Kókaín flæðir yfir 27. ágúst 2006 06:00 Varla líður sú vika að ekki berist fréttir af því að tollverðir og lögregla hafi komið upp um smygl á fíkniefnum og eiturlyfjum til landsins. Á föstudaginn var hér í Fréttablaðinu frétt um að tveir karlmenn og kona hefðu verið handtekin á Keflavíkurflugvelli á mánudag með hálft kíló af örvandi efnum, og er talið að um kókaín sé að ræða. Þá var í síðustu viku framlengt gæsluvarðhald yfir tveimur konum og einum karli sem reyndu að smygla hingað til lands nærri tveimur kílóum af kókaíni í byrjun ágúst. Tveir aðrir karlmenn eru taldir viðriðnir málið og er allt þetta fólk í gæsluvarðhaldi um þessar mundir. Sumt af því verður líklega undir lás og slá fram í október, eða þar til rannsókn málsins fer að skýrast í smáatriðum. Allt þetta fólk er um og yfir tvítugt, og má gera ráð fyrir því að það sé flest meira og minna háð fíkniefnum, og sumt af því svokölluð burðardýr. Í fyrrihluta ágústmánaðar hefur því tollvörðum og lögreglu tekist að koma upp um smygl á einu og hálfu kílói af kókaíni sem er meira en á heilu ári fyrir nokkrum misserum. Það er því greinilegt að kókaínsmygl hefur færst í aukana, og þarna er því verk að vinna fyrir yfirvöld. Þótt lögreglu og tollvörðum hafi tekist að koma upp um smygl á þessu eitri, má búast við að töluvert hafi flotið framhjá árvökulum augum þeirra sem fylgjast með komu farþega til landsins. Fjölgun kókaíntilfella sem berast heilbrigðisyfirvöldum bendir til þess. Það er mjög brýnt að öllum tiltækum ráðum sé beitt til að koma í veg fyrir aukna kókaínneyslu og þá virðist einsýnt að efling lögreglu og tollgæslu liggi beint við. Refsing fyrir innflutning á fíkniefnum hefur þegar verið hert, en það virðist duga skammt. Því hefur líka verið haldið fram að refsing fyrir fíkniefnabrot, sé í ósamræmi við mörg önnur brot, að harðar sé tekið á þeim en líkamsárásum, svo dæmi séu nefnd, og þrátt fyrir það streymi fíkniefnin til landsins. Hrollvekjandi fréttir af fíkniefnabrotum Íslendinga í fjarlægum löndum birtust í vikunni. Annars vegar var um að ræða pilt sem handtekinn var í Brasilíu á mánudag með um tólf kíló af hassi og hins vegar greindi Fréttablaðið frá því að piltur á þrítugsaldri sæti þar í gæsluvarðhaldi vegna tilraunar til að smygla tveimur kílóum af kókaíni úr landi. Fréttablaðið náði tali af piltinum þar sem hann situr í tíu fermetra klefa ásamt níu öðrum föngum og óttast stöðugt um líf sitt. Lýsingu piltsins á aðstæðum ættu aðrir á svipaðri braut að láta sér að kenningu verða. Það má leiða líkur að því að þessi tvö kíló af kókaíni hafi átt að fara hingað til lands, þótt ekki sé hægt á þessu stigi að fullyrða neitt um það. Þá vaknar óneitanlega sá grunur að einhverjir sem tengjast Íslandi standi á bak við þessar sendingar og piltarnir ungu séu aðeins peð kókaín- og hassbaróna, og séu að greiða fíkniefnaskuldir með því að smygla eitrinu milli landa. Þessi nýlegu dæmi hér heima og erlendis þar sem Íslendingar koma við sögu í fíkniefnamálum, minna enn og aftur á það að þörf er á miklu og öflugu eftirliti til að reyna að koma í veg fyrir að eitrið berist til landsins. Það er ekki nóg að þyngja refsingar fyrir afbrot vegna fíkniefna, aðalatriðið er að koma í veg fyrir að efnin komi til landsins, og þá þarf fjárveitingavaldið að koma til móts við óskir einstakra lögregluembætta í þessum efnum, ekki síst lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, þar sem umferðin er mest. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kári Jónasson Skoðanir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Varla líður sú vika að ekki berist fréttir af því að tollverðir og lögregla hafi komið upp um smygl á fíkniefnum og eiturlyfjum til landsins. Á föstudaginn var hér í Fréttablaðinu frétt um að tveir karlmenn og kona hefðu verið handtekin á Keflavíkurflugvelli á mánudag með hálft kíló af örvandi efnum, og er talið að um kókaín sé að ræða. Þá var í síðustu viku framlengt gæsluvarðhald yfir tveimur konum og einum karli sem reyndu að smygla hingað til lands nærri tveimur kílóum af kókaíni í byrjun ágúst. Tveir aðrir karlmenn eru taldir viðriðnir málið og er allt þetta fólk í gæsluvarðhaldi um þessar mundir. Sumt af því verður líklega undir lás og slá fram í október, eða þar til rannsókn málsins fer að skýrast í smáatriðum. Allt þetta fólk er um og yfir tvítugt, og má gera ráð fyrir því að það sé flest meira og minna háð fíkniefnum, og sumt af því svokölluð burðardýr. Í fyrrihluta ágústmánaðar hefur því tollvörðum og lögreglu tekist að koma upp um smygl á einu og hálfu kílói af kókaíni sem er meira en á heilu ári fyrir nokkrum misserum. Það er því greinilegt að kókaínsmygl hefur færst í aukana, og þarna er því verk að vinna fyrir yfirvöld. Þótt lögreglu og tollvörðum hafi tekist að koma upp um smygl á þessu eitri, má búast við að töluvert hafi flotið framhjá árvökulum augum þeirra sem fylgjast með komu farþega til landsins. Fjölgun kókaíntilfella sem berast heilbrigðisyfirvöldum bendir til þess. Það er mjög brýnt að öllum tiltækum ráðum sé beitt til að koma í veg fyrir aukna kókaínneyslu og þá virðist einsýnt að efling lögreglu og tollgæslu liggi beint við. Refsing fyrir innflutning á fíkniefnum hefur þegar verið hert, en það virðist duga skammt. Því hefur líka verið haldið fram að refsing fyrir fíkniefnabrot, sé í ósamræmi við mörg önnur brot, að harðar sé tekið á þeim en líkamsárásum, svo dæmi séu nefnd, og þrátt fyrir það streymi fíkniefnin til landsins. Hrollvekjandi fréttir af fíkniefnabrotum Íslendinga í fjarlægum löndum birtust í vikunni. Annars vegar var um að ræða pilt sem handtekinn var í Brasilíu á mánudag með um tólf kíló af hassi og hins vegar greindi Fréttablaðið frá því að piltur á þrítugsaldri sæti þar í gæsluvarðhaldi vegna tilraunar til að smygla tveimur kílóum af kókaíni úr landi. Fréttablaðið náði tali af piltinum þar sem hann situr í tíu fermetra klefa ásamt níu öðrum föngum og óttast stöðugt um líf sitt. Lýsingu piltsins á aðstæðum ættu aðrir á svipaðri braut að láta sér að kenningu verða. Það má leiða líkur að því að þessi tvö kíló af kókaíni hafi átt að fara hingað til lands, þótt ekki sé hægt á þessu stigi að fullyrða neitt um það. Þá vaknar óneitanlega sá grunur að einhverjir sem tengjast Íslandi standi á bak við þessar sendingar og piltarnir ungu séu aðeins peð kókaín- og hassbaróna, og séu að greiða fíkniefnaskuldir með því að smygla eitrinu milli landa. Þessi nýlegu dæmi hér heima og erlendis þar sem Íslendingar koma við sögu í fíkniefnamálum, minna enn og aftur á það að þörf er á miklu og öflugu eftirliti til að reyna að koma í veg fyrir að eitrið berist til landsins. Það er ekki nóg að þyngja refsingar fyrir afbrot vegna fíkniefna, aðalatriðið er að koma í veg fyrir að efnin komi til landsins, og þá þarf fjárveitingavaldið að koma til móts við óskir einstakra lögregluembætta í þessum efnum, ekki síst lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, þar sem umferðin er mest.