Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska A-landsliðsins í körfuknattleik og mun vinna með Sigurði Ingimundarsyni þjálfara í framtíðinni. Friðrik er öllum hnútum kunnugur hjá landsliðinu og hefur áður verið aðalþjálfari þess.
Þessi ráðstöfun er ekki ólík þeirri sem Guðmundur Guðmundsson tók að sér á dögunum þegar hann gerðist aðstoðarmaður Alfreðs Gíslasonar hjá handboltalandsliðinu og í samtali við NFS í kvöld hafði Friðrik einmitt orð á því að hann hefði feginn brugðist við kalli landsliðsins.