Nú eru einungis tvær sýningar eftir á hinni karnivalísku leiksýningu Þjóðarsálinni. Þær verða fimmtudaginn 23. nóvember og föstudaginn 24. nóvember kl. 20.00 í Reiðhöll Gusts í Kópavogi, nánar tiltekið í Álalind 3.
Sýning þessi hefur vakið mjög sterk viðbrögð áhorfenda sem og gagnrýnenda. Fimm leikarar fara með stór hlutverk, þau Árni Pétur Guðjónsson, Árni Salomonsson, Harpa Arnardóttir, Jóhann G. Jóhannson og Sara Dögg Ásgeirsdóttir.
En auk þeirra koma fram í sýningunni fimm hestar og knapar, tónlistarmaðurinn Pálmi Sigurhjartarson sem semur alla tónlist sýningarinnar, kór hestakvenna, fimleikafólk og gestaleikarar. Sýningin einkennist af glensi og krafti en er um leið snörp þjóðafélagsádeila og lætur engan ósnortinn.
Þetta er umsvifamesta leikhúsuppsetning haustsins, og leiksviðið er það stærsta á landinu.