Vetur án RÚV 8. maí 2006 00:01 Á útmánuðum átti fjölskyldan helgi í sumarbústað. Þar var að finna örlítið sjónvarpstæki sem náði einni stöð. Eftir fréttir á laugardagskvöldi horfðum við á Ríkissjónvarpið og allt í einu rann upp fyrir mér að ég hafði ekki horft á RÚV í heilan vetur. Á þessu voru skýringar: Eftir heilan dag af fréttum á NFS og Rás eitt er maður orðinn fréttamettur klukkan sjö og matartími auk þess genginn í garð, sem stendur fram yfir klukkan átta, og því fer Kastljósið forgörðum. (Hér skortir sárlega rás sem ætti að heita RÚV+.) Og þar með er það upptalið sem kallar á mann úr Ríkiskassanum. Því það verður að segjast eins og er að fyrir utan þessa föstu fréttaþætti er lítið um innlenda dagskrárgerð í Efstaleitinu og ég er ekki maður sem nenni að horfa á bresk morð eða bandarískt setgrín. Í sumarbústaðnum komumst við að því að jafnvel hinn heilagi tími eftir fréttir á laugardagskvöldi var ekki lengur mannaður af okkar fólki heldur fylltur með dósahlátri. RÚV hafði náð nýjum og óvæntum botni, því satt að segja hélt ég að það væru óskráð lög að Ríkisvarpið sæi landsmönnum sínum fyrir innlendri skemmtun á laugardagskvöldum, að minnsta kosti yfir vetrartímann. Snögg könnun á dagskrá þessarar viku leiðir í ljós að innlend dagskrárgerð er öflugri á öðrum stöðvum en RÚV sem lögum samkvæmt skal þó vera öfugt. Aðeins kynning á Listahátíð í Reykjavík og deildabikarinn í handbolta forða ríkisstöðinni frá því að skila nær auðu í innlendri dagskrá eftir Fréttir og Kastljós þessa vikuna. Eina þáttargerðin sem hægt er að tala um er þáttur um ístölt á miðvikudagskvöldið og Út og suður og á sunnudagskvöldið. Á Stöð tvö eru að jafnaði tveir þættir á kvöldi, þar er íslenska jafnan töluð fram til kl. 21. Á meðan RÚV hefur bæði lokað á Spaugstofuna og Hljómsveit kvöldsins ganga Stelpurnar og Það var lagið enn á Stöð tvö. Á meðan RÚV býður ekki upp á neinn fastan vikulegan þátt á íslensku fyrir utan Helgarsportið státar Skjár einn af tveimur (fyrir utan hinn daglega Sex til sjö) svo ekki sé talað um NFS sem sjónvarpar íslensku allan sólarhringinn. Ríkissjónvarpið rekur lestina í innlendri framleiðslu. Það var því dapurlega táknrænt að danska ríkissjónvarpið skyldi breyta Útvarpshúsinu í sendiráð Bandaríkjanna fyrir tökur á Erninum sem fram fóru hér á landi fyrir skömmu. American Embassy stóð skýrum stöfum yfir dyrunum í Efstaleyti í nokkra daga. Í ljósi þess að DR er nú orðið heimsfrægt af framleiðslu sinni var þetta líkt og útpælt salt í sárið frá gömlu herraþjóðinni. Leiðrétti mig þeir sem betur vita en þær tölur hafa heyrst að RÚV fái 3 milljarða til árlegs rekstrar og af þeim fari einungis 100 milljónir í innlenda dagskrá. Í eyrum leikmanna hljómar þetta sem fáránlegt hlutfall en þó hefur maður á tilfinningunni að í Efstaleytinu finnist mönnum þetta jafnvel of mikið. Fræg er sagan af fyrrum yfirmanni RÚV sem kynnti fjárhagsáætlun stofnunarinnar með þessum lokaorðum: Og restin fer síðan í dagskrárhítina. Önnur fræg saga er af leikkonu sem framleiddi sýningu sem Sjónvarpið tók upp. Í framhaldi datt henni í hug að RÚV gæfi verkið út á sölumyndbandi og fór á fund eins af yfirmönnum stofnunarinnar. Hann taldi öll tormerki á að slíkt væri framkvæmanlegt. Þegar leikkonan fræddi hann um að það eina sem hann þyrfti að gera væri að gefa leyfi til verksins, hún myndi sjá um framkvæmdina, brást hann við með orðunum: Ef ég samþykki það þá gæti fólk bara farið að ganga hér inn með hugmyndir! Eftir langt stapp í gegnum síma og tölvur fékkst leyfið þó loks. Hálfu ári síðar gerði leikkonan sér að leik að ganga inn á skrifstofu yfirmannsins og leggja ávísun upp á eina milljón króna á borð hans án þess að segja orð: Tekjur RÚV af útgáfu leikverksins á sölumyndbandi. Sjálfur hef ég reynt að viðra hugmynd að þáttaröð við þessa menn og leið eins og geðsjúklingi sem ræðst að fólki á Laugaveginum og fer að tala við það. Ég hefði eins getað labbað út í strætóbiðskýli og viðrað hugmyndina við þá sem þar stóðu. Á liðnu hausti var ráðinn nýr Útvarpsstjóri og allir fengu á tilfinninguna að hann kæmi sem ferskur vindur inn í staðnaða stofnun. Ekki er sanngjarnt að skrifa eyðiveturinn á reikning hans, við erum sjálfsagt enn að súpa seyðið af dagskrárstjórn forvera hans. En ljóst er að Páll Magnússon á tröllvaxið verk fyrir höndum. Innanhússvandinn er ærinn og spurning hvort hann ætti ekki frekar að einbeita sér að honum en að standa í hnútukasti við kollega sína. Höfuðvandi Ríkisútvarpsins er sem fyrr hin andlausa yfirstjórn þess, þessar litlu bláu fjarstýringar sem flokkurinn hefur komið fyrir í lykilstöðum gegnum tíðina, menn sem hræðast hugmyndir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hallgrímur Helgason Skoðanir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Á útmánuðum átti fjölskyldan helgi í sumarbústað. Þar var að finna örlítið sjónvarpstæki sem náði einni stöð. Eftir fréttir á laugardagskvöldi horfðum við á Ríkissjónvarpið og allt í einu rann upp fyrir mér að ég hafði ekki horft á RÚV í heilan vetur. Á þessu voru skýringar: Eftir heilan dag af fréttum á NFS og Rás eitt er maður orðinn fréttamettur klukkan sjö og matartími auk þess genginn í garð, sem stendur fram yfir klukkan átta, og því fer Kastljósið forgörðum. (Hér skortir sárlega rás sem ætti að heita RÚV+.) Og þar með er það upptalið sem kallar á mann úr Ríkiskassanum. Því það verður að segjast eins og er að fyrir utan þessa föstu fréttaþætti er lítið um innlenda dagskrárgerð í Efstaleitinu og ég er ekki maður sem nenni að horfa á bresk morð eða bandarískt setgrín. Í sumarbústaðnum komumst við að því að jafnvel hinn heilagi tími eftir fréttir á laugardagskvöldi var ekki lengur mannaður af okkar fólki heldur fylltur með dósahlátri. RÚV hafði náð nýjum og óvæntum botni, því satt að segja hélt ég að það væru óskráð lög að Ríkisvarpið sæi landsmönnum sínum fyrir innlendri skemmtun á laugardagskvöldum, að minnsta kosti yfir vetrartímann. Snögg könnun á dagskrá þessarar viku leiðir í ljós að innlend dagskrárgerð er öflugri á öðrum stöðvum en RÚV sem lögum samkvæmt skal þó vera öfugt. Aðeins kynning á Listahátíð í Reykjavík og deildabikarinn í handbolta forða ríkisstöðinni frá því að skila nær auðu í innlendri dagskrá eftir Fréttir og Kastljós þessa vikuna. Eina þáttargerðin sem hægt er að tala um er þáttur um ístölt á miðvikudagskvöldið og Út og suður og á sunnudagskvöldið. Á Stöð tvö eru að jafnaði tveir þættir á kvöldi, þar er íslenska jafnan töluð fram til kl. 21. Á meðan RÚV hefur bæði lokað á Spaugstofuna og Hljómsveit kvöldsins ganga Stelpurnar og Það var lagið enn á Stöð tvö. Á meðan RÚV býður ekki upp á neinn fastan vikulegan þátt á íslensku fyrir utan Helgarsportið státar Skjár einn af tveimur (fyrir utan hinn daglega Sex til sjö) svo ekki sé talað um NFS sem sjónvarpar íslensku allan sólarhringinn. Ríkissjónvarpið rekur lestina í innlendri framleiðslu. Það var því dapurlega táknrænt að danska ríkissjónvarpið skyldi breyta Útvarpshúsinu í sendiráð Bandaríkjanna fyrir tökur á Erninum sem fram fóru hér á landi fyrir skömmu. American Embassy stóð skýrum stöfum yfir dyrunum í Efstaleyti í nokkra daga. Í ljósi þess að DR er nú orðið heimsfrægt af framleiðslu sinni var þetta líkt og útpælt salt í sárið frá gömlu herraþjóðinni. Leiðrétti mig þeir sem betur vita en þær tölur hafa heyrst að RÚV fái 3 milljarða til árlegs rekstrar og af þeim fari einungis 100 milljónir í innlenda dagskrá. Í eyrum leikmanna hljómar þetta sem fáránlegt hlutfall en þó hefur maður á tilfinningunni að í Efstaleytinu finnist mönnum þetta jafnvel of mikið. Fræg er sagan af fyrrum yfirmanni RÚV sem kynnti fjárhagsáætlun stofnunarinnar með þessum lokaorðum: Og restin fer síðan í dagskrárhítina. Önnur fræg saga er af leikkonu sem framleiddi sýningu sem Sjónvarpið tók upp. Í framhaldi datt henni í hug að RÚV gæfi verkið út á sölumyndbandi og fór á fund eins af yfirmönnum stofnunarinnar. Hann taldi öll tormerki á að slíkt væri framkvæmanlegt. Þegar leikkonan fræddi hann um að það eina sem hann þyrfti að gera væri að gefa leyfi til verksins, hún myndi sjá um framkvæmdina, brást hann við með orðunum: Ef ég samþykki það þá gæti fólk bara farið að ganga hér inn með hugmyndir! Eftir langt stapp í gegnum síma og tölvur fékkst leyfið þó loks. Hálfu ári síðar gerði leikkonan sér að leik að ganga inn á skrifstofu yfirmannsins og leggja ávísun upp á eina milljón króna á borð hans án þess að segja orð: Tekjur RÚV af útgáfu leikverksins á sölumyndbandi. Sjálfur hef ég reynt að viðra hugmynd að þáttaröð við þessa menn og leið eins og geðsjúklingi sem ræðst að fólki á Laugaveginum og fer að tala við það. Ég hefði eins getað labbað út í strætóbiðskýli og viðrað hugmyndina við þá sem þar stóðu. Á liðnu hausti var ráðinn nýr Útvarpsstjóri og allir fengu á tilfinninguna að hann kæmi sem ferskur vindur inn í staðnaða stofnun. Ekki er sanngjarnt að skrifa eyðiveturinn á reikning hans, við erum sjálfsagt enn að súpa seyðið af dagskrárstjórn forvera hans. En ljóst er að Páll Magnússon á tröllvaxið verk fyrir höndum. Innanhússvandinn er ærinn og spurning hvort hann ætti ekki frekar að einbeita sér að honum en að standa í hnútukasti við kollega sína. Höfuðvandi Ríkisútvarpsins er sem fyrr hin andlausa yfirstjórn þess, þessar litlu bláu fjarstýringar sem flokkurinn hefur komið fyrir í lykilstöðum gegnum tíðina, menn sem hræðast hugmyndir.