Innanlandsflug 4. apríl 2006 00:01 Á þeim árum þegar erlendri hersetu á Íslandi var mótmælt hvað ákafast létu mótmælendur ekki í ljósi sérstakar áhyggjur af því hvað yrði um eigur hins erlenda hers ef og þegar hann færi. Þaðan af síður höfðu menn miklar áhyggjur af atvinnuleysi á svæðinu í kjölfar brottflutnings hersins eða mengun í jarðvegi eða nokkru öðru sem nú virðist full ástæða til að ræða og skoða vel. Fylgismenn hersetu höfðu þó einhverjar áhyggjur af vörnum landsins án hans enda var hann um kyrrt, allt fram til þessa. Sjálf trúði ég aldrei almennilega mikilvægi þess að verja skerið okkar með 250 þúsund hræðum eins og þá var. Þótt okkur hafi fjölgað í þrjú hundruð þúsund ber ég enn ekki skynbragð á mikilvægi þess að verja þetta land fyrir ímynduðum óvinum, finnst einhvern veginn að Íslendingar og Færeyingar hljóti alltaf að verða frekar óspennandi skotmark þeirra sem leggja sig í líma við að finna óvini. En það er önnur saga. Enn er ósvarað þeirri spurningu hvernig eigi að haga innanlandsflugi á Íslandi. Við brottflutning hersins verða þær raddir háværari sem telja miðstöð innanlandsflugs best komna á Keflavíkurflugvelli og tefla fram ýmsum rökum, sumum góðum og öðrum afleitum eins og gengur. Eðlilega hafa íbúar Reykjanesbæjar hug á að fá þessa þjónustu í sitt sveitarfélag enda eftir töluverðu að slægjast. Mergurinn málsins er hinsvegar sá að staðsetning miðstöðvar innanlandsflugs er ekki einkamál Reykvíkinga, þótt stundum mætti ætla svo af umræðunni. Gríðarlegir hagsmunir landsbyggðarbúa eru í húfi og því undrast ég hversu lítið heyrist úr þeirri átt. Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar eiga mikið undir því að njóta góðrar þjónustu í innanlandsflugi og að greiður aðgangur sé að höfuðborg allra landsmanna, þar sem nær allri opinberri þjónustu hefur verið fundinn staður til frambúðar. Enn heyrast undarlegar fullyrðingar á þá lund að þeir einu sem fljúgi milli landshluta séu hvort sem er á leiðinni til útlanda og því sé þetta bara til hagsbóta. Slíku bulli er auðvitað ekki svarandi og morgunljóst að þeir þrjú hundruð og tuttugu þúsund farþegar sem tóku sér far með Flugfélagi Íslands á síðasta ári voru fæstir á ferðinni í slíkum erindagjörðum. Eitthvað hefði kostað í tíma og peningum að flytja þá farþega milli Reykjavíkur og Keflavíkur, hvað sem líður hugmyndum um bættar samgöngur á milli þessara staða. 320 þúsund farþegar á einu ári svarar því að hver einasti Íslendingur hafi farið a.m.k. eina flugferð milli áfangastaða innanlands og nokkrir reyndar tvær. Réttur helmingur þessara farþega flaug á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Verði miðstöð innanlandsflugs flutt til Keflavíkur tvöfaldast ferðatími þessa fólks og þá má búast við að stór hluti þessa hóps kjósi frekar að keyra alla leið með tilheyrandi kostnaði í tíma og peningum. Það kallar á aðgerðir í vegamálum á þeirri leið. Formaður Skipulagsráðs Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, greindi frá því í viðtalsþætti í sjónvarpi ekki alls fyrir löngu að hann hefði þegar lýst sig tilbúinn til að fara og hitta bæjarstjórana á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Það hljómaði næstum eins og honum fyndist það hálfgerð ofrausn af sinni hálfu að leggja í slík ferðalög, en kannski var ég bara illa fyrirkölluð þegar ég hlustaði. Það væri hinsvegar fróðlegt að vita hvort sú fundaferð er hafin og hvernig hún hefur þá gengið. Hitt er þó mikilvægara að íbúar þessara landshluta láti til sín heyra. Hvað segir fólk sem sækir nám til Reykjavíkur? Hvað segja foreldrar langveikra barna sem þurfa að leita þar læknisþjónustu? Hvað segja sveitarstjórnarmenn sem ítrekað eiga erindi við stofnanir og fulltrúa ríkisstjórnar? Nú má vel vera að Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar hafi ekki verið svo hljóðlátir um þessi mál sem mér virðist en það heyrist a.m.k. alls ekki nóg frá þeim. Meðan Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna er það hagsmunamál allra Íslendinga að samgöngur til og frá henni séu greiðar. Það getur aldrei orðið einkamál Reykvíkinga að ráðstafa Vatnsmýrinni til þéttingar byggð. Margir virðast reyndar trúa því í alvöru að þétting byggðar sé töfralausn sem leysi allan vanda höfuðborgarinnar. Hann er hinsvegar meiri og djúpstæðari en svo að það eitt dugi til. Það er heldur ekki lögmál að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni eins og margir halda fram. Ítrekað heyrist að auðvitað fari flugvöllurinn, spurning sé ekki hvort heldur hvenær og hvert. En sá kostur hlýtur að verða skoðaður, eins og aðrir, að hann sé best kominn þar sem hann er. Mikilvægast er þó að allir landsmenn taki þátt í þessari umræðu, ekki síst þeir sem byggja Vestfirði, Norðurland og Austurland. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Inga Rósa Þórðardóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Á þeim árum þegar erlendri hersetu á Íslandi var mótmælt hvað ákafast létu mótmælendur ekki í ljósi sérstakar áhyggjur af því hvað yrði um eigur hins erlenda hers ef og þegar hann færi. Þaðan af síður höfðu menn miklar áhyggjur af atvinnuleysi á svæðinu í kjölfar brottflutnings hersins eða mengun í jarðvegi eða nokkru öðru sem nú virðist full ástæða til að ræða og skoða vel. Fylgismenn hersetu höfðu þó einhverjar áhyggjur af vörnum landsins án hans enda var hann um kyrrt, allt fram til þessa. Sjálf trúði ég aldrei almennilega mikilvægi þess að verja skerið okkar með 250 þúsund hræðum eins og þá var. Þótt okkur hafi fjölgað í þrjú hundruð þúsund ber ég enn ekki skynbragð á mikilvægi þess að verja þetta land fyrir ímynduðum óvinum, finnst einhvern veginn að Íslendingar og Færeyingar hljóti alltaf að verða frekar óspennandi skotmark þeirra sem leggja sig í líma við að finna óvini. En það er önnur saga. Enn er ósvarað þeirri spurningu hvernig eigi að haga innanlandsflugi á Íslandi. Við brottflutning hersins verða þær raddir háværari sem telja miðstöð innanlandsflugs best komna á Keflavíkurflugvelli og tefla fram ýmsum rökum, sumum góðum og öðrum afleitum eins og gengur. Eðlilega hafa íbúar Reykjanesbæjar hug á að fá þessa þjónustu í sitt sveitarfélag enda eftir töluverðu að slægjast. Mergurinn málsins er hinsvegar sá að staðsetning miðstöðvar innanlandsflugs er ekki einkamál Reykvíkinga, þótt stundum mætti ætla svo af umræðunni. Gríðarlegir hagsmunir landsbyggðarbúa eru í húfi og því undrast ég hversu lítið heyrist úr þeirri átt. Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar eiga mikið undir því að njóta góðrar þjónustu í innanlandsflugi og að greiður aðgangur sé að höfuðborg allra landsmanna, þar sem nær allri opinberri þjónustu hefur verið fundinn staður til frambúðar. Enn heyrast undarlegar fullyrðingar á þá lund að þeir einu sem fljúgi milli landshluta séu hvort sem er á leiðinni til útlanda og því sé þetta bara til hagsbóta. Slíku bulli er auðvitað ekki svarandi og morgunljóst að þeir þrjú hundruð og tuttugu þúsund farþegar sem tóku sér far með Flugfélagi Íslands á síðasta ári voru fæstir á ferðinni í slíkum erindagjörðum. Eitthvað hefði kostað í tíma og peningum að flytja þá farþega milli Reykjavíkur og Keflavíkur, hvað sem líður hugmyndum um bættar samgöngur á milli þessara staða. 320 þúsund farþegar á einu ári svarar því að hver einasti Íslendingur hafi farið a.m.k. eina flugferð milli áfangastaða innanlands og nokkrir reyndar tvær. Réttur helmingur þessara farþega flaug á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Verði miðstöð innanlandsflugs flutt til Keflavíkur tvöfaldast ferðatími þessa fólks og þá má búast við að stór hluti þessa hóps kjósi frekar að keyra alla leið með tilheyrandi kostnaði í tíma og peningum. Það kallar á aðgerðir í vegamálum á þeirri leið. Formaður Skipulagsráðs Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, greindi frá því í viðtalsþætti í sjónvarpi ekki alls fyrir löngu að hann hefði þegar lýst sig tilbúinn til að fara og hitta bæjarstjórana á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Það hljómaði næstum eins og honum fyndist það hálfgerð ofrausn af sinni hálfu að leggja í slík ferðalög, en kannski var ég bara illa fyrirkölluð þegar ég hlustaði. Það væri hinsvegar fróðlegt að vita hvort sú fundaferð er hafin og hvernig hún hefur þá gengið. Hitt er þó mikilvægara að íbúar þessara landshluta láti til sín heyra. Hvað segir fólk sem sækir nám til Reykjavíkur? Hvað segja foreldrar langveikra barna sem þurfa að leita þar læknisþjónustu? Hvað segja sveitarstjórnarmenn sem ítrekað eiga erindi við stofnanir og fulltrúa ríkisstjórnar? Nú má vel vera að Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar hafi ekki verið svo hljóðlátir um þessi mál sem mér virðist en það heyrist a.m.k. alls ekki nóg frá þeim. Meðan Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna er það hagsmunamál allra Íslendinga að samgöngur til og frá henni séu greiðar. Það getur aldrei orðið einkamál Reykvíkinga að ráðstafa Vatnsmýrinni til þéttingar byggð. Margir virðast reyndar trúa því í alvöru að þétting byggðar sé töfralausn sem leysi allan vanda höfuðborgarinnar. Hann er hinsvegar meiri og djúpstæðari en svo að það eitt dugi til. Það er heldur ekki lögmál að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni eins og margir halda fram. Ítrekað heyrist að auðvitað fari flugvöllurinn, spurning sé ekki hvort heldur hvenær og hvert. En sá kostur hlýtur að verða skoðaður, eins og aðrir, að hann sé best kominn þar sem hann er. Mikilvægast er þó að allir landsmenn taki þátt í þessari umræðu, ekki síst þeir sem byggja Vestfirði, Norðurland og Austurland.