Fastir pennar

Leyndó - um snuður og hleranir

Eftir árásina á tvíburaturnana í New York 2001 þjöppuðu afturhaldsöfl allra landa sér saman um eina stefnu: Að þrengja að borgaralegum réttindum þegna sinna, efla leyniþjónustustarfsemi og gefa þeim stofnunum auknar heimildir til að snuðra um borgarana, hlera símtöl þeirra, ráðast inn í tölvupósta, samkeyra gagnagrunna til að búa til gagnaskrár um lífsferil þeirra og lífsvenjur, verða sér úti um fingraför þeirra, flugfélög voru skylduð til að gefa upp matarvenjur farþega sinna o.s.frv. í það óendanlega.

Risastórt skref var stigið frammávið til eftirlitsþjóðfélagsins, sem fylgist með þegnunum frá vöggu til grafar, án vitundar þeirra og vilja. Stjórnvöld og fjölmiðlar kyntu undir hræðslu almennings og kvíða við risastórt samsæri sem teygði anga sína um allan heiminn, léti stjórnast af blindu hatri á lífsvenjum vestrænna þjóða og vildi lýðræðisskipulag okkar feigt. Svarið átti að liggja í öryggi í faðmi ríkisins, sem vekti yfir velferð þegnanna allan sólarhringinn með mikilli leynd og gæti, jafnvel í trássi við lög og rétt, útrýmt grunsamlegum mannverum. Það heitir fyrirbyggjandi aðgerðir.

Í Bandaríkjunum einum eru tugir leyniþjónustustofnana með milli 30 og 40 þúsund manns sínum snærum. Þær voru allar settar undir einn hatt og yfirmanni hins sameinaða leyndarliðs gefið sæti í ríkisstjórninni og gefur skýrslur reglulega beint til forsetans. Í orði kveðnu á þetta lið að greina aðsteðjandi hættur. Árangur alls þessa liðs er aumkunarverður. CIA hafði enga hugmynd um yfirvofandi hrun Sovétríkjanna og mat hagkerfi þeirra margfalt afkastameira en reyndist þegar það hafði hrunið undan eigin þunga. FBI hunsaði allar aðvaranir um yfirvofandi hryðjuverkaárás 2001 og skellti skolleyrum við upplýsingum um að nokkrir Arabar væru við þjálfun í amerískum flugskólum við að taka stórar farþegaþotur á loft, en teldu ónauðsynlegt að læra lendingar. Yfirmaður einnar þessara njósnastofnana kvaddi starfsmennina á sinn fund í aðdraganda íraksstríðsins og sagði þeim blákalt: Bush forseti ætlar í stríð. Það er okkar hlutverk að gefa honum átyllu til þess. Þetta var nú öll greiningin á þeim bæ!

Bandaríkjamenn höfðu áður fengið sig fullsadda á aðförum njósnastofnana. Í Víetnamstríðinu fóðruðu þær yfirmenn heraflans, forsetann og varnarmálaráðherrann, á röngum og villandi upplýsingum og ráðgjöf og áttu sinn þátt í óförum landsins í þeirri styrjöld. Þær voru þeim mun ötulli við að hundelta andófsmenn gegn stríðinu og forvígismenn í jafnréttisbaráttu svartra. Herbert Hoover taldi Martin Luther King óvin bandaríkjastjórnar númer eitt og kom fyrir hlerunartækjum í öllu nánasta umhverfi hans. Síðan lak hann upplýsingunum til fjölmiðla í því skyni að sverta mannorð hans og ímynd.

Þá var Bandaríkjamönnum loks nóg boðið. Árið 1971 voru sett lög, sem settu njósnastofnununum margvíslegar skorður. Í öllum tilfellum skyldi heimildum til hlerana aflað hjá dómstóli, sem að vísu skyldi leynilegur, en undir forsjá þingsins og eftirlitsnefnda þess með njósnastofnununum. Í vetur varð svo uppvíst að leynidómstóllinn hafði algerlega verið sniðgenginn þegar símtöl voru hleruð hjá hundruðum þúsunda bandarískra borgara. Samráðið við þingið fór fram með þeim hætti að sérvöldum þingmönnum úr eftirlitsnefndum þess með njósnastofnunum var gefin takmörkuð innsýn í umfang þessara hlerana, en bundnir trúnaði, máttu ekki einu sinni ræða málið við starfsbræður sína. Í bréfi til forsetans sagði John D. Rockefeller III, að þetta væri ekki samráð, heldur væri verið að gera lítinn hóp þingmanna að vitorðsmönnum framkvæmdavaldsins og múlbinda með því þingið allt.

Hér hafði það gerst undir yfirskini stríðsins gegn hryðjuverkum að framkvæmdavaldið hafði beygt undir sig dómsvaldið og löggjafarvaldið. Rifjuðust þá upp fyrir mörgum varnaðarorð James Madisons forseta og eins helsta höfundar stjórnarskrár Bandaríkjanna: Safnist framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald á fáar hendur, höfum við fengið yfir okkur ógnarstjórn. Og má bæta við orðum Benjamíns Franklíns: Þjóð sem tekur öryggi sitt fram yfir frelsið á hvorugt skilið.

Í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir því að þingið standi fast á rétti sínum gegn ásælni framkvæmdavaldsins. Hér á landi er engin slík hefð. Flestir þingmenn láta sig dreyma um að verða ráðherrar og hluti af framkvæmdavaldinu. Sauðtryggur stjórnarmeirihluti þingsins gerir eins og fyrir hann er lagt. Til skamms tíma hafa dómstólar verið undir sömu sök seldir. Þessvegna er það engin trygging fyrir persónufrelsi borgaranna að greiningardeild Björns Bjarnasonar leiti hlerunarheimilda hjá leynilegum dómstóli, sem hann skipar sjálfur, og hlíti eftirliti þingnefndar, sem bundin er trúnaði. Enginn sannur Íslendingur, sem ann frelsi sínu, ætti að láta sér detta í hug að fórna því frelsi á altari þess öryggis, sem Björn þykist ætla að búa okkur með því að bæta einni strípunni enn á úníform ríkislögreglustjórans.






×