Viðskipti innlent

Samskip undir nýju merki

Nýtt merki Samskipa.
Nýtt merki Samskipa.

Á morgun verða tímamót í sögu Samskipa en þá sameinast öll starfsemi félagsins sameinast undir einu nafni og nýju merki. Breytingunum er ætlað að styrkja enn frekar ímynd Samskipa á alþjóðlegum flutningamarkaði. Í kjölfar kaupafélagsins á hollenska flutningafélaginu Geest North Sea Line og breska flutningafélaginu Seawheel hefur velta Samskipa þrefaldast og nema 60 milljörðum króna á yfirstandandi rekstrarári.

Í tilkynningu frá Samskipum er haft eftir Ásbirni Gíslasyni, forstjóra Samskipa, að um sé að ræða tímamót í útrásarsögu fyrirtækisins. „Það hefur verið mikið verk að sameina þessi þrjú félög í eitt og á heildina litið er útkoman í samræmi við þær áætlanir sem lagt var upp með í upphafi, að skapa stórt og öflugt gámaflutningafélag sem er leiðandi á Evrópumarkaði," segir Ásbjörn í tilkynningu frá Samskipum.

Útlitsbreytingar á merki Samskipa hafa takmörkuð áhrif á Íslandi en erlendis hverfa nöfn eins og Geest og Seawheel og í staðinn kemur nafn og nýtt merki Samskipa.

„Við erum stolt af þessum breytingum. Við vorum í hópi fyrstu útrásarfyrirtækjanna og lítum á þetta sem enn eitt skrefið í þeirra þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum þar sem íslensk fyrirtæki eru æ meira að setja mark sitt á alþjóðleg viðskipti. Það gleður okkur líka hér heima að leggja á áfram rækt við þann frumkvöðlaanda sem einkennt hefur starfsemi Samskipa frá upphafi, bæði heima og erlendis, hjá hinu sameinaða félagi," segir Ásbjörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×