Bíó og sjónvarp

Ekki enn smitast af fálkaveikinni

Mynd tekin í sikhahofi í New Jersey 2006. Á myndinni eru frá vinstri: Hari Har Singh, fálkari og fyrrverandi fálkaþjálfari fyrir Íranskeisara og aðra pólitíska leiðtoga Mið-Austurlanda, Ginghas, hvítur Grænlandsfálki, dr. David Ellis, fuglafræðingur og ránfuglasérfræðingur, Örn Marinó Arnarson, leikstjóri og framleiðandi, og dr. Hamram Singh, viðskiptajöfur og rithöfundur.
Mynd tekin í sikhahofi í New Jersey 2006. Á myndinni eru frá vinstri: Hari Har Singh, fálkari og fyrrverandi fálkaþjálfari fyrir Íranskeisara og aðra pólitíska leiðtoga Mið-Austurlanda, Ginghas, hvítur Grænlandsfálki, dr. David Ellis, fuglafræðingur og ránfuglasérfræðingur, Örn Marinó Arnarson, leikstjóri og framleiðandi, og dr. Hamram Singh, viðskiptajöfur og rithöfundur.

Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson vinna þessa dagana að heimildarmynd um samskipti manns og fálka í gegnum aldirnar.

„Í meira en fjögur þúsund ár hefur maðurinn látið heillast af fálkum.

Við það að kynnast þessum tignarlega og einstaka fugli verður maðurinn altekinn, fær fálkaveiki. Fálkaveiðimenn skilja við konur sínar til þess að geta verið með fálkanum, arabar borga milljónir á milljónir ofan fyrir þessa fugla og menn láta hreinlega ekkert stöðva sig," segir Þorkell Harðarson kvikmyndagerðarmaður.

Þorkell og kollegi hans, Örn Marinó Arnarson, hjá kvikmyndagerðinni Markell vinna um þessar mundir að heimildarmynd um samskipti manns og fálka í gegnum aldirnar.

„Mannkynssagan er í raun nátengd sögu þessa sambands manns og fálka. Danir sóttu hingað allt að 210 fugla á ári á átjándu öld og notuðu sem mútur við hirðir Evrópu og þó einkum N-Afríku. Þetta opnaði þeim siglingaleiðir úti fyrir ströndum N-Afríku einum Evrópumanna og stuðlaði að því að danski kaupskipaflotinn varð jafnstór þeim breska sem endaði með því að sá síðarnefndi stormaði Kaupmannahöfn árið 1800."

Þeir Þorkell og Örn Marinó hafa verið að ferðast og viða að sér myndefni um þróun og stöðu þessa merkilega sambands. „Við höfum þegar farið um Norður-Evrópu, Persaflóa og Norður-Ameríku til þess að mynda en eigum enn eftir Asíu og Suður-Evrópu. Við höfum verið að tala við fálkara (það eru þeir sem fljúga þeim), náttúruverndarsinna og prófessora, ræktendur og alls konar fólk sem hefur hreinlega orðið fyrir áhrifum af því að hitta fálka.

Við erum búnir að hitta mikið af áhugaverðu og sérstöku fólki sem áhorfendur eiga svo eftir að fá að kynnast eftir um það bil ár þegar myndin verður frumsýnd. En hér heima þekkja flestir aðeins þá sögu sem snýr að fálkaþjófunum sem voru að stela íslenskum fálkum fyrir um 20 til 30 árum. Það varð svo verðfall á fálkunum eftir að fannst aðferð til þess að rækta fugla í haldi. Engu að síður eru enn dæmi um ótrúlegar tölur, eins og þegar nýtt litaafbrigði var selt fyrir 15 árum á 750.000 dollara og dýrasta týpan af Benz í kaupbæti."

Þeir Þorkell og Örn Marinó hafa auðvitað verið í kringum fálka við gerð myndarinnar og hafa vissulega orðið fyrir miklum áhrifum af viðfangsefni myndarinnar. „Verkefnið er í senn stórkostlegt og krefjandi en við höfum þó ekki smitast af fálkaveikinni. Okkar ástríða er matur og heimspeki Markels er því einfaldlega: Ef þú getur ekki eldað þá geturðu ekki skapað."

Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson kvikmyndagerðarmenn vinna nú að mynd um samskipti manns og fálka í gegnum árþúsundin.


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.