Menning

Flugeldasýning frá Guðbergi

Óþægilegt snilldarverk frá Guðbergi – sem virðist bara batna með árunum. Dregin er upp nöturleg og framúrskarandi fyndin mynd af kostulegum persónum og íslenskri menningu. Stjörnur: 5
Óþægilegt snilldarverk frá Guðbergi – sem virðist bara batna með árunum. Dregin er upp nöturleg og framúrskarandi fyndin mynd af kostulegum persónum og íslenskri menningu. Stjörnur: 5

Árið 2006 ætlar að verða bókmenntaárið mikla. Það er sé til þess litið að útdeilendur Gullmiðans gátu fundið fimm ný skáldverk sem þeir vilja meina að sé betri en 1 ½ bók – Hryllileg saga eftir Guðberg Bergsson. Því hér er um flugeldasýningu að ræða. Guðbergur verður bara betri með árunum.

Því er haldið fram á bókarkápu að þetta sé metnaðarfyllsta verk Guðbergs, hann ætli sér að fanga íslenska menningu og benda á helstu áhrifavalda hennar. Menning er afstætt fyrirbæri en fjandakornið ef Guðbergur fer ekki langleiðina með að finna ræturnar.

Sem liggja samkvæmt þessu í höndum furðulegra, oft ókræsilegra og sérkennilegra kerlinga sem öllu ráða. Karlarnir eru atkvæðalitlir aumingjar eins og sést meðal annars í Lolla svolitla. Hann ber svo mikla einstæða umhyggju fyrir Purru sinni að talað var um í erfidrykkjum „hvað hjónabandið væri farsælt og til svo mikillar fyrirmyndar að ef öflug sjálfstæðiskona kæmist á þing ætti hún að leggja fram frumvarp um að menn eins og Lolla ætti að búta sundur og skipta á milli kvenna.“ (Bls. 123)

Danskir bakarar ættfeður
Guðbergur Bergsson rithöfundur

Hinn íslenska veruleika, og persónur sem hann búa, speglar Guðbergur í konum sem koma að utan: Bakarafrúnni Fiolu frá Danmörku og Sophie Knorr frá Þýskalandi. Sem eru jafnframt miklir áhrifavaldar í Reykvísku samfélagi á framanverðri síðustu öld, til dæmis í kven- og líknarfélaginu Krananum.

En starfsemi Kranans felst einkum og sérílagi í kaffisamsætum þar sem lagt er á ráðin. Jóhanna, sú sem á og rekur sængurverabúðina Koddakrútt lærir að raunveruleg góðverk geta reynst öfugsnúin.

Hinar erlendu frúr njóta virðingar innfæddra en hins vegar getur reynst snúið að heimfæra „dygðir“ þeirra á genetíska eiginleika því sjálfir eru innfæddir ekki hreinræktuð tegund eins og furðufuglinn Ólafur Rósenkrans veit:

„Því lengur sem hann hugsaði fannst honum líklegt að hann ætti ætt að rekja til dansks bakara og væri þar af leiðandi ekki kominn af Noregskonungum en honum lék hugur á að vita hvort ættfaðir hans hefði verið Vagn Fiole sem sletti í ofn allra kerlinga á meðan karlarnir voru á sjónum eða í kaupavinnu og komu ekki heim nema til þess að afhenda konunni kaupið og sætta sig við orðinn hlut.“

(Blaðsíða 112)

Samúð beittari en illgirni

Söguheimur Guðbergs er án hliðstæðu og þannig kostar nokkurt átak að komast í takt og dúr við hann. Allskyns hljómar slegnir, dimm, mæ sjö og skroll, en leggi lesandinn það á sig – fellst á þær forsendur sem sagan gefur sér sjálf – er honum launað svo um munar. Fyrst er til að taka að Guðbergur er ekki þægilegur við persónur sínar.

Sem eru vitanlega tákngervingar þeirra einstaklinga sem mynda þessa þjóð. Með nöpru háði varpar Guðbergur ljósi á hnýsni þeirra, smáborgarahátt, heimsku og búksorgir. Menn geta látið fara í taugarnar á sér hvernig Guð þessa heims, sá sem stjórnar hinum alvitra sögumanni, afhjúpar þetta innantóma hyski. Okkur.

Hann hlýtur þá að telja sig vel yfir það hafinn. En þetta hefur Guðbergur alltaf gert. Og fyrst hann nennir árum saman að skrifa um þetta fólk hlýtur það að benda til væntumþykju af einhverju tagi. Skrif hans eru sem sagt ekki laus við þá samúð sem getur reynst beittari en öll illgirni. En það eitt dugar hvergi til. Fyrst og fremst er það vel heppnaður absúrd húmorinn sem skilur á milli snilldarinnar og þess sem annars gæti flokkast sem sérkennilegur beturvitaháttur önugs álitsgjafa.

Þvag úr fúllyndum hjónum

Af nægu er að taka þegar húmorinn í Hryllilegri sögu er annars vegar. Til að mynda er skopleg hin mikla trú Sophie, sem á við erfitt exem að stríða, á vökva þann sem vatnabúskapur líkamans framleiðir. En þvag úr fúllyndum hjónum er áhrifaríkast. Til dæmist til að „... eyða ertingu sem sækir í endaþarminn en öðru fremur í skoruna á milli þjóhnappanna. Auk þess safnast þar sveppagróður sem myndar sár.

Sophie Knorr vitnaði oft í rit Hippolítusar frá Iria Flavia á Spáni, orðum sínum til sönnunar. Á hverjum morgni sagðist hún fylgja ráðum hans, spræna þeirri fyrstu og sterku á greiparnar og í lófann og nudda kraftinum um sveppafenið en lét Guggu og Möggu skvetta hinu yfir grösin í kartöflugarðinum á sumrin en á snjóinn eða ísinn á veturna, ekki bara til þess að lífga upp á hvíta litinn heldur svo hún fengi fallega gular kartöflur og gulrætur upp úr honum á haustin.“

(Blaðsíða 65)

Ósínkur á speki sína

Myndin í speglinum sem Guðbergur bregður upp með þessari greiningu sinni á okkur og íslenskri menningu er nöturleg. Persónurnar eru lítið annað en skopmyndir sem reyna að hreinsa sig af sjálfum sér með ýmsum ráðum – til að sýnast alvarlegar – svo enn sé vitnað í bókina. Í henni er að finna ótrúlega mörg gullkorn, speki sem getur staðið sjálf og vísar út fyrir sig: „Sagan sýnir að meira mark er takandi á þvaðri en því sem kallast sannleikur.“ (bls. 76)

Hryllileg saga er ekki bók sem lesendur spóla sig í gegn um í einum rykk. Enda af hverju ætti það að teljast eftirsóknarvert? Og stundum verður gangan ströng, að feta sig í gegnum á stundum tyrfinn textann. En nauðsynlegt er að himinn myrkv-ist áður en næsta bomba er send á loft upp. Alltaf er lesendum launað erfiði sitt með snilld úr ranni Guðbergs – sem sannarlega er ekki allra. Og fær að gjalda þess eins og kannski Gullmiðinn sýnir þó fáir standi honum á sporði. Má í ljósi þess greina sársauka höfundar í þessum orðum? Sem finna má á blaðsíðu 118: „Útrekna menn langar ekki að sýna sínum líkum samstöðu heldur hafa þeir áhuga á öðrum sem útskúfa þeim og þrá að komast í félagsskap þeirra.“

Jakob Bjarnar Grétarsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×