim til bjargar, ef á skyldi reyna. Bankarnir hafa notið góðra lánskjara í útlöndum eftir einkavæðingu bæði fyrir eigið ágæti og vegna þessarar óbeinu, undirskildu ríkisábyrgðar. Reynslan sýnir, að ríkið hleypur iðulega undir bagga með einkabönkum, ef þeir komast í kröggur, því að ella yrðu of margir saklausir vegfarendur fyrir of miklum og óverðskulduðum skakkaföllum. Ríkisvaldið kýs því að skakka leikinn, ef svo ber við, og dreifa skaðanum á skattgreiðendur. Þetta gerðist til dæmis í Bandaríkjunum 1986-89 og á Norðurlöndum nokkru síðar. Erlendir lánardrottnar íslenzkra banka hljóta að reikna með því, að ríkisstjórnin hér heima hefði sama háttinn á, ef í harðbakka slægi, þótt landslög kveði ekki lengur á um ríkisábyrgð eins og þau gerðu á fyrri tíð, þegar bankarnir voru ríkisbankar. Bankarnir eru því á bankamannamáli stundum kallaðir kerfisbankar til aðgreiningar frá ósviknum einkabönkum. Skuldabyrði þjóðarinnar hefur þyngzt til muna. Vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum námu fimmtungi af útflutningstekjum 1997, nærri helmingi 2002 og rösklega 70% 2005 (þetta er ekki prentvilla). Nú er því ekki hægt að nota nema tæpan þriðjung af útflutningstekjunum til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu; afganginn þarf að taka að láni til að halda leiknum áfram. Vaxtagjöldin hækkuðu um helming í fyrra, úr 8% af útflutningstekjum 2004 í 12% 2005. Byrðin á eftir að þyngjast, ef vaxtakjör bankanna versna á heimsmarkaði. Það á eftir að koma í ljós, hvort öllu lánsfénu hefur verið varið svo vel, að skuldunautarnir geti borið svo þungt hlass til lengdar. Margir lántakendur virðast undarlega hirðulausir um hag sinn. Útistandandi yfirdráttarskuldir fyrirtækja og heimila í lok janúar 2006 námu 184 milljörðum króna. Þessi yfirdráttarlán bera 15% til 21% ársvexti. Það er ekki ónýtt fyrir bankana að eiga slíka viðskiptavini. Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 hefur að miklu leyti verið knúin áfram með erlendu lánsfé, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið 1994 ruddi braut inn í landið og lántakendur eiga eftir að standa skil á. Innflutningur erlends vinnuafls í krafti sama samnings öðrum þræði kom í veg fyrir, að lánsfjárinnstreymið leiddi til mikillar verðbólgu eins og áður, en verðbólgan hefur samt langtímum saman verið yfir settu marki Seðlabankans. Langvinn uppsveifla án verðbólgu er nýjung í íslenzku efnahagslífi og virðist hafa slævt áhuga stjórnvalda á frekari umbótum í efnahagsmálum. Enn býst ríkið til að ráðast í risaframkvæmdir fyrir erlent lánsfé til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn, þótt áhöld séu um arðsemi framkvæmdanna. Munstrið er kunnuglegt frá fyrri tíð (og öðrum heimsálfum): innstreymi lánsfjár er ætlað að örva atvinnulífið um stundarsakir, en minna er hirt um það, hvort framkvæmdirnar séu líklegar til að skila viðunandi arði og hvort skuldabyrðin verður þolanleg til langs tíma litið. Vaxtagjöld þjóðarinnar umfram vaxtatekjur námu 4% af landsframleiðslu í fyrra (2005). Þessi hluti viðskiptahallans er viðvarandi. Slagsíðan mun aukast á næstu árum, ef vextir hækka úti í heimi.