Það sem koma skal 26. apríl 2006 00:01 Einhver sagði mér að góður diplómat gæti sagt manni að fara til fjandans af slíkri kurteisi að maður hlakkaði bæði til ferðarinnar og fundarinns við þann vonda. Nú verður ekki beinlínis sagt að Hu Jintao, forseti Kína, hafi sagt Bush starfsbróður sínum að leggja í slíka ferð en fáir hafa líklega sagt kurteislegt nei við Bush forseta jafn oft á jafn stuttum tíma og Hu Jintao í nýlegri Bandaríkjaferð. Hann hafnaði meira að segja boði um að heimsækja búgarð forsetans í Texas, líklega fyrstur erlendra stjórnmálaleiðtoga. Stjórnmálaskýrendur vestan hafs segja að kínverski forsetinn hefði gert afdrifarík mistök með þeirri þrjósku að gefa ekki Bush forseta eitthvað örlítið eftir í einhverjum af þeim málum sem Bandaríkjaforsti reyndi að bera upp. Með þessu, segja menn, kalla Kínverjar yfir sig alls kyns vandræði, bæði efnahagsleg og pólitísk. Það má vera rétt. Frá sjónarhóli lengri sögu sýndi fundurinn hins vegar ört vaxandi styrk Kína og aukið sjálfstraust ráðamanna þar eystra. Hann gaf líka innsýn í það flókna ferli sem liggur að baki pólitískri stefnumótun í Kína. Þess vegna varð mér hugsað til nokkurra mánaða gamallar fréttatilkynningar sem í fyrstu leit út fyrir að vera leiðinlegasta lesning í heimi. Fréttin var þess efnis að nú væri lokið fimmta almenna fundinum á sextánda þingi miðnefndar kínverska kommúnistaflokksins og að þar hefðu meginatriði elleftu fimm ára áætlunarinnar um þróun efnahags og samfélags í Kína verið samþykkt. Fréttapunkturinn var sá að nú skyldi fylgt áætlun sem byggðist á vísindalegri nálgun til að ná fram meiri gæðum og meiri skilvirkni í þróun efnahags og samfélags. Ég hugsaði með mér að gott væri að hafa þetta plagg við hendina næst þegar ég þyrfti að geta sofnað í flugvél. Taki menn elleftu fimm ára áætlun miðnefndar flokksins alvarlega er þarna hins vegar ýmislegt að finna sem gæti haft áhrif á sögu heimsins. Í fyrstu leit ýmislegt í tilkynningunni út fyrir að vera á mörkum þess óhugnanlega og þess hlægilega. Í ljósi sögunnar hljóta mönnum að finnast tilraunir til þess að móta líf fólks með vísindalegum hætti frekar fráhrindandi. Nýtt slagorð fólkið til miðju er líka útskýrt þannig að þarna sé ekki um nýtt hugtak að ræða heldur hafi tveir tilteknir stjórnmálaspekingar stungið uppá því áður. Annar þeirra var uppi fyrir 2700 árum. Hinn dó nokkru áður en Rómverjar tóku upp keisarstjórn. Tilfinning Kínverja fyrir tíma og sögulegum viðmiðum er önnur en manna vestar í heiminum. Það lýsir nokkuð efnahagslífinu þar eystra að Kínverjar þurfa að bæta við orkuvinnslukerfi sitt afli sem nemur getu hátt í hundrað Búrfellsvirkjana á hverju ári. Þeir nota nú fjórðung af öllu áli, 30% af öllu stáli og nær 50% af öllu sementi sem framleitt er í heiminum. Öflun orku og hráefna hefur líka orðið að þungamiðju kínverskar utanríkisstefnu. Til þess að viðhalda örum hagvexti og til að draga úr ójöfnuði í samfélaginu kalla nýjar áætlanir eftir því að 300 milljónir manna flytjist úr sveitum í borgir á næstu fimmtán árum. Góðu fréttirnar fyrir okkur hin eru þær að kínverska stjórnin hefur ákveðið að gera risastórt átak til að draga úr orkunotkun, vatnsnotkun í iðnaði og loftmengun. Það sem flækir stefnumótun kínversku stjórnarinnar er að valdamiklar fylkisstjórnir og borgarstjórnir vítt og breytt í Kína hafa aðrar áherslur en stjórnin í Peking. Herir af embættismönnum, sérfræðingum, stjórnmálamönnum, bissnesmönnum og hagsmunaaðilum af ólíkasta tagi koma að stefnumótu og alls kyns þrýstingur innan frá frekar en þrýstingur frá Bandaríkjunum er helsta áhyggjuefni leiðtoga flokks og ríkis. Þeir treysta heldur ekki stjórn Bandaríkjanna og telja það langtímamarkmið hennar að halda sem mest aftur af Kína. Þar hafa þeir aldrei nema rétt fyrir sér. Hu skorti því bæði getu og vilja til að semja við Bush um stefnu Kínverjar. Þess vegna eyddi hann meiri tíma með Bill Gates en með George Bush í heimsókninni og lagði áherslu á að hitta sem flesta menn úr viðskiptalífinu en færri úr stjórnmálaheiminum. Togstreita á milli Kína og Bandaríkjanna verður hins vegar eitt af stærstu viðfangsefnum í alþjóðkerfinu næstu áratugina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Ormur Halldórsson Skoðanir Mest lesið Isavia sóar fjármagni í eigin ímynd Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun Ísland undaskilið alþjóðlegum kolefniskvóta Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Forseti ASÍ á skautum Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Stórkostlega ungur Kristján Friðbert Friðbertsson Skoðun Sníkjudýr? Efling afhjúpar eðli sitt Aðalgeir Ásvaldsson Skoðun Vöruhúsið í Álfabakka - í boði hvers? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Gervigreind: Ný tímamót í mannlegri sögu Sigvaldi Einarsson Skoðun Forgangsröðum forgangsröðun Gylfi Ólafsson Skoðun
Einhver sagði mér að góður diplómat gæti sagt manni að fara til fjandans af slíkri kurteisi að maður hlakkaði bæði til ferðarinnar og fundarinns við þann vonda. Nú verður ekki beinlínis sagt að Hu Jintao, forseti Kína, hafi sagt Bush starfsbróður sínum að leggja í slíka ferð en fáir hafa líklega sagt kurteislegt nei við Bush forseta jafn oft á jafn stuttum tíma og Hu Jintao í nýlegri Bandaríkjaferð. Hann hafnaði meira að segja boði um að heimsækja búgarð forsetans í Texas, líklega fyrstur erlendra stjórnmálaleiðtoga. Stjórnmálaskýrendur vestan hafs segja að kínverski forsetinn hefði gert afdrifarík mistök með þeirri þrjósku að gefa ekki Bush forseta eitthvað örlítið eftir í einhverjum af þeim málum sem Bandaríkjaforsti reyndi að bera upp. Með þessu, segja menn, kalla Kínverjar yfir sig alls kyns vandræði, bæði efnahagsleg og pólitísk. Það má vera rétt. Frá sjónarhóli lengri sögu sýndi fundurinn hins vegar ört vaxandi styrk Kína og aukið sjálfstraust ráðamanna þar eystra. Hann gaf líka innsýn í það flókna ferli sem liggur að baki pólitískri stefnumótun í Kína. Þess vegna varð mér hugsað til nokkurra mánaða gamallar fréttatilkynningar sem í fyrstu leit út fyrir að vera leiðinlegasta lesning í heimi. Fréttin var þess efnis að nú væri lokið fimmta almenna fundinum á sextánda þingi miðnefndar kínverska kommúnistaflokksins og að þar hefðu meginatriði elleftu fimm ára áætlunarinnar um þróun efnahags og samfélags í Kína verið samþykkt. Fréttapunkturinn var sá að nú skyldi fylgt áætlun sem byggðist á vísindalegri nálgun til að ná fram meiri gæðum og meiri skilvirkni í þróun efnahags og samfélags. Ég hugsaði með mér að gott væri að hafa þetta plagg við hendina næst þegar ég þyrfti að geta sofnað í flugvél. Taki menn elleftu fimm ára áætlun miðnefndar flokksins alvarlega er þarna hins vegar ýmislegt að finna sem gæti haft áhrif á sögu heimsins. Í fyrstu leit ýmislegt í tilkynningunni út fyrir að vera á mörkum þess óhugnanlega og þess hlægilega. Í ljósi sögunnar hljóta mönnum að finnast tilraunir til þess að móta líf fólks með vísindalegum hætti frekar fráhrindandi. Nýtt slagorð fólkið til miðju er líka útskýrt þannig að þarna sé ekki um nýtt hugtak að ræða heldur hafi tveir tilteknir stjórnmálaspekingar stungið uppá því áður. Annar þeirra var uppi fyrir 2700 árum. Hinn dó nokkru áður en Rómverjar tóku upp keisarstjórn. Tilfinning Kínverja fyrir tíma og sögulegum viðmiðum er önnur en manna vestar í heiminum. Það lýsir nokkuð efnahagslífinu þar eystra að Kínverjar þurfa að bæta við orkuvinnslukerfi sitt afli sem nemur getu hátt í hundrað Búrfellsvirkjana á hverju ári. Þeir nota nú fjórðung af öllu áli, 30% af öllu stáli og nær 50% af öllu sementi sem framleitt er í heiminum. Öflun orku og hráefna hefur líka orðið að þungamiðju kínverskar utanríkisstefnu. Til þess að viðhalda örum hagvexti og til að draga úr ójöfnuði í samfélaginu kalla nýjar áætlanir eftir því að 300 milljónir manna flytjist úr sveitum í borgir á næstu fimmtán árum. Góðu fréttirnar fyrir okkur hin eru þær að kínverska stjórnin hefur ákveðið að gera risastórt átak til að draga úr orkunotkun, vatnsnotkun í iðnaði og loftmengun. Það sem flækir stefnumótun kínversku stjórnarinnar er að valdamiklar fylkisstjórnir og borgarstjórnir vítt og breytt í Kína hafa aðrar áherslur en stjórnin í Peking. Herir af embættismönnum, sérfræðingum, stjórnmálamönnum, bissnesmönnum og hagsmunaaðilum af ólíkasta tagi koma að stefnumótu og alls kyns þrýstingur innan frá frekar en þrýstingur frá Bandaríkjunum er helsta áhyggjuefni leiðtoga flokks og ríkis. Þeir treysta heldur ekki stjórn Bandaríkjanna og telja það langtímamarkmið hennar að halda sem mest aftur af Kína. Þar hafa þeir aldrei nema rétt fyrir sér. Hu skorti því bæði getu og vilja til að semja við Bush um stefnu Kínverjar. Þess vegna eyddi hann meiri tíma með Bill Gates en með George Bush í heimsókninni og lagði áherslu á að hitta sem flesta menn úr viðskiptalífinu en færri úr stjórnmálaheiminum. Togstreita á milli Kína og Bandaríkjanna verður hins vegar eitt af stærstu viðfangsefnum í alþjóðkerfinu næstu áratugina.
Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun
Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun