Viðskipti innlent

Icelandair skilaði fjórum milljörðum: Stefnt að skráningu félagsins sjötta desember.

Fjögurra milljarða hagnaður fyrir skatta Tekjur aukast um 23 prósent á milli ára. Fréttablaðið/teitur
Fjögurra milljarða hagnaður fyrir skatta Tekjur aukast um 23 prósent á milli ára. Fréttablaðið/teitur MYND/Teitur

Hagnaður Icelandair Group, sem stefnt verður á að skrá í Kauphöll Íslands hinn 6. desember, nam rúmum þremur milljörðum króna fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi og tæpum fjórum milljörðum króna fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri félagsins, segir að þetta sé einn besti árangur í sögu þess. Afkoma stærstu einingarinnar, millilandaflugsins, hefur verið góð þrátt fyrir tveggja milljarða hækkun á eldsneytisverði á árinu.

Rekstrartekjur félagsins voru 43,6 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðunum og hækkuðu um 8,2 milljarða króna á milli ára eða sem svarar 23 prósenta aukningu.

Rekstrarhagnaður eftir afskriftir (EBIT) nam 3,8 milljörðum króna og hækkaði um einn milljarð á milli ára.

Eignir Icelandair Group stóðu í 67,9 milljörðum króna í lok september og höfðu hækkað um 5,6 prósent frá áramótum. Eigið fé var 23,4 milljarðar og hafði hækkað um rúman fimmtung frá ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar nemur því 34,4 prósentum.

Icelandair var í eigu FL Group á fyrstu níu mánuðum ársins en var síðar selt til hóps fjárfesta og Glitnis fyrir alls 43 milljarða króna. Glitnir mun selja bréf áfram, meðal annars til almennra fjárfesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×