Sjálfstýring á miðunum? 1. september 2006 00:01 Nokkrir fremstu sérfræðingar heims í fiskihagfræði hittust á dögunum á málstefnu í Reykjavík til að ræða þróun einstaklingsbundinna réttinda til nýtingar fiskistofna. Í hópi þeirra er Ragnar Árnason prófessor, sem varpaði fram athyglisverðri hugmynd. Hvers vegna stjórnar íslenskur sjávarútvegur ekki sjálfur fiskveiðum á Íslandsmiðum? Með því á hann við, að samtök útgerðarmanna taki við úr höndum ríkisins rekstri rannsóknastofnana og ákvörðun leyfilegs hámarksafla í hverri fisktegund. Rökin eru einkum tvenn. Í fyrsta lagi er einkarekstur jafnan hagkvæmari en ríkisrekstur, eins og reynslan sýnir. Menn fara betur með eigið fé en annarra. Milton Friedman sagði eitt sinn við mig í gamni, en líka alvöru, að sér hefði virst, að þjónusta ríkisins væri jafnan tvöfalt dýrari en sú, sem einkaaðilar veittu. Hin rökin eru, að útgerðarmenn hafi augljósan hag af því að taka hagkvæmustu ákvarðanir um leyfilegan hámarksafla í hverri fisktegund. Þeir eru hver og einn handhafar réttinda til að veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum afla í hverri tegund, en hafa saman brýna hagsmuni af því, að ákvörðunum sé hagað á þann hátt, að verðmæti hvers fiskistofns verði sem mest til langs tíma litið. Í rauninni hafa þeir brýnni hagsmuni af þessu en stjórnmálamenn, sem hugsa ef til vill frekar um að tryggja sem flestum kjósendum vinnu. Mér líst vel á þá hugmynd, að í stað þess að greiða auðlindagjald taki sjávarútvegurinn að sér að stjórna fiskveiðum með öllum þeim kostnaði, sem af því hlýst. Það er aukaatriði, að þá mun sjávarútvegurinn ef til vill greiða meira en hann gerir nú. Gordon Munro, prófessor í Háskólanum í Bresku-Kólumbíu í Vancouver, ræddi um annað mikilvægt mál. Hvernig á að stjórna úthafsveiðum? Tekist hefur að ná samkomulagi um að stjórna veiðum í suma stofna, til dæmis á Norður-Atlantshafi, en ekki alla, meðal annars á Kyrrahafi. Ýmis úrræði eru hugsanleg. Eitt er, að fyrirtæki, sem nýta slíka stofna, annist um stjórn veiðanna. Það er þeim annmörkum háð, að þau hafa ekki rétt til að framfylgja ákvörðunum sínum með valdi. Annað er, að Sameinuðu þjóðirnar eða stofnanir þeirra taki að sér stjórnina. Það er líka hæpið. Þótt sumir sérfræðingar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm hafi fullan skilning á vandanum, eins og kom fram á málstefnunni, eru Sameinuðu þjóðirnar kunnar að öðru en röggsemi og skilvirkni. Mér líst sjálfum best á, að strandríki heims færi fiskveiðilögsögu sína eins langt út og kostur er á, en semji sín í milli um nýtingu annarra svæða. Gary Libecap, prófessor í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, ræddi um þann vanda, sem Íslendingar stóðu einmitt frammi fyrir, þegar kvótakerfinu var komið á: Flestir eru þeirrar skoðunar, að nýta beri takmarkaðar auðlindir með úthlutun einstaklingsbundinna og framseljanlegra nýtingarréttinda. En hvernig skal úthluta slíkum réttindum í upphafi? Libecap benti á, að sá kostur væri nær alltaf tekinn, þegar um væri að ræða auðlindir, sem þegar væru nýttar, að úthluta réttindunum til þeirra aðila, sem þær nýttu. Það kostaði minnsta árekstra, enda ættu þeir hagsmuna að gæta. Þegar um nýjar auðlindir væri að ræða, kæmu hins vegar uppboð eða aðrar úthlutunaraðferðir til greina. Libecap bætti við, að þau rök fyrir auðlindagjaldi, að það minnkaði ekki verðmætasköpun í sjávarútvegi, væru veikari en margir hagfræðingar hefðu haldið fram. Í fyrsta lagi væri erfitt að stjórna fiskveiðum, þegar útgerðarmenn fengju ekki sjálfir að hirða afraksturinn af auðlindinni, því að þá hefðu þeir ekki eins brýna hagsmuni og ella af skynsamlegri stjórn þeirra. Í öðru lagi hefðu þeir þá ekki hagsmuni af því að endurbæta auðlindina. Síðar meir mætti til dæmis hugsa sér að girða af hafsvæði, rækta eða kynbæta fiskistofna, dreifa einhvers konar áburði á fiskimið og svo framvegis, en útgerðarmenn legðu varla í kostnaðarsama leit að slíkum nýjum aðferðum, fengju þeir ekki að hirða afraksturinn sjálfir. Áheyrendur á málstefnunni hlutu að sannfærast um það, að Íslendingar standa framarlega í stjórn fiskveiða. Þótt kvótakerfið sé ekki fullkomið, er það miklu skárra en aðrir kostir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hannes Hólmsteinn Gissurarson Skoðanir Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Vaxtahækkanir og brotið traust - hver ber ábyrgð? Sandra B. Franks Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór
Nokkrir fremstu sérfræðingar heims í fiskihagfræði hittust á dögunum á málstefnu í Reykjavík til að ræða þróun einstaklingsbundinna réttinda til nýtingar fiskistofna. Í hópi þeirra er Ragnar Árnason prófessor, sem varpaði fram athyglisverðri hugmynd. Hvers vegna stjórnar íslenskur sjávarútvegur ekki sjálfur fiskveiðum á Íslandsmiðum? Með því á hann við, að samtök útgerðarmanna taki við úr höndum ríkisins rekstri rannsóknastofnana og ákvörðun leyfilegs hámarksafla í hverri fisktegund. Rökin eru einkum tvenn. Í fyrsta lagi er einkarekstur jafnan hagkvæmari en ríkisrekstur, eins og reynslan sýnir. Menn fara betur með eigið fé en annarra. Milton Friedman sagði eitt sinn við mig í gamni, en líka alvöru, að sér hefði virst, að þjónusta ríkisins væri jafnan tvöfalt dýrari en sú, sem einkaaðilar veittu. Hin rökin eru, að útgerðarmenn hafi augljósan hag af því að taka hagkvæmustu ákvarðanir um leyfilegan hámarksafla í hverri fisktegund. Þeir eru hver og einn handhafar réttinda til að veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum afla í hverri tegund, en hafa saman brýna hagsmuni af því, að ákvörðunum sé hagað á þann hátt, að verðmæti hvers fiskistofns verði sem mest til langs tíma litið. Í rauninni hafa þeir brýnni hagsmuni af þessu en stjórnmálamenn, sem hugsa ef til vill frekar um að tryggja sem flestum kjósendum vinnu. Mér líst vel á þá hugmynd, að í stað þess að greiða auðlindagjald taki sjávarútvegurinn að sér að stjórna fiskveiðum með öllum þeim kostnaði, sem af því hlýst. Það er aukaatriði, að þá mun sjávarútvegurinn ef til vill greiða meira en hann gerir nú. Gordon Munro, prófessor í Háskólanum í Bresku-Kólumbíu í Vancouver, ræddi um annað mikilvægt mál. Hvernig á að stjórna úthafsveiðum? Tekist hefur að ná samkomulagi um að stjórna veiðum í suma stofna, til dæmis á Norður-Atlantshafi, en ekki alla, meðal annars á Kyrrahafi. Ýmis úrræði eru hugsanleg. Eitt er, að fyrirtæki, sem nýta slíka stofna, annist um stjórn veiðanna. Það er þeim annmörkum háð, að þau hafa ekki rétt til að framfylgja ákvörðunum sínum með valdi. Annað er, að Sameinuðu þjóðirnar eða stofnanir þeirra taki að sér stjórnina. Það er líka hæpið. Þótt sumir sérfræðingar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Róm hafi fullan skilning á vandanum, eins og kom fram á málstefnunni, eru Sameinuðu þjóðirnar kunnar að öðru en röggsemi og skilvirkni. Mér líst sjálfum best á, að strandríki heims færi fiskveiðilögsögu sína eins langt út og kostur er á, en semji sín í milli um nýtingu annarra svæða. Gary Libecap, prófessor í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, ræddi um þann vanda, sem Íslendingar stóðu einmitt frammi fyrir, þegar kvótakerfinu var komið á: Flestir eru þeirrar skoðunar, að nýta beri takmarkaðar auðlindir með úthlutun einstaklingsbundinna og framseljanlegra nýtingarréttinda. En hvernig skal úthluta slíkum réttindum í upphafi? Libecap benti á, að sá kostur væri nær alltaf tekinn, þegar um væri að ræða auðlindir, sem þegar væru nýttar, að úthluta réttindunum til þeirra aðila, sem þær nýttu. Það kostaði minnsta árekstra, enda ættu þeir hagsmuna að gæta. Þegar um nýjar auðlindir væri að ræða, kæmu hins vegar uppboð eða aðrar úthlutunaraðferðir til greina. Libecap bætti við, að þau rök fyrir auðlindagjaldi, að það minnkaði ekki verðmætasköpun í sjávarútvegi, væru veikari en margir hagfræðingar hefðu haldið fram. Í fyrsta lagi væri erfitt að stjórna fiskveiðum, þegar útgerðarmenn fengju ekki sjálfir að hirða afraksturinn af auðlindinni, því að þá hefðu þeir ekki eins brýna hagsmuni og ella af skynsamlegri stjórn þeirra. Í öðru lagi hefðu þeir þá ekki hagsmuni af því að endurbæta auðlindina. Síðar meir mætti til dæmis hugsa sér að girða af hafsvæði, rækta eða kynbæta fiskistofna, dreifa einhvers konar áburði á fiskimið og svo framvegis, en útgerðarmenn legðu varla í kostnaðarsama leit að slíkum nýjum aðferðum, fengju þeir ekki að hirða afraksturinn sjálfir. Áheyrendur á málstefnunni hlutu að sannfærast um það, að Íslendingar standa framarlega í stjórn fiskveiða. Þótt kvótakerfið sé ekki fullkomið, er það miklu skárra en aðrir kostir.