Enginn veit hvað átt hefur 14. október 2006 00:01 Á mínum uppvaxtarárum var lifið í afar föstum skorðum. Silli og Valdi á horninu, prins póló og Lindubuff, kaupfélögin og kron, íhaldið eða kommarnir, Roy Rogers í Austurbæjarbíó og Tarsan í Gamla Bíó. Ingólfur í landbúnaðarráðuneytinu, Vilhjálmur Þ í útvarpinu. Hornsteinar þjóðfélagsins hreyfðust ekki. Ekki þumlung. Þjóðin var í skrúfustykki, greipt í aldarfar kalda stríðsins, embættismannavaldsins og flokkaveldisins. Þetta voru að því leyti yndislegir tímar að allir vissu hvar þeir stóðu og hvar hinir stóðu og ef ekki væri fyrir tíð verkföll og ennþá tíðari gengisfellingar hefði lífið verið litlaust og leiðinlegt. Það sem hélt hinsvegar lífinu í Íslendingum voru hatrammar og langvinnar deilur um veru varnarliðsins hér landi. Menn rifust og bitu í skjaldarrendur þegar kom að afstöðunni til hersins. Ég man vel þann sögufræga dag, 30 mars árið 1949, þegar Alþingi samþykkti inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið. Stóð þar sjálfur á Austurvelli og fylgdist með látunum. Fékk táragas í augun. Ég man líka eftir heitum umræðum okkar skólafélaganna um ágæti bandarísku útvarpsstöðvarinnar sem útvarpaði dægurlögum linnulaust. Það þótti jaðra við ættjarðarsvik að hlusta. Eða ættjarðarást að hlusta ekki. Allar götur í hálfa öld var þjóðin klofin í herðar niður í afstöðu sinni til hersins. Stefán Jónsson, útvarpsmaður og alþingismaður, harðvítugur andstæðingur hersins, sagði einu sinni við mig, niður á þingi: ef ekki væri fyrir helvítis herinn, gætum við starfað saman, íhaldið og allaballarnir. En það var ekki hægt og heiftin var mikil og ætli þessi ágreiningur hafi ekki átt stærsta þáttinn í því, hversu lengi það dróst að rífa efnahag, pólitík og hverdagsleikann upp úr því stríðsástandi sem hér ríkti allt of lengi. Ekki nóg með það að stjórnmálaflokkarnir gætu ekki talað saman, fjölskyldur skiptust í tvö horn, bræður bárust á banaspjótum, einstaklingar voru hundeltir og afmunstraðir og nú er verið að upplýsa að starfað hafi sérstök leyniþjónusta, einhverskonar persónunjósnarar á bak við tjöldin, sem dæmdi menn góða eða vonda, eftir því hvað þeir stóðu gagnvart hersetunni. Það var meira að segja stofnaður sérstakur stjórnmálaflokkur, Þjóðvarnarflokkur hét hann, til að standa vörð um þjóðina. Var til varnar varnarleysinu og fékk heilmikið fylgi. Svona var ástandið. Þetta voru álagafjötrar, skelfileg ánauð fyrir litla þjóð, sem hafði engin efni á slíkri sundrungu. Og svo efndu menn til Keflavíkurgöngu annarsvegar og Varins lands hinsvegar og menn voru gráir fyrir járnum og allur heimsfriðurinn og föðurlandsástin var undir því komin að segja hátt og skýrt, helst strax í vöggunni: herinn burt eða herinn kjurt. Og svo gerist það einn góðan veðurdag, nú í oktober, að herinn er farinn, bara sisona. Án þess að nokkur taki eftir neinum breytingum, án þess að lífið færist eitt einasta hænuskref til eða frá. Allt hljótt, allt með felldu og það er eins og þetta fjöregg hinnar íslensku armæðu síðustu fimmtíu ára, hafi aldrei verið til. Ekki skipt neinu máli. Verið fjas og hræðsluáróður, galdrabragð slóttugra stjórnmálamanna til að smala sínum kjósendum í rétta dilka. Það er tómahljóð í tunnunni. Tómarúm í pólitíkinni. Herinn er farinn og þjóðin er hér enn. Heil á húfi. Engin ragnarök, enginn dauður. Að minnsta kosti ekki vegna hersins. Og þjóðin sjálf er áfram hún sjálf, eftir því sem ég best veit. Ameríkanaseringin varð aldrei að veruleika, Sovétið lét aldrei á sér kræla, sjálfstæðið og lýðveldið enn á sínum stað. Ógnin úr austri og ógnin úr vestri skilaði sér aldrei. Mér, gömlum varðhundi í liði NATO, líður eins og þeim sem missa fjarskyldan ættingja. Hvert var þá mitt starf í sex hundruð sumur? Déskotans friðurinn i vesturheimi hefur eyðilagt fyrir mér ævistarfið og gert varnarliðið óþarft! Þetta er eins og að standa inn á vellinum, með pálmann í höndunum, af því að andstæðingarnir eru hættir í miðjum leik. Það er lítið varið í svoleiðis sigra. Nú er sem sagt varnarliðið farið án þess að við getum nokkurn tíma gengið úr skugga um það, hvort það hafi gert það gagn, sem efnt var til. Að verja landið. Eða verja hvern? Farið hefur fé betra. Lengi lifi breyttur heimur. En þetta var sögulegt, meðan það stóð. Og víst bjargaði blessaður herinn íslensku þjóðinni frá því að verða uppiskroppa með þrætubók þegar best lét. Það var þó alténd einhvers virði. Afþreying í tilbreytingarleysinu. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Á mínum uppvaxtarárum var lifið í afar föstum skorðum. Silli og Valdi á horninu, prins póló og Lindubuff, kaupfélögin og kron, íhaldið eða kommarnir, Roy Rogers í Austurbæjarbíó og Tarsan í Gamla Bíó. Ingólfur í landbúnaðarráðuneytinu, Vilhjálmur Þ í útvarpinu. Hornsteinar þjóðfélagsins hreyfðust ekki. Ekki þumlung. Þjóðin var í skrúfustykki, greipt í aldarfar kalda stríðsins, embættismannavaldsins og flokkaveldisins. Þetta voru að því leyti yndislegir tímar að allir vissu hvar þeir stóðu og hvar hinir stóðu og ef ekki væri fyrir tíð verkföll og ennþá tíðari gengisfellingar hefði lífið verið litlaust og leiðinlegt. Það sem hélt hinsvegar lífinu í Íslendingum voru hatrammar og langvinnar deilur um veru varnarliðsins hér landi. Menn rifust og bitu í skjaldarrendur þegar kom að afstöðunni til hersins. Ég man vel þann sögufræga dag, 30 mars árið 1949, þegar Alþingi samþykkti inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið. Stóð þar sjálfur á Austurvelli og fylgdist með látunum. Fékk táragas í augun. Ég man líka eftir heitum umræðum okkar skólafélaganna um ágæti bandarísku útvarpsstöðvarinnar sem útvarpaði dægurlögum linnulaust. Það þótti jaðra við ættjarðarsvik að hlusta. Eða ættjarðarást að hlusta ekki. Allar götur í hálfa öld var þjóðin klofin í herðar niður í afstöðu sinni til hersins. Stefán Jónsson, útvarpsmaður og alþingismaður, harðvítugur andstæðingur hersins, sagði einu sinni við mig, niður á þingi: ef ekki væri fyrir helvítis herinn, gætum við starfað saman, íhaldið og allaballarnir. En það var ekki hægt og heiftin var mikil og ætli þessi ágreiningur hafi ekki átt stærsta þáttinn í því, hversu lengi það dróst að rífa efnahag, pólitík og hverdagsleikann upp úr því stríðsástandi sem hér ríkti allt of lengi. Ekki nóg með það að stjórnmálaflokkarnir gætu ekki talað saman, fjölskyldur skiptust í tvö horn, bræður bárust á banaspjótum, einstaklingar voru hundeltir og afmunstraðir og nú er verið að upplýsa að starfað hafi sérstök leyniþjónusta, einhverskonar persónunjósnarar á bak við tjöldin, sem dæmdi menn góða eða vonda, eftir því hvað þeir stóðu gagnvart hersetunni. Það var meira að segja stofnaður sérstakur stjórnmálaflokkur, Þjóðvarnarflokkur hét hann, til að standa vörð um þjóðina. Var til varnar varnarleysinu og fékk heilmikið fylgi. Svona var ástandið. Þetta voru álagafjötrar, skelfileg ánauð fyrir litla þjóð, sem hafði engin efni á slíkri sundrungu. Og svo efndu menn til Keflavíkurgöngu annarsvegar og Varins lands hinsvegar og menn voru gráir fyrir járnum og allur heimsfriðurinn og föðurlandsástin var undir því komin að segja hátt og skýrt, helst strax í vöggunni: herinn burt eða herinn kjurt. Og svo gerist það einn góðan veðurdag, nú í oktober, að herinn er farinn, bara sisona. Án þess að nokkur taki eftir neinum breytingum, án þess að lífið færist eitt einasta hænuskref til eða frá. Allt hljótt, allt með felldu og það er eins og þetta fjöregg hinnar íslensku armæðu síðustu fimmtíu ára, hafi aldrei verið til. Ekki skipt neinu máli. Verið fjas og hræðsluáróður, galdrabragð slóttugra stjórnmálamanna til að smala sínum kjósendum í rétta dilka. Það er tómahljóð í tunnunni. Tómarúm í pólitíkinni. Herinn er farinn og þjóðin er hér enn. Heil á húfi. Engin ragnarök, enginn dauður. Að minnsta kosti ekki vegna hersins. Og þjóðin sjálf er áfram hún sjálf, eftir því sem ég best veit. Ameríkanaseringin varð aldrei að veruleika, Sovétið lét aldrei á sér kræla, sjálfstæðið og lýðveldið enn á sínum stað. Ógnin úr austri og ógnin úr vestri skilaði sér aldrei. Mér, gömlum varðhundi í liði NATO, líður eins og þeim sem missa fjarskyldan ættingja. Hvert var þá mitt starf í sex hundruð sumur? Déskotans friðurinn i vesturheimi hefur eyðilagt fyrir mér ævistarfið og gert varnarliðið óþarft! Þetta er eins og að standa inn á vellinum, með pálmann í höndunum, af því að andstæðingarnir eru hættir í miðjum leik. Það er lítið varið í svoleiðis sigra. Nú er sem sagt varnarliðið farið án þess að við getum nokkurn tíma gengið úr skugga um það, hvort það hafi gert það gagn, sem efnt var til. Að verja landið. Eða verja hvern? Farið hefur fé betra. Lengi lifi breyttur heimur. En þetta var sögulegt, meðan það stóð. Og víst bjargaði blessaður herinn íslensku þjóðinni frá því að verða uppiskroppa með þrætubók þegar best lét. Það var þó alténd einhvers virði. Afþreying í tilbreytingarleysinu. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun