Sport

Tap fyrir Svíum í lokaleiknum í Hollandi

jón arnór stefánsson 
Var stigahæstur gegn Svíum en Ísland hafnaði í þriðja sæti á æfingamóti í Hollandi.
jón arnór stefánsson Var stigahæstur gegn Svíum en Ísland hafnaði í þriðja sæti á æfingamóti í Hollandi.

Íslenska landsliðið hefur undanfarna daga tekið þátt í æfingamóti í Hollandi en því lauk um helgina. Lokaleikur liðsins var viðureign við frændur vora Svía og höfðu Svíarnir betur, 63-75. Ísland varð þar með í þriðja sæti á mótinu en liðið lagði Belgíu en tapaði fyrir Hollandi og Svíþjóð.

Leikurinn gegn Svíum tapaðist í öðrum leikhluta en þá voru okkar menn úti að aka og töpuðu leikhlutanum stórt, 9-23, en Ísland var yfir eftir fyrsta leikhluta, 19-14. Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari var duglegur að dreifa álaginu í leiknum en enginn leikmaður spilaði meira en 21 mínútu að því er fram kemur á heimasíðu Körfuknattleikssambandsins. Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 12 stig og Fannar Ólafsson kom næstur með 10 stig. Logi Gunnarsson skoraði 9 og Jakob Sigurðarson 8.

Það er skammt stórra högga á milli hjá landsliðinu því það hélt rakleitt til Dublin á Írlandi eftir mótið en það spilaði við Norðmenn í gær og leikur síðan við Íra í dag.

Leikurinn við Íra er síðasti leikurinn í undirbúningi liðsins fyrir Evrópukeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×