Fastir pennar

Opinber óróleiki

Ráðherrar í ríkisstjórninni verða að gera sér grein fyrir því að lítið þarf til að raska jafnvægi íslenska hagkerfisins meira en orðið er. Seðlabankinn hefur átt í erfiðleikum með að hemja hagkerfið vegna stóriðjuframkvæmda og hækkandi fasteignaverðs. Horfur eru á að það sé að takast, miðað við verðbólgutölur sem birtust í fyrradag. Spá margir að verðbólgan verði komin í viðunandi horf á næsta ári. Það er samt ekkert sjálfgefið og margir óvissuþættir í öllum útreikningum.

Því hefur margoft verið haldið fram að stjórnmálamenn láti Seðlabankanum nánast einum eftir að koma böndum á sífellt hækkandi verðlag. Virðist vera nauðsynlegt að ítreka það.

Síðast í fyrradag hélt Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra því fram á Alþingi að hækka þyrfti hlutfall hámarkslána Íbúðalánasjóðs aftur í 90 prósent. Einnig að taka þyrfti mið af öðru en brunabótamati við ákvörðun láns - þá líklega markaðsvirði.

Nú nema hámarkslán Íbúðalánasjóðs 80 prósentum af brunabótamati, sem er oftast nokkuð lægra en markaðsverð fasteigna. Var hlutfallið fært niður í júlí 2006 og var hluti af aðgerðum ríkis­stjórnarinnar til að draga úr eftirspurn í hagkerfinu.

Í fyrsta lagi er stórfurðulegt að auka umsvif Íbúðalánasjóðs, sem nýtur ríkisábyrgðar, í samkeppni við bankana áður en sátt hefur náðst um framtíðarrekstrarform hans. Í öðru lagi eru breytingarnar til þess fallnar að auka eftirspurn eftir fasteignum og kynda undir hagkerfinu meira en ella. Það ógnar stöðugleikanum, sem ráðherrann vísaði til, og kemur því í bakið á fólki sem hann telur sig vera að vinna fyrir.

Magnús ber ekki einn mikla ábyrgð. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í sinni fyrstu stefnuræðu á Alþingi að óhætt væri að fella úr gildi ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um aukið aðhald í opinberum framkvæmdum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri gagnrýndi þetta í viðtali við Viðskiptablaðið á miðvikudaginn. ¿Það má segja að bankinn hafi verið svolítið undrandi á því að ákvörðun um að draga úr framkvæmdum skyldi hafa verið svo fljótt kölluð til baka eins og raunin varð. Þær yfirlýsingar stóðu ekki í nema tvo eða þrjá mánuði,¿ sagði hann.

Efnahagsástandið er nefnilega enn viðkvæmt. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur greiningardeildar KB banka, sagði á fundi um efnahagsmál í vikunni að raunveruleg hætta væri á að íslenskt efnahagslíf væri á leið inn í nýja verðbólgu- og óstöðugleikatíma líkt og þekktist milli áranna 1970 og 1990. Slíkt ástand yrði aðeins kveðið niður með langvinnu og hörðu peningalegu aðhaldi.

Aukin útgjöld Íbúðalánasjóðs, auknar opinberar framkvæmdir og lækkun skatta á matvæli eru allt aðgerðir sem auka ekki aðhaldið. Og Alþingi hefur aðeins starfað í tvær vikur! Skattalækkanir eru mikilvægar til að minnka tekjuflæði í ríkissjóðs en um leið þýðir ekki að auka útgjöld hins opinbera. Þessu til viðbótar mæla fjáraukalög fyrir um 14 milljarða útgjaldaaukningu og allir vita hve mótstöðulitlir stjórnmálamenn eru gagnvart kröfum þrýstihópa á kosningavetri. Höfum í huga að fjárlagafrumvarpið er óafgreitt.

Það er skammgóður vermir fyrir kjósendur ef stjórnmálamenn slaka á aðhaldinu við þessar aðstæður. Örvænting ríkisstjórnarinnar má ekki leiða íslenskt efnahagslíf inn í nýja verðbólgu- og óstöðugleikatíma.






×