Fastir pennar

Siglt eftir Pólstjörnunni

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað það hlýtur að vera angistarfullt að vera í stjórnarandstöðunni þessa dagana. Einhvern veginn sama á hverju er snert, sama um hvað er talað, allt rennur saman í langdregið þras sem virðist hafa þann einn tilgang að fæla allt venjulegt fólk frá því að fylgjast með stjórnmálum. Kannski er það tilgangurinn. Eina eftirminnilega framlag stjórnarandstöðunnar undanfarið er þegar vesalings Samfylkingarþingmanninum varð mál í miðju málþófi um vatn. Sennilega má skrifa þetta dáðleysi á reikning Steingríms J. Sigfússonar. Í fjarveru hans er stjórnarandstaðan álíka áhugaverð og greiningardeild Den Danske Bank.

Ýmist of eða vanStjórnarandstöðunni má skipta í tvo hópa. Annars vegar þá sem hljóða hástöfum yfir auknum skatttekjum ríkisins og þenslu vegna umsvifa þess og hins vegar þá sem kvarta sáran yfir því að ekki sé varið nægu fjármagni til allra þeirra góðu verkefna sem ríkið þarf að sinna. Vandinn er sá að í báðum hópunum eru nákvæmlega sömu mennirnir. Þeir vappa um ganga Alþingis ábúðarfullir, með svip þess sem kann þá list að spara og eyða sömu krónunni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Flesta dagana virðast þingmenn stjórnarandstöðunnar kunna best við sig í útgjaldahópnum, enda áreynsluminnst.

Eflum HáskólannHáskóli Íslands var til umræðu á Alþingi um daginn. Háskóla­rektor hefur sett stefnuna á að HÍ verði í hópi 100 bestu háskóla heims innan fárra ára. Það er ágætt markmið. Ég hef reyndar mínar efasemdir um að það sé gerlegt og þær efasemdir snúa ekki að fjárhagslegum rökum. En markmiðið er gott þrátt fyrir það. Það er vel hægt að stýra eftir Pól­stjörnunni án þess að maður sé sannfærður um að lenda þar. En umræðan á þinginu snerist um það að HÍ þyrfti meiri peninga til að byggja upp framhaldsnámið. Efling þess náms er forsenda þess að skólinn styrki sig í samkeppni við bestu háskóla heimsins. Það leikur ekki vafi á því að HÍ þarf meiri fjármuni í framhaldsnám skólans. En ég er ekki viss um að þeir peningar eigi allir að koma frá skattgreiðendum. Ég held einnig að það eigi að hlusta vel á þá sem segja að breytingar verði að eiga sér stað í stjórnsýslu skólans.

Eflum framhaldsnámiðHáskóli Íslands á að taka upp skólagjöld fyrir nemendur í meistara- og doktorsnámi. Þannig getur skólinn sjálfur haft áhrif á það að tekjur hans séu nægar til að bjóða það nám sem stenst alþjóðlega samkeppni. Með slíkri gjaldtöku setur skólinn sjálfan sig undir þann aga að þurfa að bjóða nám sem stúdentar telja þess virði að borga fyrir. Það er ekki nóg að fá peninga, það þarf að ná árangri.

Það er löngu ljóst að stór hluti íslenskra námsmanna telur eðlilegt að greiða fyrir háskólanám. Mesta gróskan er í þeim háskólum landsins þar sem skólagjöld eru innt af hendi og á hverju ári innritast fjöldi íslenskra námsmanna í marga af bestu háskólum heims og greiða oft himinhá skólagjöld fyrir. Þeir vita sem er að þeir fá eitthvað fyrir aurana sína. SanngirnismálHagvöxtur næstu ára og áratuga mun eiga uppruna sinn í menntun og samfélagið okkar einkennist æ meira af því að menntun borgar sig. Launabilið milli þeirra sem sækja sér langskólamenntun og þeirra sem fara fyrr út á vinnumarkaðinn mun óhjákvæmlega aukast ár frá ári. Háskólanám á framhaldsstigi er því fjárfesting, bæði einstaklingsins og samfélagsins. Við hljótum því að geta verið sammála um að það sé skynsamlegt og sanngjarnt að báðir borgi. Ríkið á að halda áfram að auka framlög sín til Háskóla Íslands og það á að tryggja jafnrétti til framhaldsnáms með öflugum lánasjóð. En það er sanngirnismál að þeir sem fara í framhaldsnám við skólann taki þátt í kostnaðinum.

Hornsteinn þjóðfélagsinsHáskóli Íslands er mikilvægasta stofnun þjóðarinnar. Fyrsta flokks vel rekinn skóli er forsenda fyrsta flokks samfélag. Annars flokks háskóli þýðir annars flokks samfélag. Ég sat í háskólaráði á námsárum mínum í Háskólanum og fékk því tækifæri til að kynnast mörgu af því frábæra fólki sem starfar við skólann. Ég fullyrði að það eru unnin afrek á hverjum degi í Háskóla Íslands. Íslenskt samfélag er stórum betra fyrir vikið. En ég varð líka vitni að því að skólinn á bágt með að verðlauna þá sem skara fram úr og losa sig við þá sem standa sig illa. Því þarf að breyta ef markmiðið um sæti á lista hinna hundrað bestu á ekki að verða jafn fjarlægt og Pólstjarnan.






×