Viðskipti innlent

Gengi FL Group hækkaði um 11,4 prósent í gær.

Hlutabréf í FL Group og Landsbankanum hafa hækkað mest allra hlutabréfa frá því í byrjun ágúst, um það leyti er innlendur hlutabréfamarkaður náði lægsta gildi á árinu. Hafa bréf FL hækkað um tæpan þriðjung en bréf Landsbankans hækkað um 24 prósent á þeim tíma.

FL Group hækkaði um tæp tólf prósent í gær í yfir 2,2 milljarða veltu og endaði gengið í 20,5 krónum á hlut. Þessi gríðarlega hækkun jók markaðsvirði félagsins um tæpa sautján milljarða króna.

Bréf allra Úrvalsvísitölufélaga hefur hækkað á tímabilinu frá byrjun ágúst nema í Dagsbrún sem hefur lækkað um sjö prósent. Gengi í KB banka og Glitni hefur hækkað um tæp átján prósent og um sextán prósent í Alfesca og Bakkavör.

Sjálf Úrvalsvísitalan hefur stigið upp um fimmtán prósent frá því í byrjun ágúst en það jafngildir yfir átta hundruð stiga hækkun. Stóð hún við lokun markaða á föstudaginn í 6.095 stigum.

Ýmislegt kann að skýra þessa miklu stemningu á markaði. Bankarnir skiluðu mjög góðum uppgjörum á fyrri hluta ársins og þá eru þeir komnir langt á veg með endurfjármögnun á lánum sem koma til greiðslu árið 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×