Menning og markaður 5. apríl 2006 00:01 Fjölmiðlafrásagnir af reiptogi Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um forláta Guarneri fiðlu gætu í skjótri svipan umfram allt annað virst spaugilegar. Sama má segja um kröfu hljómsveitarinnar á óuppgerðum skuldum útvarpsins sem framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar segir að nemi sexhundruð og fimmtíu milljónum króna. Lausnin ætti ef til vill að liggja í bókhaldsreglum ríkissjóðs. En er málið í reynd þannig vaxið að það sé annaðhvort spaugilegt eða svo einfalt að um lausn dugi að vísa til bókhaldsreglna? Að öllu athuguðu sýnast þessi bókhaldsmál þvert á móti geta verið vísbendingar um þá menningarstefnu er býr að baki þeim áformum um breytingar á rekstri Ríkisútvarpsins sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Kunnara er en frá þurfi að segja að ríkisrekstur á útvarpi er ekki sjálfgefinn. En um það hefur þrátt fyrir allt verið allgóð sátt að starfrækja útvarp á vegum ríkisins til þess fyrst og fremst að sýna menningarlegan metnað umfram það sem markaðurinn sýnist vera viljugur til eða fær um. Það eru fullgild rök. Að vísu er það svo að hvarvetna hafa ríkisútvarpsstöðvar staðið frammi fyrir augljósri þverstæðu. Það er spurningin um það hvort unnt er að nota skattpeninga borgaranna til þess eins að lyfta menningunni einni til hásætis og hunsa með því óskir fjöldans um afþreyingu. Augljóst er að ríkisútvarp getur ekki með öllu sniðgengið afþreyingarefni þó að markaðurinn geti mjög auðveldlega sinnt því viðfangsefni. En það breytir ekki hinu að eini sjálfstæði tilgangur ríkisútvarps er menningarlegt hlutverk þess. Með hæfilegri einföldun má segja að Ríkisútvarpið hafi sinnt menningarlegum tilgangi sínum með rekstri Rásar eitt. En að uppistöðu til hefur rekstur Rásar tvö og sjónvarpsins verið markaðsvara sem deila má um hvort er betri eða verri en einkarekin fyrirtæki á þessu sviði hafa boðið upp á. Það þarf því að bæta Ríkisútvarpið sem menningarstofnun en ekki afþreyingarstofnun eigi að viðhalda réttlætingu þess. Algengt er að metnaðarfullar ríkisútvarpsstöðvar reki sinfóníuhljómsveitir. Rökin sýnast liggja í augum uppi. Hér er um að ræða tónlist sem líklegast er að ríkisrekið útvarp geti skilað í ýmsu formi áfram úr tónlistarsölunum út til fólksins. Það hefur verið lítt skiljanlegt hversu lítið Ríkisútvarpið hefur nýtt sér þessi tengsl til þess að efla dagskrá sína, ekki síst sjónvarpsins. Hitt er óskiljanlegt hvers vegna byrja á nýjan tíma í rekstri þess með því að rjúfa þessi tengsl. Öll rök sýnast falla að hinu að auðga þau að innihaldi. Staðreynd er að ríkisstjórnin ætlar ekki að svara til um eiginfjárstöðu Ríkisútvarpsins og fjárhagsstöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrr en eftir að áformaðar skipulagsbreytingar hafa verið festar í lög. Til þess hefur hún allan rétt. Það kann að vera stjórnunaraðferð. Stjórnunaraðferð af þessu tagi getur hins vegar einvörðungu þýtt tvennt: Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform að reka hér menningarútvarp og sjónvarp með nokkurri reisn og af þeim metnaði sem einn getur yfir höfuð verið réttlæting fyrir rekstrinum. Fiðlumálið hefur því vakið upp spurningar sem þarf að svara áður en unnt er að taka ákvarðanir á málefnalegum grundvelli um framtíðarskipulag Ríkisútvarpsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Fjölmiðlafrásagnir af reiptogi Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um forláta Guarneri fiðlu gætu í skjótri svipan umfram allt annað virst spaugilegar. Sama má segja um kröfu hljómsveitarinnar á óuppgerðum skuldum útvarpsins sem framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar segir að nemi sexhundruð og fimmtíu milljónum króna. Lausnin ætti ef til vill að liggja í bókhaldsreglum ríkissjóðs. En er málið í reynd þannig vaxið að það sé annaðhvort spaugilegt eða svo einfalt að um lausn dugi að vísa til bókhaldsreglna? Að öllu athuguðu sýnast þessi bókhaldsmál þvert á móti geta verið vísbendingar um þá menningarstefnu er býr að baki þeim áformum um breytingar á rekstri Ríkisútvarpsins sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Kunnara er en frá þurfi að segja að ríkisrekstur á útvarpi er ekki sjálfgefinn. En um það hefur þrátt fyrir allt verið allgóð sátt að starfrækja útvarp á vegum ríkisins til þess fyrst og fremst að sýna menningarlegan metnað umfram það sem markaðurinn sýnist vera viljugur til eða fær um. Það eru fullgild rök. Að vísu er það svo að hvarvetna hafa ríkisútvarpsstöðvar staðið frammi fyrir augljósri þverstæðu. Það er spurningin um það hvort unnt er að nota skattpeninga borgaranna til þess eins að lyfta menningunni einni til hásætis og hunsa með því óskir fjöldans um afþreyingu. Augljóst er að ríkisútvarp getur ekki með öllu sniðgengið afþreyingarefni þó að markaðurinn geti mjög auðveldlega sinnt því viðfangsefni. En það breytir ekki hinu að eini sjálfstæði tilgangur ríkisútvarps er menningarlegt hlutverk þess. Með hæfilegri einföldun má segja að Ríkisútvarpið hafi sinnt menningarlegum tilgangi sínum með rekstri Rásar eitt. En að uppistöðu til hefur rekstur Rásar tvö og sjónvarpsins verið markaðsvara sem deila má um hvort er betri eða verri en einkarekin fyrirtæki á þessu sviði hafa boðið upp á. Það þarf því að bæta Ríkisútvarpið sem menningarstofnun en ekki afþreyingarstofnun eigi að viðhalda réttlætingu þess. Algengt er að metnaðarfullar ríkisútvarpsstöðvar reki sinfóníuhljómsveitir. Rökin sýnast liggja í augum uppi. Hér er um að ræða tónlist sem líklegast er að ríkisrekið útvarp geti skilað í ýmsu formi áfram úr tónlistarsölunum út til fólksins. Það hefur verið lítt skiljanlegt hversu lítið Ríkisútvarpið hefur nýtt sér þessi tengsl til þess að efla dagskrá sína, ekki síst sjónvarpsins. Hitt er óskiljanlegt hvers vegna byrja á nýjan tíma í rekstri þess með því að rjúfa þessi tengsl. Öll rök sýnast falla að hinu að auðga þau að innihaldi. Staðreynd er að ríkisstjórnin ætlar ekki að svara til um eiginfjárstöðu Ríkisútvarpsins og fjárhagsstöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrr en eftir að áformaðar skipulagsbreytingar hafa verið festar í lög. Til þess hefur hún allan rétt. Það kann að vera stjórnunaraðferð. Stjórnunaraðferð af þessu tagi getur hins vegar einvörðungu þýtt tvennt: Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform að reka hér menningarútvarp og sjónvarp með nokkurri reisn og af þeim metnaði sem einn getur yfir höfuð verið réttlæting fyrir rekstrinum. Fiðlumálið hefur því vakið upp spurningar sem þarf að svara áður en unnt er að taka ákvarðanir á málefnalegum grundvelli um framtíðarskipulag Ríkisútvarpsins.