Með nærri tóman tank 7. desember 2006 00:01 Ríkissjóður tók um daginn nýtt 90 milljarða króna lán í útlöndum. Þetta er mikið fé. Fjárhæðin jafngildir átta prósentum af landsframleiðslu, og það gerir 1,2 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Lántakan sætir tíðindum í ljósi þess, að ríkissjóður hefur frá árinu 1995 endurgreitt þrjá fjórðu hluta erlendra skulda ríkisins miðað við landsframleiðslu. Hlutfall erlendra skulda ríkisins af landsframleiðslu lækkaði úr 28 prósentum 1995 í átta prósent 2005. Það var vel af sér vikið að nota langvarandi góðæri til að vinda ofan af gömlum skuldum. Skuldir ríkisins hafa því minnkað, þótt erlendar skuldir þjóðarbúsins í heild að einkageiranum meðtöldum hafi rokið upp í áður óþekktar hæðir, einkum skuldir bankanna og viðskiptavina þeirra og einnig skuldir Landsvirkjunar, sem eru ekki taldar með skuldum ríkisins. En nú hefur ríkissjóður vent kvæði sínu í kross með því að tvöfalda erlendar skuldir ríkisins aftur á einu bretti miðað við landsframleiðslu. Til hvers? Svarið er: til að styrkja gjaldeyrisforðann. Seðlabankinn geymir gjaldeyrisforða til þess að tryggja, að Íslendingar geti staðið tímanleg skil á fjárskuldbindingum sínum við útlendinga. Hvar fær bankinn forðann? Seðlabankinn byggir forðann upp með því að kaupa gjaldeyri á innlendum markaði eða með erlendri lántöku eins og nú var gert. Þegar vel gengur í efnahagslífinu, streymir erlendur gjaldeyrir inn í landið, og forðinn vex að svo miklu leyti sem innflutningur á vörum og þjónustu og fjárfestingar Íslendinga í útlöndum rýra ekki forðann á móti. Góð og gætileg hagstjórn útheimtir, að gjaldeyrisforði seðlabankans aukist í góðæri, svo að stjórnvöld hafi þá svigrúm til að ganga á forðann í hallæri. Þannig fer hagsýnt fólk að við heimilisreksturinn og rekstur fyrirtækja: það leggur fé til hliðar í feitum árum til að létta sér lífið, þegar harðnar á dalnum. Seðlabanki með of nauman gjaldeyrisforða er eins og bíll með nærri tóman tank og sprungið varadekk: bílstjórinn og farþegar hans eiga þá það á hættu að komast ekki á leiðarenda. Hvað þarf gjaldeyrisforðinn að vera mikill? Yfirleitt er við það miðað, að forðinn dugi fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í þrjá mánuði að minnsta kosti, helzt fjóra, fimm eða sex. Jafnframt má gjaldeyrisforðinn helzt ekki vera minni að vöxtum en erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins. Síðari viðmiðunin helgast af því, að í seðlabankanum þarf að vera til nægur gjaldeyrir til að endurgreiða allar erlendar skammtímaskuldir í einu vetfangi, ef svo illa færi og ólíklega, að erlendir lánardrottnar kipptu að sér hendinni og krefðust allir sem einn endurgreiðslu á útistandandi skammtímaskuldum í stað þess að velta þeim áfram. Ef gjaldeyrisforðinn hrekkur ekki fyrir skyndilegri endurgreiðslu skammtímaskulda, ef á þyrfti að halda, lenda lánin í vanskilum. Skuldunautarnir neyðast þá sumir til að setja eignir sínar á útsölu, gengi gjaldmiðilsins fellur og einnig gengi hlutabréfa. Einmitt þetta gerðist í nokkrum Asíulöndum 1997, þótt fáir sæju það fyrir. Fram að þeim tíma var fyrri kvarðinn einn yfirleitt látinn duga, það er viðmiðunin við þriggja mánaða innflutning, en nú þykjast menn vera reynslunni ríkari og horfa einnig til erlendra skammtímaskulda. Lántaka ríkissjóðs um daginn dugir til að lyfta gjaldeyrisforða seðlabankans upp fyrir viðtekið lágmark á fyrri kvarðann, sem lýst var að framan, það er upp fyrir andvirði innflutnings á vörum og þjónustu í þrjá mánuði. Lántakan dugir á hinn bóginn hvergi nærri til að koma gjaldeyrisforðanum upp fyrir viðtekið lágmark á síðari kvarðann, því að erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins hafa vaxið ört að undanförnu. Þær námu um mitt þetta ár 85 prósentum af landsframleiðslunni. Ríkissjóður þyrfti að taka mörg risalán til viðbótar til að koma gjaldeyrisforðanum upp fyrir erlendar skammtímaskuldir, og til þess hefur ríkisstjórnin ekki svigrúm. Hún hefur ekki bolmagn til að bægja frá hættunni á því, að spákaupmenn geri áhlaup á krónuna og felli gengi hennar. Þetta atriði vegur þungt í hugum margra þeirra, sem telja, að það sé of dýrt og kosti of mikið umstang að verja smámynt eins og krónuna fyrir sviptivindum gjaldeyrisviðskiptanna úti í heimi og dagar hennar hljóti því að vera taldir. Fari svo, hlýtur evran að leysa krónuna af hólmi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun
Ríkissjóður tók um daginn nýtt 90 milljarða króna lán í útlöndum. Þetta er mikið fé. Fjárhæðin jafngildir átta prósentum af landsframleiðslu, og það gerir 1,2 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Lántakan sætir tíðindum í ljósi þess, að ríkissjóður hefur frá árinu 1995 endurgreitt þrjá fjórðu hluta erlendra skulda ríkisins miðað við landsframleiðslu. Hlutfall erlendra skulda ríkisins af landsframleiðslu lækkaði úr 28 prósentum 1995 í átta prósent 2005. Það var vel af sér vikið að nota langvarandi góðæri til að vinda ofan af gömlum skuldum. Skuldir ríkisins hafa því minnkað, þótt erlendar skuldir þjóðarbúsins í heild að einkageiranum meðtöldum hafi rokið upp í áður óþekktar hæðir, einkum skuldir bankanna og viðskiptavina þeirra og einnig skuldir Landsvirkjunar, sem eru ekki taldar með skuldum ríkisins. En nú hefur ríkissjóður vent kvæði sínu í kross með því að tvöfalda erlendar skuldir ríkisins aftur á einu bretti miðað við landsframleiðslu. Til hvers? Svarið er: til að styrkja gjaldeyrisforðann. Seðlabankinn geymir gjaldeyrisforða til þess að tryggja, að Íslendingar geti staðið tímanleg skil á fjárskuldbindingum sínum við útlendinga. Hvar fær bankinn forðann? Seðlabankinn byggir forðann upp með því að kaupa gjaldeyri á innlendum markaði eða með erlendri lántöku eins og nú var gert. Þegar vel gengur í efnahagslífinu, streymir erlendur gjaldeyrir inn í landið, og forðinn vex að svo miklu leyti sem innflutningur á vörum og þjónustu og fjárfestingar Íslendinga í útlöndum rýra ekki forðann á móti. Góð og gætileg hagstjórn útheimtir, að gjaldeyrisforði seðlabankans aukist í góðæri, svo að stjórnvöld hafi þá svigrúm til að ganga á forðann í hallæri. Þannig fer hagsýnt fólk að við heimilisreksturinn og rekstur fyrirtækja: það leggur fé til hliðar í feitum árum til að létta sér lífið, þegar harðnar á dalnum. Seðlabanki með of nauman gjaldeyrisforða er eins og bíll með nærri tóman tank og sprungið varadekk: bílstjórinn og farþegar hans eiga þá það á hættu að komast ekki á leiðarenda. Hvað þarf gjaldeyrisforðinn að vera mikill? Yfirleitt er við það miðað, að forðinn dugi fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í þrjá mánuði að minnsta kosti, helzt fjóra, fimm eða sex. Jafnframt má gjaldeyrisforðinn helzt ekki vera minni að vöxtum en erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins. Síðari viðmiðunin helgast af því, að í seðlabankanum þarf að vera til nægur gjaldeyrir til að endurgreiða allar erlendar skammtímaskuldir í einu vetfangi, ef svo illa færi og ólíklega, að erlendir lánardrottnar kipptu að sér hendinni og krefðust allir sem einn endurgreiðslu á útistandandi skammtímaskuldum í stað þess að velta þeim áfram. Ef gjaldeyrisforðinn hrekkur ekki fyrir skyndilegri endurgreiðslu skammtímaskulda, ef á þyrfti að halda, lenda lánin í vanskilum. Skuldunautarnir neyðast þá sumir til að setja eignir sínar á útsölu, gengi gjaldmiðilsins fellur og einnig gengi hlutabréfa. Einmitt þetta gerðist í nokkrum Asíulöndum 1997, þótt fáir sæju það fyrir. Fram að þeim tíma var fyrri kvarðinn einn yfirleitt látinn duga, það er viðmiðunin við þriggja mánaða innflutning, en nú þykjast menn vera reynslunni ríkari og horfa einnig til erlendra skammtímaskulda. Lántaka ríkissjóðs um daginn dugir til að lyfta gjaldeyrisforða seðlabankans upp fyrir viðtekið lágmark á fyrri kvarðann, sem lýst var að framan, það er upp fyrir andvirði innflutnings á vörum og þjónustu í þrjá mánuði. Lántakan dugir á hinn bóginn hvergi nærri til að koma gjaldeyrisforðanum upp fyrir viðtekið lágmark á síðari kvarðann, því að erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins hafa vaxið ört að undanförnu. Þær námu um mitt þetta ár 85 prósentum af landsframleiðslunni. Ríkissjóður þyrfti að taka mörg risalán til viðbótar til að koma gjaldeyrisforðanum upp fyrir erlendar skammtímaskuldir, og til þess hefur ríkisstjórnin ekki svigrúm. Hún hefur ekki bolmagn til að bægja frá hættunni á því, að spákaupmenn geri áhlaup á krónuna og felli gengi hennar. Þetta atriði vegur þungt í hugum margra þeirra, sem telja, að það sé of dýrt og kosti of mikið umstang að verja smámynt eins og krónuna fyrir sviptivindum gjaldeyrisviðskiptanna úti í heimi og dagar hennar hljóti því að vera taldir. Fari svo, hlýtur evran að leysa krónuna af hólmi.
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun