Viðskipti innlent

Promens reisir nýja verksmiðju í Póllandi

Teikning af nýrri verksmiðju Svona mun nýja verksmiðjan sem Promens er að reisa í Póllandi koma til með að líta út. Í fyrstu verður hún 9.000 fermetrar, en hægt að stækka hana um helming.
Teikning af nýrri verksmiðju Svona mun nýja verksmiðjan sem Promens er að reisa í Póllandi koma til með að líta út. Í fyrstu verður hún 9.000 fermetrar, en hægt að stækka hana um helming. Mynd/ATORKA

Promens hf. hefur ákveðið að reisa nýja hverfisteypuverksmiðju í Póllandi til framleiðslu á vörum úr plasti. Bygging verksmiðjunnar hefst innan fárra vikna og tekur hún til starfa um mitt næsta ár.

„Verksmiðjan verður byggð á 5,6 hektara lóð á nýju iðnaðarsvæði í Miedzyrzecz þar sem Bonar Polska Sp. Z oo, dótturfyrirtæki Promens, hefur starfrækt verksmiðju frá árinu 2001. Upphafleg stærð verksmiðjunnar verður um 9.000 fermetrar en mögulegt er að rúmlega tvöfalda stærð hennar,“ segir í tilkynningu Atorku Group sem á Promens og tekið er fram að framleiðslugeta fyrirtækisins í Póllandi aukist við þetta umtalsvert. „Verksmiðjan er byggð til þess að mæta vaxandi markaði fyrir hverfisteyptar vörur bæði í Austur- og Vestur-Evrópu, markaði sem Promens hefur sterka stöðu á og sér mikil tækifæri til frekari vaxtar,“ segir þar einnig. Núna eru starfsmenn Bonar Plastics Polska 90 talsins og framleiðir fyrirtækið vörur fyrir viðskiptavini í bæði Austur- og Vestur-Evrópu.

 

Hornsteinn Lagður Tomasz Dyszkant, framkvæmdastjóri í Póllandi og Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Promens.

Promens er stærsta fyrirtæki heims á sviði hverfisteyptra plastvara og rekur 21 verksmiðju í tíu löndum, með um 1.600 starfsmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×