Trúin hennar ömmu 23. desember 2006 00:01 Móðuramma mín var sveitastúlka sem flutti á mölina. Flutti ásamt afa með tvær hendur tómar um aldamótin þarsíðustu. Ævi þeirra var ekkert sældarbrauð, bjuggu í tíu leiguibúðum áður en þau eignuðust íbúð í verkamannabústöðunum. Áttu samtals níu börn, fjögur þeirra urðu uppkomin, þrjú misstu þau í bernsku og tveir synir, annar átján ára og hinn rétt tvítugur, fórust í Halaveðrinu með sama togaranum. Ég man vel eftir henni ömmu, frekar lágvaxin en sterkleg, fríð sýnum með stór brún augu, sem voru eins og gimsteinar í andliti hennar. En í þessum augum var mæða og sorg. Stundum hélt ég að hún liti aldrei glaðan dag. Sonarmissirinn varð henni þungbær alla ævi og ef ekki hefði verið fyrir trúnna, einlæga og ævarandi von og vissu um að drengjunum hennar hefði hlotnast annað líf, þá hefði hún fyrir löngu bugast. Já trúin gaf henni kjark, gaf henni kraft til að lifa áfram. Hún trúði á annað líf fyrir handan, studdi Harald Níelsson og séra Emil Björnsson og sótti fundi hjá spíritistum. Guð var alltaf nálægur, upprisa Krists var henni heilög, hennar hald og von og trú í marga áratugi. Ég hugsaði kannski ekki mikið um kristindóminn á þessum árum. Ég hafði og hef enn mínar efasemdir um upprisuna og framhaldslifið. En ég lærði að skynja og skilja þau sterku áhrif, sem þessi trúarvissa gaf fólki. Mínu fólki sem öðrum. Ég sá og sé hvað trúin getur gefið og veitt. Lífskraft, haldreipi, von. Fegurð kristinnar trúar felst einmitt í þeim styrk sem hún veitir, að því leyti að hún byggir brýr milli lífs og dauða, milli syndanna og fyrirgefningarinnar, milli skins og skúra. Lífshlaupið er enginn dans á rósum. Hörmungar, ógæfa, dauðsföll og mótlæti verða á vegi okkar flestra. Það eiga margir um sárt að binda. Með tímanum lærir maður að lifa með sorginni og sársaukinn verður öðruvísi eftir því sem frá líður. Þó er það svo að þau atlot sem best duga, þegar á reynir, eru bænirnar og blessun þeirra sem þjóna kirkju og köllun Guðs. Og þetta segi ég án þess að vilja vera væminn. Kirkjustarfið og boðskapur kristinnar trúar er athvarf hins sorgmædda, hins þjáða og hinnar eilífu vonar. Ekki í lausnum eða viðgerðum, ekki í drambi og dekri, heldur í auðmýktinni og umkomuleysinu frammi fyrir örlögunum. Ég held nefnilega að styrkur trúarinnar sé fólginn í veikleika hennar. Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað gert en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu. Það sem ég er að reyna að segja er einfaldlega það, að trúin snýst ekki eingöngu um Bíblíuskýringar eða heilaga ritningu, heldur boðar hún von, hún kennir okkur kristilegt hugarfar og hún felur í sér siðferðilegan styrk, til að standast ógæfu, illvirki og andspyrnu. Kristnin er með öðrum orðum sá rauði þráður, sem spunninn er í lífi okkar, kristinna manna, í siðferði, kærleika og samkennd. Hún gefur okkur von um bata, hún líknar brotinni sál, hún færir okkur trúna á hið góða. Að sjá til sólar. Að gefast ekki upp. Að trúa á hið óræða. Við skiljum ekki hið vonda og andstyggilega af því að það er andstætt siðferði okkar. Við sjáum ljósið í góðri hegðan, góðum fyrirmyndum og birtunni sem stafar frá hinu ímyndaða himnaríki. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, sagði Jesú. Hvað á hann við? Jú, að með breytni okkar og framferði í lífinu sé vegurinn varðaður, frá vöggu til grafar, frá fæðingu til eilífðar. Þannig lifum við, þótt við deyjum. Ekki í holdi og blóði, en í andanum og sannleikanum. Það var í rauninni þetta, þessi trú, sem hélt henni ömmu gangandi. Í uppgjöf sinni, sorginni og ástinni sem hún bar til drengjanna sinna. Hún trúði. Og treysti. Það sama gildir um að aðra sem hafa staðið og standa í sömu sporum. Og þó amma hafi verið barn síns tíma og sinnar erfiðu lífsgöngu, þá er gildi trúarinnar og kristindómsins enn á sama róli. Það er vonin og vissan um það ljós sem kviknaði á jólum, forðum daga. Og lifir enn. Ég óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. Hvort heldur í allsnægtum eða örbirgð, hvort heldur í efa eða einsemd, þá eigum við öll þetta ljós, sem skín hvað skærast á jólum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ellert B. Schram Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Móðuramma mín var sveitastúlka sem flutti á mölina. Flutti ásamt afa með tvær hendur tómar um aldamótin þarsíðustu. Ævi þeirra var ekkert sældarbrauð, bjuggu í tíu leiguibúðum áður en þau eignuðust íbúð í verkamannabústöðunum. Áttu samtals níu börn, fjögur þeirra urðu uppkomin, þrjú misstu þau í bernsku og tveir synir, annar átján ára og hinn rétt tvítugur, fórust í Halaveðrinu með sama togaranum. Ég man vel eftir henni ömmu, frekar lágvaxin en sterkleg, fríð sýnum með stór brún augu, sem voru eins og gimsteinar í andliti hennar. En í þessum augum var mæða og sorg. Stundum hélt ég að hún liti aldrei glaðan dag. Sonarmissirinn varð henni þungbær alla ævi og ef ekki hefði verið fyrir trúnna, einlæga og ævarandi von og vissu um að drengjunum hennar hefði hlotnast annað líf, þá hefði hún fyrir löngu bugast. Já trúin gaf henni kjark, gaf henni kraft til að lifa áfram. Hún trúði á annað líf fyrir handan, studdi Harald Níelsson og séra Emil Björnsson og sótti fundi hjá spíritistum. Guð var alltaf nálægur, upprisa Krists var henni heilög, hennar hald og von og trú í marga áratugi. Ég hugsaði kannski ekki mikið um kristindóminn á þessum árum. Ég hafði og hef enn mínar efasemdir um upprisuna og framhaldslifið. En ég lærði að skynja og skilja þau sterku áhrif, sem þessi trúarvissa gaf fólki. Mínu fólki sem öðrum. Ég sá og sé hvað trúin getur gefið og veitt. Lífskraft, haldreipi, von. Fegurð kristinnar trúar felst einmitt í þeim styrk sem hún veitir, að því leyti að hún byggir brýr milli lífs og dauða, milli syndanna og fyrirgefningarinnar, milli skins og skúra. Lífshlaupið er enginn dans á rósum. Hörmungar, ógæfa, dauðsföll og mótlæti verða á vegi okkar flestra. Það eiga margir um sárt að binda. Með tímanum lærir maður að lifa með sorginni og sársaukinn verður öðruvísi eftir því sem frá líður. Þó er það svo að þau atlot sem best duga, þegar á reynir, eru bænirnar og blessun þeirra sem þjóna kirkju og köllun Guðs. Og þetta segi ég án þess að vilja vera væminn. Kirkjustarfið og boðskapur kristinnar trúar er athvarf hins sorgmædda, hins þjáða og hinnar eilífu vonar. Ekki í lausnum eða viðgerðum, ekki í drambi og dekri, heldur í auðmýktinni og umkomuleysinu frammi fyrir örlögunum. Ég held nefnilega að styrkur trúarinnar sé fólginn í veikleika hennar. Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað gert en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu. Það sem ég er að reyna að segja er einfaldlega það, að trúin snýst ekki eingöngu um Bíblíuskýringar eða heilaga ritningu, heldur boðar hún von, hún kennir okkur kristilegt hugarfar og hún felur í sér siðferðilegan styrk, til að standast ógæfu, illvirki og andspyrnu. Kristnin er með öðrum orðum sá rauði þráður, sem spunninn er í lífi okkar, kristinna manna, í siðferði, kærleika og samkennd. Hún gefur okkur von um bata, hún líknar brotinni sál, hún færir okkur trúna á hið góða. Að sjá til sólar. Að gefast ekki upp. Að trúa á hið óræða. Við skiljum ekki hið vonda og andstyggilega af því að það er andstætt siðferði okkar. Við sjáum ljósið í góðri hegðan, góðum fyrirmyndum og birtunni sem stafar frá hinu ímyndaða himnaríki. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, sagði Jesú. Hvað á hann við? Jú, að með breytni okkar og framferði í lífinu sé vegurinn varðaður, frá vöggu til grafar, frá fæðingu til eilífðar. Þannig lifum við, þótt við deyjum. Ekki í holdi og blóði, en í andanum og sannleikanum. Það var í rauninni þetta, þessi trú, sem hélt henni ömmu gangandi. Í uppgjöf sinni, sorginni og ástinni sem hún bar til drengjanna sinna. Hún trúði. Og treysti. Það sama gildir um að aðra sem hafa staðið og standa í sömu sporum. Og þó amma hafi verið barn síns tíma og sinnar erfiðu lífsgöngu, þá er gildi trúarinnar og kristindómsins enn á sama róli. Það er vonin og vissan um það ljós sem kviknaði á jólum, forðum daga. Og lifir enn. Ég óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. Hvort heldur í allsnægtum eða örbirgð, hvort heldur í efa eða einsemd, þá eigum við öll þetta ljós, sem skín hvað skærast á jólum.