Herinn og skjaldbakan 23. mars 2006 01:06 Það er nú varla bætandi á allt grínið, sem búið er að demba yfir grunlausa ríkisstjórnina undanfarna daga vegna einhliða ákvörðunar Bandaríkjastjórnar að kveðja herinn heim frá Keflavíkurflugvelli. En málið er alvarlegt og lýsir í hnotskurn því undarlega andvaraleysi, sem hefur einkennt ýmsa þætti landsstjórnarinnar mörg undangengin ár. Hvað á ég við? Þegar aðild að Evrópusambandinu var efst á baugi stjórnmálanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð árin eftir 1990, lagði Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra fram tillögu um það í ríkisstjórninni, að hún léti fara fram gagngera úttekt á kostum þess og göllum fyrir Íslendinga að fylgja hinum löndunum þrem og Austurríki inn í Sambandið 1995; Danmörk hafði þá þegar verið í Evrópusambandinu í 20 ár. Það er skemmst frá því að segja, að tillagan var felld í ríkisstjórninni; Sjálfstæðisflokkurinn kærði sig ekki um að kynna sér málið, eða þjóðinni. Meðan bókabúðarborðin í Helsinki, Osló og Stokkhólmi svignuðu undan bókum og skýrslum um Evrópumál frá ýmsum hliðum, veitti ríkisstjórn Íslands almenningi hér heima engan kost á sambærilegri uppfræðslu og rökræðu um málið. Sjálfstæðisflokknum tókst það, sem hann ætlaði sér: að tefja málið og trufla í lengstu lög, þótt skoðanakannanir hafi jafnan bent til þess, að meiri hluti landsmanna er hlynntur inngöngu í Evrópusambandið. Meiri hlutinn mun að endingu fá að ráða þessu. Sama sinnuleysi virðist einkenna afstöðu núverandi ríkisstjórnar til varnarmálanna. Það hefur legið fyrir lengi, að Bandaríkjamenn vildu endurskoða varnarsamstarfið við Íslendinga. Bandaríkjastjórn er fullfær um að meta framlag Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsþjóðanna og hefur líklega gert það og komizt að þeirri niðurstöðu, að varnarliðsins sé ekki lengur þörf í þágu sameiginlegra varna. Því er þó samt ekki að fullu treystandi, að kaninn viti, hvað hann er að gera, svo mjög sem honum hafa verið mislagðar hendur í ýmsum öðrum utanríkismálum í stjórnartíð Bush forseta, sem hefur tekizt að sameina svo að segja gervalla heimsbyggðina á hyldjúpri andúð á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. En það er ekki í verkahring Bandaríkjastjórnar að meta varnarþörf Íslands að kalda stríðinu löngu loknu. Það verk hefði ríkisstjórn Íslands átt að vinna fyrir löngu á eigin spýtur, en hún sýnir þess samt engin merki, að hún hafi borið sig að því. Hún kemur af fjöllum. Hún hefur ekki getað lýst því, hvað þyrfti að koma í staðinn fyrir þoturnar og þyrlurnar, sem hún telur nauðsynlegar til að tryggja varnir landsins. Ríkisstjórnin gat sagt sér það sjálf, að vélarnar yrðu kallaðar heim, en hún hefur enga gagntillögu fram að færa. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan, eða Samfylkingin réttara sagt, tekið málið að sér. Fyrirhyggjuleysi ríkisstjórnarinnar lýsir sér einnig í því, að hún hefur nýlega ráðizt í rándýrar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli, þótt vitað sé, að völlurinn eigi að hverfa úr Vatnsmýrinni 2016, auk þess sem það hefur blasað við, að yfirvofandi brottför hersins myndi leggja rekstrarkostnað Keflavíkurflugvallar á herðar Íslendinga og kippa með því móti fjárhagsgrundvellinum undan rekstri Reykjavíkurflugvallar í ofanálag. Bandaríkjastjórn virðist nú hafa ákveðið að segja upp varnarsamningnum frá 1951. Öðruvísi er varla hægt að túlka einhliða tilkynningu hennar um brotthvarf flugflotans og heraflans frá Keflavíkurflugvelli gegn vilja íslenzku ríkisstjórnarinnar, án þess að fyrir liggi, hvort eitthvað annað þarf að koma í staðinn. Kannski hefur kaninn bara gefizt upp á silaganginum í ríkisstjórninni og ekki nennt að bíða lengur eftir gagntillögum hennar um æskilegar landvarnir. Eftir stendur nauðsyn þess, að Íslendingar geri sér sjálfir glögga grein fyrir stöðunni, sem upp er komin. Þrennt kemur helzt til álita: (a) að Ísland verði varnarlaust eins og Kostaríka hefur verið vandræðalaust um langt skeið og treysti því einhliða á Atlantshafsbandalagið og utanaðkomandi aðstoð, ef á þyrfti að halda; (b) að Íslendingar setji upp eigið varðlið, sem gæti kostað svipaða fjárhæð og rekstur Háskóla Íslands á hverju ári, eins og ég lýsi í Tveir heimar (2005), en þá er stofnkostnaður ekki talinn með; og (c) að Íslendingar semji við önnur Evrópulönd, NATO eða ESB um varnir Íslands. Þessa þrjá kosti þarf að vega og meta. Þarna er verk að vinna handa Jóni Baldvini Hannibalssyni og stjórnarandstöðunni, úr því að ríkisstjórnin gekk úr skaftinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Það er nú varla bætandi á allt grínið, sem búið er að demba yfir grunlausa ríkisstjórnina undanfarna daga vegna einhliða ákvörðunar Bandaríkjastjórnar að kveðja herinn heim frá Keflavíkurflugvelli. En málið er alvarlegt og lýsir í hnotskurn því undarlega andvaraleysi, sem hefur einkennt ýmsa þætti landsstjórnarinnar mörg undangengin ár. Hvað á ég við? Þegar aðild að Evrópusambandinu var efst á baugi stjórnmálanna í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð árin eftir 1990, lagði Jón Baldvin Hannibalsson þáverandi utanríkisráðherra fram tillögu um það í ríkisstjórninni, að hún léti fara fram gagngera úttekt á kostum þess og göllum fyrir Íslendinga að fylgja hinum löndunum þrem og Austurríki inn í Sambandið 1995; Danmörk hafði þá þegar verið í Evrópusambandinu í 20 ár. Það er skemmst frá því að segja, að tillagan var felld í ríkisstjórninni; Sjálfstæðisflokkurinn kærði sig ekki um að kynna sér málið, eða þjóðinni. Meðan bókabúðarborðin í Helsinki, Osló og Stokkhólmi svignuðu undan bókum og skýrslum um Evrópumál frá ýmsum hliðum, veitti ríkisstjórn Íslands almenningi hér heima engan kost á sambærilegri uppfræðslu og rökræðu um málið. Sjálfstæðisflokknum tókst það, sem hann ætlaði sér: að tefja málið og trufla í lengstu lög, þótt skoðanakannanir hafi jafnan bent til þess, að meiri hluti landsmanna er hlynntur inngöngu í Evrópusambandið. Meiri hlutinn mun að endingu fá að ráða þessu. Sama sinnuleysi virðist einkenna afstöðu núverandi ríkisstjórnar til varnarmálanna. Það hefur legið fyrir lengi, að Bandaríkjamenn vildu endurskoða varnarsamstarfið við Íslendinga. Bandaríkjastjórn er fullfær um að meta framlag Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsþjóðanna og hefur líklega gert það og komizt að þeirri niðurstöðu, að varnarliðsins sé ekki lengur þörf í þágu sameiginlegra varna. Því er þó samt ekki að fullu treystandi, að kaninn viti, hvað hann er að gera, svo mjög sem honum hafa verið mislagðar hendur í ýmsum öðrum utanríkismálum í stjórnartíð Bush forseta, sem hefur tekizt að sameina svo að segja gervalla heimsbyggðina á hyldjúpri andúð á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. En það er ekki í verkahring Bandaríkjastjórnar að meta varnarþörf Íslands að kalda stríðinu löngu loknu. Það verk hefði ríkisstjórn Íslands átt að vinna fyrir löngu á eigin spýtur, en hún sýnir þess samt engin merki, að hún hafi borið sig að því. Hún kemur af fjöllum. Hún hefur ekki getað lýst því, hvað þyrfti að koma í staðinn fyrir þoturnar og þyrlurnar, sem hún telur nauðsynlegar til að tryggja varnir landsins. Ríkisstjórnin gat sagt sér það sjálf, að vélarnar yrðu kallaðar heim, en hún hefur enga gagntillögu fram að færa. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan, eða Samfylkingin réttara sagt, tekið málið að sér. Fyrirhyggjuleysi ríkisstjórnarinnar lýsir sér einnig í því, að hún hefur nýlega ráðizt í rándýrar framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli, þótt vitað sé, að völlurinn eigi að hverfa úr Vatnsmýrinni 2016, auk þess sem það hefur blasað við, að yfirvofandi brottför hersins myndi leggja rekstrarkostnað Keflavíkurflugvallar á herðar Íslendinga og kippa með því móti fjárhagsgrundvellinum undan rekstri Reykjavíkurflugvallar í ofanálag. Bandaríkjastjórn virðist nú hafa ákveðið að segja upp varnarsamningnum frá 1951. Öðruvísi er varla hægt að túlka einhliða tilkynningu hennar um brotthvarf flugflotans og heraflans frá Keflavíkurflugvelli gegn vilja íslenzku ríkisstjórnarinnar, án þess að fyrir liggi, hvort eitthvað annað þarf að koma í staðinn. Kannski hefur kaninn bara gefizt upp á silaganginum í ríkisstjórninni og ekki nennt að bíða lengur eftir gagntillögum hennar um æskilegar landvarnir. Eftir stendur nauðsyn þess, að Íslendingar geri sér sjálfir glögga grein fyrir stöðunni, sem upp er komin. Þrennt kemur helzt til álita: (a) að Ísland verði varnarlaust eins og Kostaríka hefur verið vandræðalaust um langt skeið og treysti því einhliða á Atlantshafsbandalagið og utanaðkomandi aðstoð, ef á þyrfti að halda; (b) að Íslendingar setji upp eigið varðlið, sem gæti kostað svipaða fjárhæð og rekstur Háskóla Íslands á hverju ári, eins og ég lýsi í Tveir heimar (2005), en þá er stofnkostnaður ekki talinn með; og (c) að Íslendingar semji við önnur Evrópulönd, NATO eða ESB um varnir Íslands. Þessa þrjá kosti þarf að vega og meta. Þarna er verk að vinna handa Jóni Baldvini Hannibalssyni og stjórnarandstöðunni, úr því að ríkisstjórnin gekk úr skaftinu.