Margbreytileg samfélag 8. nóvember 2006 00:01 Útlendingar hafa gegnt mikilvægu hlutverki á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár og nú er svo komið að hlutfall útlendinga á vinnumarkaði er hér hærra en í flestum nágrannalöndum okkar. Á sama tíma er hér eitthvert minnsta atvinnuleysi sem um getur í vestrænum samfélögum, atvinnuleysi sem hefur farið minnkandi um leið og útlendingum hefur fjölgað. Það er því ljóst að útlendingar gegna lykilhlutverki á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku hagkerfi. Síðastliðið vor voru samþykkt lög um málefni útlendinga frá Alþingi. Þessi lög kveða á um tiltölulega þröng skilyrði sem útlendingar þurfa að uppfylla til að geta flust hingað til lands, til dæmis um atvinnu. Á þeim tíma snerist umræðan í samfélaginu aðallega um að of langt kynni að hafa verið gengið í takmörkun á aðgengi útlendinga til landsins. Varnaðarorð talsmanna Frjálslynda flokksins um að hefta frjálst flæði útlendinga hingað til lands eru í besta falli tímaskekkja. Frjálst flæði er einfaldlega ekki fyrir hendi þar sem aðgangur útlendinga er þegar mjög takmarkaður. Einstakir þingmenn Frjálslynda flokksins virðast ætla að freista þess að höfða til kjósenda með því að taka upp innflytjendamál á tilfinningalegum nótum meðal annars með því að höfða til fordóma og ótta við hið óþekkta. Þannig er vissulega fetað í fótspor flokka sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi og Frakklandi svo dæmi séu tekin. Umræða er vissulega af hinu góða. Umræða sem einkennist af fordómum og ranghugmyndum er hins vegar ekki líkleg til að bera mikinn ávöxt. Hér á landi þurfum við vitanlega að ræða málefni stöðugt stækkandi hóps innflytjenda. Sú umræða þarf hins vegar að snúast um það hvernig við tökum best á móti þessu fólki sem leggur stóran skerf til íslensks atvinnulífs. Hún þarf að snúast um það hvernig við aðstoðum útlendinga við að samlagast íslensku samfélagi, ætli þeir sér að setjast hér að. Hún þarf að snúast um að hjálpa útlendingum til þess að komast inn í samfélagið þannig að þeir njóti hér réttar til félags- og heilbrigðisþjónustu. Hún þarf að snúast um íslenskukennslu til handa þeim útlendingum sem hér hyggjast eiga heima til frambúðar. Hún þarf að snúast um íslenskukennslu, móðurmálskennslu og annan stuðning í skólum landsins til handa börnum útlendinga sem hingað koma til starfa, börnum sem seinna verða fullorðnir íslenskir þegnar. Hún þarf einnig að snúast um fræðslu um trúarbrögð og mismunandi menningu þannig að það fólk sem Ísland byggir nýti fjölbreytnina til aukinnar víðsýni. Um þessi atriði og mörg fleiri eigum við að ræða með opnum huga og af fordómaleysi. Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag. Markmiðið hlýtur að vera að þróa samfélag þar sem ólíkt fólk lifir í sátt og samlyndi og þar sem virðing er borin fyrir margbreytileikanum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Styrkjum stöðu sjúkraliða fyrir betri heilbrigðisþjónustu Sandra B. Franks Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sterk sveitarfélög skipta máli Heiða Björg Hilmisdóttir Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Útlendingar hafa gegnt mikilvægu hlutverki á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár og nú er svo komið að hlutfall útlendinga á vinnumarkaði er hér hærra en í flestum nágrannalöndum okkar. Á sama tíma er hér eitthvert minnsta atvinnuleysi sem um getur í vestrænum samfélögum, atvinnuleysi sem hefur farið minnkandi um leið og útlendingum hefur fjölgað. Það er því ljóst að útlendingar gegna lykilhlutverki á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku hagkerfi. Síðastliðið vor voru samþykkt lög um málefni útlendinga frá Alþingi. Þessi lög kveða á um tiltölulega þröng skilyrði sem útlendingar þurfa að uppfylla til að geta flust hingað til lands, til dæmis um atvinnu. Á þeim tíma snerist umræðan í samfélaginu aðallega um að of langt kynni að hafa verið gengið í takmörkun á aðgengi útlendinga til landsins. Varnaðarorð talsmanna Frjálslynda flokksins um að hefta frjálst flæði útlendinga hingað til lands eru í besta falli tímaskekkja. Frjálst flæði er einfaldlega ekki fyrir hendi þar sem aðgangur útlendinga er þegar mjög takmarkaður. Einstakir þingmenn Frjálslynda flokksins virðast ætla að freista þess að höfða til kjósenda með því að taka upp innflytjendamál á tilfinningalegum nótum meðal annars með því að höfða til fordóma og ótta við hið óþekkta. Þannig er vissulega fetað í fótspor flokka sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi og Frakklandi svo dæmi séu tekin. Umræða er vissulega af hinu góða. Umræða sem einkennist af fordómum og ranghugmyndum er hins vegar ekki líkleg til að bera mikinn ávöxt. Hér á landi þurfum við vitanlega að ræða málefni stöðugt stækkandi hóps innflytjenda. Sú umræða þarf hins vegar að snúast um það hvernig við tökum best á móti þessu fólki sem leggur stóran skerf til íslensks atvinnulífs. Hún þarf að snúast um það hvernig við aðstoðum útlendinga við að samlagast íslensku samfélagi, ætli þeir sér að setjast hér að. Hún þarf að snúast um að hjálpa útlendingum til þess að komast inn í samfélagið þannig að þeir njóti hér réttar til félags- og heilbrigðisþjónustu. Hún þarf að snúast um íslenskukennslu til handa þeim útlendingum sem hér hyggjast eiga heima til frambúðar. Hún þarf að snúast um íslenskukennslu, móðurmálskennslu og annan stuðning í skólum landsins til handa börnum útlendinga sem hingað koma til starfa, börnum sem seinna verða fullorðnir íslenskir þegnar. Hún þarf einnig að snúast um fræðslu um trúarbrögð og mismunandi menningu þannig að það fólk sem Ísland byggir nýti fjölbreytnina til aukinnar víðsýni. Um þessi atriði og mörg fleiri eigum við að ræða með opnum huga og af fordómaleysi. Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag. Markmiðið hlýtur að vera að þróa samfélag þar sem ólíkt fólk lifir í sátt og samlyndi og þar sem virðing er borin fyrir margbreytileikanum.