Fastir pennar

Spennandi kosningar í Tékklandi

Núna um helgina fara fram þingkosningar í Tékklandi, þær fyrstu frá því að Tékkar gengu í Evrópusambandið 2004. Mikil spenna ríkir í tékkneskum stjórnmálum enda eru fjölbreyttir valkostir í boði. Líkt og í íslenskum sveitastjórnum er þó ekki víst að fylgi flokka meðal kjósenda ráði endilega úrslitum heldur skiptir hitt líka máli, hvernig þeim gengur að fóta sig í vandasömum stjórnarmyndunarviðræðum í kjölfarið.

Líklegast er að eftir kosningar verði stærsti flokkur Tékklands annar tveggja, Sósíaldemókratar (CSSD) sem eru undir stjórn Jiri Paroubek, eða fyrrverandi valdaflokkur landsins, Borgaralegi lýðræðisflokkurinn (ODS).

Skoðanakannanir eru misvísandi en líklegast er að báðir þessir flokkar fái fylgi á bilinu 25-30%. Sósíaldemókratar fengu 70 þingsæti af 200 í seinustu þingkosningum og gátu myndað ríkisstjórn með Kristilega lýðræðisflokknum (KDU-CSL) og Frelsisbandalaginu. Leiðtogi flokksins, Stanislav Gross, þurfti hins vegar að segja af sér embætti forsætisráðherra eftir hneykslismál í fyrra. Paroubek hefur sveigt flokkinn aftur til vinstri og leggur nú áherslu á hefðbundin stefnumál jafnaðarmanna. Töluverð óeining hefur verið innan ríkisstjórnarinnar.

Kristilegi lýðræðisflokkurinn hefur á undanförnum mánuðum gefið vísbendingar um að hann vilji halla sér til hægri eftir kosningar, og hefur stundum verið eins og stjórnarandstöðuflokkur.

Borgaralegi lýðræðisflokkurinn hreppti 58 þingsæti í seinustu þingkosningum en er nú spáð fylgisaukningu. Meginkosningamál flokksins er að lækka skatta. Hann lofar 15% tekjuskatti, 15% virðisaukaskatti og afnámi allra annarra skatta. Annað mál sem greinir flokkinn frá Sósíaldemókrötum er afstaðan til evrunnar. Stofnandi flokksins, Vaclav Klaus, hefur alla tíð haft horn í síðu Evrópusambandsins. Hann er nú orðinn forseti Tékklands en Mirek Topolanek, eftirmaður hans, stefnir nú að því að verða forsætisráðherra við hlið hans.

Fjórði flokkurinn sem keppir um völdin er Kommúnistaflokkurinn (KSCM) sem er nú undir stjórn nýs leiðtoga, Vojtech Filip. Fráfarandi formaður, Miroslav Grebenicek, þótti of tengdur stalínískri fortíð flokksins, en hafði samt sem áður náð að auka fylgi hans í 18,5% í seinustu kosningum. Kommúnistar hafa siglt á milli skers og báru þar sem þeir skilgreina sig sem nýjan og endurbættan flokk en höfða jafnframt sterkt til þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni síðan 1989 og sakna gömlu góðu daganna. Þrátt fyrir að Sósíaldemókratar hafi látið hátt um andúð sína á Kommúnistum í orði hafa þeir í verki reitt sig mjög á þá við að koma í gegn málum ríkisstjórnarinnar á þinginu.

Brotthvarf Grebeniceks gæti orðið þeim átylla til að mynda nánari tengsl við þennan leynilega bandamann. Málefni Kommúnistaflokksins eru hefðbundin baráttumál verkalýðsflokks, þeir vilja hækka laun verkafólks og bætta heilsugæslu. Þá hefur flokkurinn barist einarðlega gegn utanríkisstefnu núverandi ríkisstjórnar, sem er mjög hliðholl Bandaríkjunum.

Líklegt er að Frelsisbandalagið hverfi af þingi þar sem gerðar eru kröfur um að flokkar nái 5% til að fá sæti á þinginu. Flokkurinn er sá frjálslyndasti á tékkneska þinginu og vill m.a. lögleiða marijuana. Á hinn bóginn er líklegt að Flokkur græningja (Strana zelených) komist inn á þing í þetta sinn, þar sem fylgi hans í skoðanakönnunum hefur verið á bilinu 8-10%. Leiðtogi flokksins er Martin Bursik, fyrrverandi umhverfisráðherra. Meðal stefnumála flokksins eru auknir umhverfisskattar, aukið aðgengi að menntun, jafnréttismál og neytendavernd. Gott gengi flokksins bendir til þess að margir Tékkar séu orðnir þreyttir á ofuráherslu stjórnvalda á hagvöxt, enda benda kannanir til þess að þeir séu almennt bjartsýnir á efnahagslega framtíð landsins.

Á hinn bóginn hafa þeir áhyggjur af litlu gegnsæi í stjórnvaldsákvörðunum, aukinni loftmengun og skorti á sjálfbærri þróun efnahagslífsins. Þar að auki hafa græningjar nú látið af langvinnum deilum og flokkadráttum og sameinast undir stjórn Bursiks. Óvíst er hvort þeir muni starfa til hægri eða vinstri eftir kosningar. Kjósendahópur þeirra minnir að ýmsu leyti á stuðningsmenn Borgaralega lýðræðisflokksins, kjarni hans eru vel menntaðir borgarbúar. Á hinn bóginn hefur Klaus forseti verið mjög andsnúinn umhverfisstefnu og talið er að áhrif hans geti valdið því að Borgaralegi lýðræðisflokkurinn leiti fremur eftir samstarfi við Sósíaldemókrata.

Allir áhugamenn um evrópsk stjórnmál hljóta að fylgjast spenntir með úrslitum þingkosninganna í Tékklandi. Ekki síst er spennandi að sjá hvort umhverfissinnar komast til áhrifa í landi flauelsbyltingarinnar sem gengið hefur í gegnum öfgar ríkissósíalisma og frjálshyggju á fáeinum áratugum. Hugsanlega munu Tékkar ryðja brautina fyrir þróun í öðrum ríkjum Austur-Evrópu, eins og þeir hafa gert oft áður.








×