Einar, Kristján, Ishmael og Ahab 23. október 2006 11:34 Það að ekki megi veiða hvali hefur ósköp lítið með það að gera núorðið að hvalir séu í útrýmingarhættu, heldur er þetta það sem heitir specisismi - við getum reynt að klúðra því yfir á íslensku og kallað það tegundarhyggju. Þetta er einhvers konar rasismi sem snýr að dýraríkinu og felur í sér að sumar dýrategundir séu æðri en aðrar. Samkvæmt svona hugmyndum tróna hvalir eiginlega hæst, þeir eru göfugar skepnur, nánast með mannlegar tilfinningar. Hið sama gildir ekki um öll dýr. Fólk sem vill ekki láta veiða hvali étur kjúklinga sem eru ræktaðir í búum þar sem þeir hafa pláss á við eitt A4 blað - verða unnvörpum vanskapaðir vegna þrengslanna - það graðgar í sig beikoni þrátt fyrir að sagt sé að svín séu með gáfuðustu skepnum. En þetta er bara svona. Þetta er eitthvað sem almenningsálitið víðast á Vesturlöndum hefur bitið í sig - kannski með smá hjálp frá Disney - á þetta bíta ekki nein rök. Hvalveiðar eru að mörgu leyti glæsileg atvinnugrein, blóðug og karlmannleg. Enginn verður samur eftir að hafa lesið Moby Dick þar sem baráttan við hvalinn er hafin upp í goðsögulega vídd. Á nítjándu öld sköpuðu hvalveiðar mikinn auð, hvalveiðiskip sigldu kringum hnöttinn, úthaldið var eins og í Moby Dick stundum mörg ár. Hér á Íslandi var saga hvalveiða ekki síður merkileg, Heimildir eru um hvalveiðar Baska hér við land allt frá 1604 - samgangurinn var svo mikill að til eru basknesk-íslensk orðasöfn frá tíma hvalveiðanna. Spánverjarnir sem voru vegnir í Spánverjavígunum voru hvalveiðimenn. Hvalveiðirómantíkin náði langt fram á tuttugustu öld. Lyktin lá yfir Hvalfirðinum og þótti engum góð en samt stoppaði fólkið í sjoppunni, en í Hvalstöðinni voru alvöru karlar, eins og til dæmis Halldór Blöndal sem skar hval, var sagður aldrei fara í bað og var stoltur af því. Það var ekki fyrr en seinna að Bubbi, sem er líka alvöru karlmenni, söng: Er nauðsynlegt að skjóta þá? Síðustu árin hefur áhugi á hvalveiðum verið fremur kverúlantískt viðhorf, mjög fáir hafa enst til að hafa áhuga á þessu til lengdar nema hópur frekra skrítinna karla sem geta ekki gleymt þessu. Rökin hafa verið misjafnlega sannfærandi. Skilaboð sem við sendum út í heim um að við séum veiðimannasamfélag sem þurfi að nýta allar bjargir sínar er ekki mjög trúverðugar. Ekki heldur þau rök að hvalir séu að éta allan fiskinn hjá okkur - hví voru þeir ekki búnir að klára hann fyrir landnám? Vísindaveiðar eru annað orð yfir að stelast, veiðar með vondri samvisku. Það er í raun ekki nokkur leið að halda því fram að hvalveiðar komi lífsafkomu þjóðarinnar hót við. Sulturinn sverfur ekki beinlínis að þjóðinni, við erum mörg að springa úr fitu. Hvalveiðar voru heldur ekki stundaðar til að afla kjöts, heldur aðallega vegna þess að skepnurnar voru notaðar sem hráefni; þessar glæsilegu skepnur voru bræddar niður - eins brútalt og manni finnst það - þörfin snarminnkaði eftir að komu til sögunnar efni sem voru unnin úr olíu. Nei, þetta er spurning um þjóðarstolt, sjálfsákvörðunarrétt smáþjóðarinannar. Við gerum þetta af því við getum það, við látum ekki veruleikafirrt lið í útlöndum segja okkur fyrir verkum. Því auðvitað er voða erfitt fyrir alvöru Íslendinga að vera á móti hvalveiðum. Samkvæmt hvalveiðisinnum er það óþjóðlegt viðhorf. Kristján Loftsson - sem ætti að fá þrautseigjuverðlaun fyrir baráttu sína - vill láta reka breska sendiherrann úr landi fyrir að mótmæla veiðunum. Stjórn hennar hátignar hefur líka horft yfir sig af Disneymyndum. Byrjunin er reyndar ekki glæsileg. Skipin eru gömul og biluð. Fyrsta skepnan sem veiddist var næstum sjálfdauð - kannski sú eina sem gat ekki forðað sér undir skutlinum. Það má ekki verka hval í Hvalstöðinni lengur og kannski ekki neins staðar. Markaðurinn fyrir vöruna er ekki til, það vill enginn éta hvalkjöt - það er eiginlega ekki nokkur leið að segja að þetta sé góður matur. Hvalir eru glæsilegar dýr, jú meira heillandi en kjúklingar og svín, en þeir eru verri á bragðið. Þannig er voða lítill tilgangur með hvalveiðunum, og lítill tilgangur með því að veiða þá ekki. En þetta er allt frekar hetjulegt. Skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson lýsir þessu vel í mynd sem hann teiknaði í Blaðið fyrir helgi. Þar er Einar sjávarútvegsráðherra á bol þar sem stendur: Kallið mig Ishmael en ég heiti Einar. Í framhaldi af því má spyrja: Hver er Ahab? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
Það að ekki megi veiða hvali hefur ósköp lítið með það að gera núorðið að hvalir séu í útrýmingarhættu, heldur er þetta það sem heitir specisismi - við getum reynt að klúðra því yfir á íslensku og kallað það tegundarhyggju. Þetta er einhvers konar rasismi sem snýr að dýraríkinu og felur í sér að sumar dýrategundir séu æðri en aðrar. Samkvæmt svona hugmyndum tróna hvalir eiginlega hæst, þeir eru göfugar skepnur, nánast með mannlegar tilfinningar. Hið sama gildir ekki um öll dýr. Fólk sem vill ekki láta veiða hvali étur kjúklinga sem eru ræktaðir í búum þar sem þeir hafa pláss á við eitt A4 blað - verða unnvörpum vanskapaðir vegna þrengslanna - það graðgar í sig beikoni þrátt fyrir að sagt sé að svín séu með gáfuðustu skepnum. En þetta er bara svona. Þetta er eitthvað sem almenningsálitið víðast á Vesturlöndum hefur bitið í sig - kannski með smá hjálp frá Disney - á þetta bíta ekki nein rök. Hvalveiðar eru að mörgu leyti glæsileg atvinnugrein, blóðug og karlmannleg. Enginn verður samur eftir að hafa lesið Moby Dick þar sem baráttan við hvalinn er hafin upp í goðsögulega vídd. Á nítjándu öld sköpuðu hvalveiðar mikinn auð, hvalveiðiskip sigldu kringum hnöttinn, úthaldið var eins og í Moby Dick stundum mörg ár. Hér á Íslandi var saga hvalveiða ekki síður merkileg, Heimildir eru um hvalveiðar Baska hér við land allt frá 1604 - samgangurinn var svo mikill að til eru basknesk-íslensk orðasöfn frá tíma hvalveiðanna. Spánverjarnir sem voru vegnir í Spánverjavígunum voru hvalveiðimenn. Hvalveiðirómantíkin náði langt fram á tuttugustu öld. Lyktin lá yfir Hvalfirðinum og þótti engum góð en samt stoppaði fólkið í sjoppunni, en í Hvalstöðinni voru alvöru karlar, eins og til dæmis Halldór Blöndal sem skar hval, var sagður aldrei fara í bað og var stoltur af því. Það var ekki fyrr en seinna að Bubbi, sem er líka alvöru karlmenni, söng: Er nauðsynlegt að skjóta þá? Síðustu árin hefur áhugi á hvalveiðum verið fremur kverúlantískt viðhorf, mjög fáir hafa enst til að hafa áhuga á þessu til lengdar nema hópur frekra skrítinna karla sem geta ekki gleymt þessu. Rökin hafa verið misjafnlega sannfærandi. Skilaboð sem við sendum út í heim um að við séum veiðimannasamfélag sem þurfi að nýta allar bjargir sínar er ekki mjög trúverðugar. Ekki heldur þau rök að hvalir séu að éta allan fiskinn hjá okkur - hví voru þeir ekki búnir að klára hann fyrir landnám? Vísindaveiðar eru annað orð yfir að stelast, veiðar með vondri samvisku. Það er í raun ekki nokkur leið að halda því fram að hvalveiðar komi lífsafkomu þjóðarinnar hót við. Sulturinn sverfur ekki beinlínis að þjóðinni, við erum mörg að springa úr fitu. Hvalveiðar voru heldur ekki stundaðar til að afla kjöts, heldur aðallega vegna þess að skepnurnar voru notaðar sem hráefni; þessar glæsilegu skepnur voru bræddar niður - eins brútalt og manni finnst það - þörfin snarminnkaði eftir að komu til sögunnar efni sem voru unnin úr olíu. Nei, þetta er spurning um þjóðarstolt, sjálfsákvörðunarrétt smáþjóðarinannar. Við gerum þetta af því við getum það, við látum ekki veruleikafirrt lið í útlöndum segja okkur fyrir verkum. Því auðvitað er voða erfitt fyrir alvöru Íslendinga að vera á móti hvalveiðum. Samkvæmt hvalveiðisinnum er það óþjóðlegt viðhorf. Kristján Loftsson - sem ætti að fá þrautseigjuverðlaun fyrir baráttu sína - vill láta reka breska sendiherrann úr landi fyrir að mótmæla veiðunum. Stjórn hennar hátignar hefur líka horft yfir sig af Disneymyndum. Byrjunin er reyndar ekki glæsileg. Skipin eru gömul og biluð. Fyrsta skepnan sem veiddist var næstum sjálfdauð - kannski sú eina sem gat ekki forðað sér undir skutlinum. Það má ekki verka hval í Hvalstöðinni lengur og kannski ekki neins staðar. Markaðurinn fyrir vöruna er ekki til, það vill enginn éta hvalkjöt - það er eiginlega ekki nokkur leið að segja að þetta sé góður matur. Hvalir eru glæsilegar dýr, jú meira heillandi en kjúklingar og svín, en þeir eru verri á bragðið. Þannig er voða lítill tilgangur með hvalveiðunum, og lítill tilgangur með því að veiða þá ekki. En þetta er allt frekar hetjulegt. Skopmyndateiknarinn Halldór Baldursson lýsir þessu vel í mynd sem hann teiknaði í Blaðið fyrir helgi. Þar er Einar sjávarútvegsráðherra á bol þar sem stendur: Kallið mig Ishmael en ég heiti Einar. Í framhaldi af því má spyrja: Hver er Ahab?