Bíó og sjónvarp

Þakka fyrir að vera á lífi

Er ánægður að hafa komið leikurunum í nýrri mynd sinni heilum á húfi vestur.
Er ánægður að hafa komið leikurunum í nýrri mynd sinni heilum á húfi vestur.

Tökur eru nú hafnar á Duggholufólkinu fyrir vestan. Ari Kristinsson er leikstjóri myndarinnar sem hann segir vera jólamynd í ítrasta skilningi.

„Þetta er barna- og fjölskyldumynd sem við ætlum okkur að frumsýna um næstu jól.“

Segir Ari Kristinsson kvikmyndagerðarmaður en nú standa yfir tökur á Vestfjörðum á kvikmyndinni Duggholufólkið sem er nýjasta verk Ara. „Þetta verður jólamynd í ítrasta skilningi þess þar sem við erum að nýta okkur bæði jólastemninguna og náttúrufegurðina í vetrinum hérna fyrir vestan. Það hæfir sögu myndarinnar ákaflega vel þar sem þetta er fjölskyldu- og draugasaga og umhverfið hefur þennan kynngimagnaða blæ sem fellur fullkomlega að því sem við erum að gera.“

Myndin hefur verið í tökum fyrir sunnan í eina 25 daga og hafa tökur aðallega farið fram í Latabæjarstúdíóinu og að einhverju leyti í Hafnarfirði. Nú er hins vegar komið að útitökum fyrir vestan og þegar náðist í Ara var hann í óða önn við að hlúa að leikurum og starfsfólki sem voru rétt nýlent á Ísafjarðarflugvelli eftir erfitt flug.

„Það var víst all svakaleg ókyrrð í fluginu og fólkið er svona rétt að byrja að jafna sig og þá einkum yngri kynslóðin. Fólk þarf að fá að koma við jörðina oftar en tvisvar og þakka fyrir að vera á lífi áður en það jafnar sig á þessu.“ segir Ari og er greinilega ánægður með að vera kominn með allt sitt fólk vestur heilt á húfi.

Í aðalhlutverkum í Duggholufólkinu eru krakkarnir Þórdís Árnadóttir, Bergþór Þorvaldsson og Árni Beinteinn Árnason auk reyndari leikaranna Brynhildar Guðjónsdóttur, Margrétar Vilhjálmsdóttur og Erlends Eiríkssonar.

„Við verðum nokkuð víða í tökum hér fyrir vestan og förum meðal annars í hlíðar Bolafjalls svo þetta verður örugglega heilmikið ævintýri. Ég er búinn að vera fyrir vestan í nokkra daga við undirbúning og er orðinn spenntur að byrja að taka, en ég er hræddur um að fólkið þurfi að fá að jafna sig á fluginu áður en það fer að hlakka til vinnunnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×